Þórður Þórkelsson
Þórður Þórkelsson
Tíðni ungbarnadauða er mjög lág hér á landi, eða þrisvar sinnum lægri en meðaltíðni í löndum Evrópusambandsins, samkvæmt nýjum gögnum Eurostat sem birtust í Morgunblaðinu á þriðjudag.

Tíðni ungbarnadauða er mjög lág hér á landi, eða þrisvar sinnum lægri en meðaltíðni í löndum Evrópusambandsins, samkvæmt nýjum gögnum Eurostat sem birtust í Morgunblaðinu á þriðjudag.

„Það sem mestu máli skiptir varðandi velferð ungbarna er að hér á landi er mjög gott mæðraeftirlit, fæðingahjálp og ungbarnavernd, auk þess sem þjónusta við nýfædd börn er mjög góð,“ segir Þórður Þórkelsson, yfirlæknir nýburalækninga og vökudeildar Barnaspítala Hringsins.

„Það skiptir trúlega einnig máli að bæði mæðraeftirlit og ungbarnavernd eru ókeypis, auk þess sem aðgengi að heilbrigðisþjónustu hér á landi er almennt mjög gott.“

Spurður hvort bólusetningar gegn ungbarnasjúkdómum hafi áhrif segir hann að þó svo að í sumum löndum Evrópu séu hlutfallslega færri börn bólusett en hér á landi skýri það trúlega ekki þennan mun á dánartíðni milli landa, þar sem börn séu ekki að deyja úr þeim sjúkdómum í sama mæli og hér áður fyrr.

Það sem greini hins vegar helst milli Íslands og margra annarra landa sé þessi þjónusta við verðandi mæður og nýfædd börn hér á landi, sem skipti miklu máli því mesta hættan á að eitthvað fari úrskeiðis og að börn veikist alvarlega sé í kringum fæðinguna og á fyrstu dögum lífsins.

Í því sambandi skipti máli nálægð vökudeildarinnar við fæðingardeild Landspítalans, þar sem þrjú börn af hverjum fjórum fæðist hér á landi og allar áhættufæðingar fari fram. Enn fremur sé þar nýburalæknir til staðar allan sólarhringinn.

„Þetta er þjónusta sem ekki er boðið upp á hvar sem er,“ segir Þórður. Þá tekur hann fram að öll börn sem fæðast á Landspítalanum séu skoðuð af lækni á fyrsta sólarhring lífs þeirra og aftur við fimm daga aldur, auk þess sem þau séu skimuð fyrir meðfæddum hjartagöllum fyrir heimför.

Eftir að heim er komið fái móðir og barn heimsókn ljósmóður daglega fyrstu 7-10 dagana, nokkuð sem ekki er almennt boðið upp á í öðrum löndum Evrópu.

„Ég leyfi mér því að halda því fram að þjónusta hér við nýfædd börn sé að mörgu leyti betri en hún er í flestum öðrum löndum í hinum vestræna heimi.“ ari@mbl.is