Það var hér um bil ómögulegt að samgleðjast ekki Dönum þegar þeir tryggðu sér sæti í 16-liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu karla með frábærum 4:1-sigri gegn Rússlandi í lokaumferð B-riðils keppninnar á mánudaginn.
Það var hér um bil ómögulegt að samgleðjast ekki Dönum þegar þeir tryggðu sér sæti í 16-liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu karla með frábærum 4:1-sigri gegn Rússlandi í lokaumferð B-riðils keppninnar á mánudaginn.

Mótlætið sem danska liðið hefur lent í hefur verið með nokkrum ólíkindum. Mótið byrjaði á því að Christian Eriksen fór í hjartastopp í leik gegn Finnlandi og óttuðust samherjar hans réttilega um líf hans. Betur fór en á horfðist hjá Eriksen en Dönum voru settir þeir stórfurðulegu afarkostir á leikdag að halda annaðhvort leiknum áfram síðar þann dag eða í hádeginu daginn eftir.

Af tvennu illu völdu þeir að halda áfram leiknum nokkrum klukkutímum síðar og töpuðu honum, eðlilega ekki upp á sitt besta. Danir töpuðu svo naumlega gegn ógnarsterku liði Belga í annarri umferð en svo kom sigurinn á mánudag. Með hjálp Belga, sem unnu Finna, komust Danirnir áfram með aðeins þrjú stig.

En af hverju ætti að vera svona erfitt að samgleðjast Dönum? Nú leyfi ég mér að alhæfa, en danski hrokinn á það til að ganga fram af manni, og er þá sama hvar fæti er drepið niður. Danir eru einfaldlega bestir í öllu, að minnsta kosti að eigin mati.

Ég hef kosið að líta fram hjá hrokanum á mótinu enda endurspeglaði þessi leikur gegn Rússum allt það sem ég, og eflaust flestir aðrir, kunna að meta við knattspyrnu. Hugarfar og samheldni Dana eftir allt mótlætið, falleg mörk, stress, óvissa og hrein og tær gleði leikmanna, stuðningsmanna og starfsliðsins þegar ljóst var að þeir væru komnir áfram.