Jóna Þorsteinsdóttir fæddist á Ketilsstöðum í Mýrdal 29. maí 1926. Hún lést á hjartadeild Landspítalans 10. júní 2021. Foreldrar Jónu voru Þorsteinn Gunnarsson frá Steig, f. 29. desember 1893, d. 10. september 1934, og Margrét Grímsdóttir frá Skeiðflöt í Mýrdal, f. 26. febrúar 1895, d. 20. maí 1971. Jóna var næstyngst sex systkina sem öll eru látin. Þau voru Unnur, f. 24. júní 1920, d. 23. júní 1921, Unnur Guðjónína, f. 17. ágúst 1921, d. 16. nóvember 1993, Gunnar, f. 17. mars 1923, d. 13. janúar 2006, Auðbjörg, f, 4. júní 1924, d. 23. mars 2017, Guðjón Þorsteinn, f. 14. maí 1928, d. 21. júní 2001.

Jóna giftist 19. maí 1956 Hirti Elíassyni, f. 22. maí 1923, frá Saurbæ í Holtahreppi í Rangárvallasýslu, d. 18. febrúar 2003. Börn þeirra eru Þorsteinn Grétar Hjartarson, f. 24. október 1958, Sigríður Hjartardóttir, f. 8. júlí 1965. Eiginmaður Sigríðar er Viðar Helgason, f. 2. nóvember 1966. Eiga þau fjögur börn: Hjördísi Unni, f. 2. september 1983, Bergdísi Jónu, f. 23. nóvember 1993, Theodór Unnar, f. 7. júlí 1995, og Eydísi Helgu, f. 15. janúar 2003. Barnabarnabörnin eru fjögur.

Jóna flutti ung til Reykjavíkur til þess að vinna. Hún vann ýmis störf, vann í heimahúsum við þrif fyrst í stað, síðan á Hótel Skjaldbreið. Hún var heimavinnandi húsmóðir í nokkur ár. Eftir mörg ár sem húsmóðir fór hún að vinna í Lakkrísgerðinni Krumma, síðan við þrif í grunnskólum.

Útförin fór fram í kyrrþey.

Elsku mamma er nú horfin á braut, hún var ótrúleg kona, jákvæðari og yndislegri konu er varla hægt að hugsa sér. Hún ólst upp við erfiðar aðstæður, hún missti föður sinn þegar hún var átta ára gömul, móðir hennar hélt áfram búskap með börnum sínum og kom þeim öllum til manns. Mamma hugsaði ætíð vel um heilsuna enda bar hún aldur sinn vel. Þegar ég var krakki var drukkið eplaedik með matnum og við borðuðum mikið af lífrænt ræktuðu grænmeti sem hún og pabbi ræktuðu. Mamma var einstaklega skapgóð kona, þegar maður var eitthvað að æsa sig þá sagði hún ávallt að það borgaði sig ekki að eyða orkunni í rifrildi, að það skilaði engu. Enda man ég ekki eftir rifrildum í uppvextinum, mamma og pabbi áttu einstaklega vel saman og voru ótrúlega samhent hjón. Þegar pabbi fellur frá fyrir 18 árum þá kaupum við hús, mamma átti sína íbúð á neðri hæðinni. Þannig að samgangurinn var mikill, ekki slæmt fyrir krakkana mína að hafa ömmu að leita til þegar við vorum í vinnu. Það sem gat einstöku sinnum pirrað krakkana var að amma Jóna var alltaf með puttann á púlsinum þegar krakkarnir voru að fara út – þá kom hún í dyragættina og minnti þá á að klæða sig vel, það væri kannski svolítið kalt úti og fannst henni klæðaburðurinn stundum ekki við hæfi miðað við veðurfar.

Mamma var alltaf að, ég man ekki eftir henni öðruvísi en á fleygiferð. Minningin úr landinu, þá voru mamma og pabbi alltaf að gróðursetja, setja niður grænmeti, reyta og taka upp grænmeti. Ég lét oft þau orð falla að þau þyrftu að læra að slaka á og þá kom svarið: við erum bara að gera það sem við höfum gaman af.

Mamma var einstaklega nýtin kona, hún mátti ekki sjá að mat væri hent, það var ekki það sem hún ólst upp við. Hún nýtti gömul föt, handklæði, sængurver í tuskur og fleira. Hún var ansi oft búin að stoppa í sokka sem ég hefði nú bara hent, en í hennar augum var alltaf hægt að gefa fötum lengri lífdaga.

Við fórum í nokkuð margar utanlandsferðirnar saman. Ferðirnar til Glasgow fyrir jólin urðu þó nokkrar þar sem við keyptum allar jólagjafirnar og nutum þess að vera saman. Ekki má gleyma ferðinni þegar við Viðar bjuggum í Englandi og mamma var 70 ára og við héldum upp á afmælið úti. Mamma var alltaf með vekjaraklukku meðferðis á ferðalögum. Á leiðinni heim til Íslands þá, hafði hún vafið vasaklút utan um klukkuna í veskinu sínu og var tekin afsíðis á Heathrow-flugvelli og það sem við höfum hlegið að þessari sögu, þar sem Jóna var talin vera hættulegur hryðjuverkamaður með sprengju á ferð.

