Upphafið Sigurður Ólafsson, umsjónarmaður lifrarlækninga á Landspítala og fyrsti höfundur greinarinnar, þegar átakið var kynnt haustið 2015.
Upphafið Sigurður Ólafsson, umsjónarmaður lifrarlækninga á Landspítala og fyrsti höfundur greinarinnar, þegar átakið var kynnt haustið 2015. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Guðni Einarsson gudni@mbl.is Markmið um þjónustuþekjun í átt að útrýmingu lifrarbólgu C sem meiri háttar lýðheilsuvanda náðust á Íslandi á fyrstu þremur starfsárum Meðferðarátaks gegn lifrarbólgu C sem hófst 2016.

Fréttaskýring

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Markmið um þjónustuþekjun í átt að útrýmingu lifrarbólgu C sem meiri háttar lýðheilsuvanda náðust á Íslandi á fyrstu þremur starfsárum Meðferðarátaks gegn lifrarbólgu C sem hófst 2016. Í markmiðum um þjónustuþekjun felst að 90% tilfella séu greind og að 80% tilfella séu meðhöndluð.

Vísindatímaritið The Lancet Gastroenterology & Hepatology birti 22. júní grein eftir hóp vísindamanna á Landspítala, Sjúkrahúsinu Vogi og hjá embætti landlæknis um árangur átaksins. Af 865 greindum tilfellum lifrarbólgu C á Íslandi fengu 824 (95,3%) þjónustu í átakinu og 717 (90,2%) hlutu lækningu á þeim tíma. Talað er um þennan árangur sem mikilvægan áfanga í átt að útrýmingu lifrarbólgu C, samkvæmt fréttatilkynningu frá forsvarsmönnum átaksins þeim Sigurði Ólafssyni, Ragnheiði Huldu Friðriksdóttur og Magnúsi Gottfreðssyni.

Skipulagningu átaksins er lýst í greinini í The Lancet G&H og hvernig það var þróað með þverfaglegu samstarfi þriggja sérgreina (lifrarlækninga, smitsjúkdómalækninga og fíknilækninga). Helsta smitleið lifrarbólgu C á Íslandi er samnýting áhalda hjá þeim sem neyta fíkniefna í æð. Rekja má meirihluta nýrra og eldri smita til slíkrar notkunar.

Öllum sem greinst höfðu með sjúkdóminn var boðin lyfjameðferð í átakinu. Markmiðið var að útrýma sjúkdómnum sem meiri háttar lýðheilsuvandamáli fyrir árið 2030 í samræmi við markmið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Þrátt fyrir þann mikla árangur sem náðist hér greinast enn ný lifrarbólgu C-smit og tekið er fram að þeir sem læknast geta smitast á ný.

„Við höfum haldið fjöldann allan af erindum um átakið og kynnt mörg vísindaágrip á alþjóðlegum ráðstefnum á undanförnum árum. Það hafa margir leitað til okkar og horft á hvernig við nálgumst þetta vandamál. Við höfum líka lært af öðrum,“ sagði Sigurður Ólafsson, umsjónarlæknir lifrarlækninga á Landspítalanum, sem hefur verið í forsvari fyrir verkefnið.

Hann sagði að sú þverfaglega nálgun sem hér var beitt og samvinna við fíknilækningar á Vogi hafi gert kleift að bjóða þessa þjónustu þeim sem sprauta sig með vímuefnum í æð. Sá hópur hefur víða annars staðar orðið út undan eða verið útilokaður frá meðferð. „Augu lækna og annarra eru víða að opnast fyrir því að það er nauðsynlegt að nálgast þennan sjúklingahóp ef á að ná tökum á þessu vandamáli,“ sagði Sigurður. Hann sagði mikilvægt að halda þessu starfi áfram. Auk þess að gefa lyf þurfi að beita forvörnum og öflugri fíknimeðferð.

Lyf fyrir tíu milljarða króna

Verkefnið hófst að frumkvæði lækna á Landspítala. Bandaríska lyfjafyrirtækið Gilead féllst á að veita án endurgjalds aðgang að öflugum en afar dýrum lyfjum. Samningur til þriggja ára var framlengdur og gildir út þetta ár. Áætlað er að markaðsvirði umræddra lyfja sem Íslendingar hafa fengið frá upphafi átaksins geti numið allt að tíu milljörðum íslenskra króna. Skjólstæðingar átaksins hafa fengið lyfin án endurgjalds. Miklar takmarkanir eru á notkun þeirra víða um heim vegna mikils kostnaðar. Þessi lyf hafa valdið straumhvörfum í meðferð lifrarbólgu C.

Náðu til fíknisjúklinga

Þverfagleg skaðaminnkandi nálgun sem beitt var með nánu samstarfi Landspítala og SÁÁ í átakinu gegn lifrarbólgu C gerði kleift að ná til sjúklinga með alvarlegan fíknisjúkdóm sem reynsla flestra annarra landa en Íslands sýnir að erfitt er að ná til.

„Þetta er talið lykillinn að þeim mikla árangri í meðferð sjúklinga með lifrarbólgu C sem lýst er í greininni. Þessi nálgun varð einnig til þess að samstarf um skimun og meðferð var komið á í fangelsum, félagslegum úrræðum og skaðaminnkandi úrræðum á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka sem hafa snertiflöt við einstaklinga sem nota vímuefni í æð,“ segir í tilkynningunni.