Britney Spears Aðdáendur Spears mótmæltu fyrir utan réttarsalinn.
Britney Spears Aðdáendur Spears mótmæltu fyrir utan réttarsalinn. — AFP
„Ég vil bara fá líf mitt til baka.

„Ég vil bara fá líf mitt til baka. Þetta hafa verið þrettán ár, og það er nóg,“ sagði bandaríska poppsöngkonan Britney Spears meðal annars í framburði sínum í fyrrinótt, en Spears krafðist þess að dómari í Los Angeles myndi binda endi á lögræðissviptingu hennar. Jamie Spears, faðir Britney, hefur farið með öll málefni hennar frá árinu 2008, eftir að söngkonan fékk taugaáfall í kjölfar hjónaskilnaðar og forræðisdeilu.

Vitnisburður Spears, sem er 39 ára gömul, stóð yfir í um tuttugu mínútur og beið hópur aðdáenda hennar fyrir utan réttarsalinn og krafðist þess að Spears yrði „frelsuð“ frá föður sínum.

Meðal þess sem kom fram í vitnisburði söngkonunnar var að faðir hennar hefði komið í veg fyrir að hún gæti fjarlægt lykkjuna úr líkama sínum, þrátt fyrir að hana langaði í fleiri börn. Sagðist Spears núna glíma við þunglyndi og að hún gréti á hverjum degi.

Þá sagði Spears föður sinn hafa neytt hana til að taka inn geðlyfið liþíum eftir að hún neitaði að hefja aðra runu tónleika í Las Vegas, eftir að hafa komið þar fram á reglulegum tónleikum í fjögur ár. Sagði Spears að faðir hennar„nyti þess“ að hafa öll yfirráð yfir henni, og að hún hefði í raun yfirkeyrt sig á vinnu, svo að aðrir gætu hirt hagnaðinn þar af.

Málefni söngkonunnar vöktu athygli síðastliðinn febrúar þegar ný heimildamynd birtist í Bandaríkjunum þar sem farið var rækilega yfir feril Spears og lögræðissviptingu hennar. Hafa fjölmargir af aðdáendum hennar kallað eftir því að bundinn verði endir á það fyrirkomulag, og mun söngkonan krefjast þess að ef hún fái ekki lögræði sitt, að lögmanni hennar verði falið það í stað föður hennar.

Vitnisburðurinn olli nokkru umtali vestanhafs, og stigu nokkrar stórstjörnur fram og lýstu yfir stuðningi við baráttu söngkonunnar. Þar á meðal var Justin Timberlake, fyrrverandi kærasti Spears, en hann sagði að enginn ætti skilið þá meðferð sem söngkonan hefði fengið.