Jóna var frábær mamma, yndisleg amma og langamma. Ekkert gladdi hana meira en að hitta og heyra í barnabörnunum og litlu dúskunum eins og hún kallaði litlu langmömmustrákana sína. Þegar við hittumst öll fjölskyldan og vorum að rifja upp minningar um mömmu þá var sama sagan hjá öllum, það áttu allir svo góðar minningar um hana. Það er ekki slæmt að skilja þannig minningar eftir um sig.

Það verður erfitt að fylla upp í tómarúmið sem þú skilur eftir þig. Elska þig að eilífu. Minning um yndislega konu lifir.

Þín dóttir

Sigríður.

Jóna Þorsteinsdóttir tengdamóðir mín lést þann 10. júní síðastliðinn eftir tveggja mánaða sjúkrahúsdvöl. Það var dýrmætt í lok maí, að sækja hana á Landspítalann og fara með til að halda upp á 95 ára afmælið hennar með börnum hennar, barnabörnum og mökum þeirra og barnabarnabörnunum auk mín tengdasonarins.

Eftir andlát Hjartar eiginmanns hennar árið 2003 keyptum við Sigga hús með Jónu og bjuggum þar með börnum okkar Siggu. Það voru forréttindi að kynslóðir bjuggu saman á þennan hátt sem við gerðum, og ákveðið afturhvarf til eldri tíma. Ómetanlegt fyrir börnin okkar sem nutu umhyggju ömmu sinnar eftir skóladag eða ef foreldrarnir brugðu sér af bæ. Áður hafði Hjördís, þá 12 ára, valið að vera hjá afa og ömmu í góðu yfirlæti þeirra meðan við fluttum til Englands í eitt ár. Þótt unglingunum hafi á köflum þótt umhyggjusemi Jónu vera afskiptasemi, vita þau að allt var þetta af ást hennar til þeirra og góðum huga og þessar minningar sem aðrar munu lifa með þeim. Þegar barnabörnin okkar komu til, naut hún þess að sjá mun meira af þeim en langömmur eiga að venjast, búandi í sama húsi og við. Jóna var umfram annað í lífinu eiginkona, húsmóðir, móðir, amma og langamma sem lagði sig í líma við að sinna sínu fólki, heimilinu og frændfólkinu. Jóna og Hjörtur byggðu sér hæð í Langholtshverfi á sínum tíma og gerðust síðar frumbyggjar í Ártúnsholtinu þar sem keyptu raðhús sem þau bjuggu í fram að andláti Hjartar. Jafnframt byggðu þau sér lítinn sumarbústað og ræktuðu upp land rétt austan borgarinnar. Þar var þeirra líf og yndi.

Jóna hafði alist upp við kröpp kjör í sveit, í kreppunni. Allsnægtir nútímans voru þar fjarri. Þetta markaði líf hennar þannig að nýtni og nægjusemi voru henni í blóð borin. Ég held að henni hafi fundist á köflum að við Sigga hefðum mátt vera nýtnari og forsjálli á mörgum sviðum. Ekki að hún hafi verið að reyna að stjórna hvernig við lifðum lífi okkar, langt í frá. Hún var t.d. ekkert hrifin þegar við tókum upp á því að fá okkur hund. En hún og Aleda okkar urðu fljótt miklir félagar, og gönguferðir þeirra saman gáfu henni mikinn selskap því fólk sem hún mætti ræddi við hana á meðan það kjassaði og dásamaði hundinn. Og hún gerði enga athugasemd þegar við fengum okkur nýjan hund, Simba, hún hafði saknað Aledu sinnar. Sambúðin með hundunum var Jónu mikils virði, og hundarnir kunnu að meta aukabitana og AB-mjólkina sem hún stakk að þeim.

Jónu féll varla verk úr hendi. Lengi hjálpaði hún til við heimilishald með því að þrífa hjá okkur og gera sitt til að létta undir með okkur í dagsins önn. Það var ekki fyrr en hún var hætt að treysta sér hjálparlaust í stigann upp á efri hæð, að hún varð að láta af því. Hún eldaði sjálf fyrir sig allt fram undir það síðasta. Hún afsakaði iðju sína alltaf með því að hún hefði ekkert betra að gera.

Að leiðarlokum langar mig með örfáum orðum að þakka Jónu allt það sem hún gaf og gerði fyrir mig og mína alla tíð. Þessi orð gera lítið til að jafna þá skuld. Guð geymi Jónu Þorsteinsdóttur og blessi minningu hennar.

Viðar Helgason.

Bráðum er brotinn

bærinn minn á heiði.

Hlýtt var þar stundum

- hann er nú í eyði.

Man ég þá daga.

Margt var þá á seyði.

