Í höfn Viking Sky kom til Reykjavíkur í gærmorgun. Ekki er búist við mörgum stórum farþegaskipum í ár.
Í höfn Viking Sky kom til Reykjavíkur í gærmorgun. Ekki er búist við mörgum stórum farþegaskipum í ár. — Morgunblaðið/Unnur Karen
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins kom til Reykjavíkur í gærmorgun. Það var Viking Sky sem lagðist að bryggju við Skarfabakka og hefur viðdvöl þar fram á sunnudag.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins kom til Reykjavíkur í gærmorgun. Það var Viking Sky sem lagðist að bryggju við Skarfabakka og hefur viðdvöl þar fram á sunnudag. Viking Sky er 48 þúsund brúttótonn og getur tekið 930 farþega. Í fyrstu ferð sumarsins eru hins vegar bókaðir um 400 farþegar. Í áhöfn eru 545.

Viking Sky sigldi hingað án farþega en þeir koma allir til landsins í gegnum Keflavíkurflugvöll. Farþegarnir eru allir bólusettir, að því er fram kemur á heimasíðu Faxaflóahafna.

Samkvæmt upplýsingum frá Faxaflóahöfnum munu að mestu leyti lítil og miðlungsstór farþegaskip sækja Ísland heim í ár. „Hverfandi líkur eru á því að stór skemmtiferðaskip muni koma til landsins. Það eru enn bókaðar nokkrar þannig skipakomur, en byggt á reynslu fyrra árs munu stóru skipin að öllum líkindum afbóka eftir því sem nær dregur,“ segir á heimasíðu Faxaflóahafna.

Í byrjun árs var reiknað með hátt í tvö hundruð farþegaskipum til Faxaflóahafna með um 217 þúsund farþega. Talsvert hefur verið um afbókanir og nú eru 92 skipakomur áætlaðar með alls 60.419 farþega.

Útlit fyrir metár á næsta ári

Eins og Morgunblaðið hefur áður greint frá eru horfur um skipakomur talsvert betri á næsta ári enda má þá telja að betra jafnvægi hafi skapast eftir því sem kórónuveirufaraldurinn fjarar út. „Bókunarstaða fyrir árið 2022 er mjög góð og lítur út fyrir að það ár verði metár hvað varðar skipakomur og farþegafjölda ef allt gengur eftir,“ segir á vef Faxaflóahafna.