(Jóhannes út Kötlum)

Látin er kær móðursystir, hún Jóna frænka, næstyngst sex barna þeirra Margrétar og Þorsteins á Ketilsstöðum í Mýrdal. Ung misstu þau föður sinn en móðir þeirra hélt vel utan um hópinn þeirra. Mikil ábyrgð var lögð á ungar herðar, en með kjarki og dugnaði tókst þeim að halda búinu gangandi. Margrét amma var börnum sínum góð fyrirmynd, einstaklega umtalsfróm, harðdugleg og reglusöm um alla hluti og strangheiðarleg. Hún kenndi börnum sínum og síðar barnabörnum bænir, sem fylgt hafa okkur áfram.

Alla þessa eiginleika erfði hún Jóna. Hún var létt í lund, ljúf og falleg. Eftir að hún flutti að heiman var mikil tilhlökkun þegar hún kom heim í Mýrdalinn, en hún réð sig ýmist í vist eins og tíðkaðist mjög í þá daga, þjónustustörf og fleira. Já og ekki má gleyma heyskapnum, en þar stóð henni enginn á sporði og var á orði haft að með ólíkindum væri hvað gengi undan stúlkunni, því að hún sýndist vart hreyfast. Það kom sér vel því að hún var ekki fyrir að láta á sér bera. Alltaf kom hún færandi hendi, setti það einhvers staðar bakatil: „Uss, þetta er ekkert! Ekki að nefna það!“ Og „alls enga fyrirhöfn“ ef hellt var á könnu, að ekki sé nefnt meðlæti. Þetta var konan sem opnaði heimilið fyrir fólkinu sínu, allt var sjálfsagt, gisting og veislukostur. „Uss, látið ekki svona,“ var viðkvæðið ef einhver leyfði sér að hrósa gestgjöfunum.

Það var um sumar að Jóna kom í sveitina með kærasta, öðlinginn hann Hjört sem varð strax sem einn af fjölskyldunni og mikið voru þau glæsilegt par. Hjá þeim átti Margrét amma öruggt og gott skjól síðustu æviár sín. Gaman var að fylgjast með hve samhent þau voru um hvaðeina. Þau keyptu landskika skammt frá Reykjavík, heldur óárennilegan við fyrstu sýn, en þarna sáu þau tækifæri og með ómældri vinnu og útsjónarsemi breyttu þau landinu í unaðsreit, þar sem þau ræktuðu blóm, tré og lífrænt grænmeti og byggðu lítinn sumarbústað. Vinnan veitti þeim ómælda gleði, enda uppskáru þau eins og sáð var til. Þátttakendur í þessu ævintýri og fleirum voru börnin þeirra Steini og Sigga. Ferðuðust þau um landið milli þess að þau áttu yndisstundir „uppi í Landi“.

Jóna var alla tíð sjálfstæð og eftir að Hjörtur féll frá keypti hún sér litla íbúð. Þar gat hún séð um sig sjálf, en um leið notið ómetanlegrar nálægðar Siggu, Viðars og barnabarnanna, sem bjuggu á efri hæðinni og voru endalausir gleðigjafar. Hin síðustu ár naut hún öryggis og umhyggju síns fólks eins og Margrét amma hafði áður gert.

Við systkinin frá Vatnsskarðshólum þökkum af hjarta gjöfula samfylgd. Megi minning Jónu frænku lýsa fallegu fjölskyldunni hennar og okkur öllum fram á veginn.

Margs er að minnast.

Margt er enn á seyði.

Bleikur er varpinn,

- bærinn minn í eyði.

Syngja þó ennþá

svanir fram á heiði.

(Jóhannes úr Kötlum)

Margrét Steina Gunnarsdóttir.

Elsku Jóna frænka mín.

Það er erfitt að sætta sig við að dagur sé að kvöldi kominn hjá þér. Þú varst lifandi sönnun þess að aldur er bara tala. Enda eins og ég sagði þér svo oft, varstu mér svo góð fyrirmynd í svo mörgu og það er mitt markmið að fá að eldast jafn vel og þú. Alltaf gastu hlegið jafn mikið að því, enda hógvær með eindæmum.

Ég á eftir að sakna þess mikið að geta komið í heimsókn til þín. Það var alltaf tilhlökkunarefni hjá mér, Alexöndru og Anthony að koma í heimsókn til Jónu frænku. Enda fastur liður í hverri Íslandsferð á meðan við bjuggum erlendis að koma til þín í Heiðarásinn. Þú varst svo einstaklega gestrisin og gott að koma til þín. Það var alltaf svo gaman að spjalla við þig og þú hafðir frá svo mörgu fróðlegu og skemmtilegu að segja. Sérstaklega var gaman að heyra sögur frá því í „gamla daga“.

Ég á alltaf eftir að geyma í hjartanu símtalið okkar núna um daginn á afmælinu þínu. Það var svo dýrmætt að hitta svona vel á þig. Ég var reyndar alveg sannfærð eftir það um að þú myndir komast heim aftur og ná þér.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið þann heiður að eiga þig sem frænku og fyrirmynd í þessu lífi. Ég veit að Hjörtur hefur tekið vel á móti þér hinum megin, ásamt öllum þínum sem fóru á undan þér yfir. Fallegasti engillinn er kominn heim.

Mínar allra hlýjustu samúðarkveðjur til ykkar, elsku Steini, Sigga, Viðar, Hjördís, Teddi, Bergdís og Eydís.

Unnur Elfa.