Atvinnuleysi á vinnumarkaðinum dróst saman um 2,8 prósentustig á milli mánaðanna apríl og maí samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands sem birt var í gær. Mældist atvinnuleysið 5,8% í könnun Hagstofunnar.

Atvinnuleysi á vinnumarkaðinum dróst saman um 2,8 prósentustig á milli mánaðanna apríl og maí samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands sem birt var í gær. Mældist atvinnuleysið 5,8% í könnun Hagstofunnar.

Í ljós kom að árstíðaleiðrétt atvinnuþátttaka var 77,9% í maímánuði og var hlutfall starfandi á vinnumarkaðinum 72,2%. Samanburður við sama tímabil á seinasta ári sýnir að atvinnuþátttakan dróst saman um eitt prósentustig þegar búið er að leiðrétta útreikningana með tilliti til árstíðabundinna sveiflna.

Alls voru 210.600 einstaklingar á aldrinum 16 til 74 ára á vinnumarkaðinum í maí sl. sem jafngildir 80% atvinnuþátttöku. Af vinnuaflinu voru tæplega 193 þúsund manns starfandi og 17.600 án atvinnu og í atvinnuleit.

Í umfjöllun Hagstofunnar kemur einnig fram að 36.500 einstaklingar hafi haft það sem kallað er „óuppfyllt þörf fyrir atvinnu“. Af þeim sögðust m.a. 48,8% vera atvinnulausir, 16,1% sagðist vera tilbúið að vinna en ekki að leita að vinnu og 25% eru vinnulítil, þ.e. eru í hlutastarfi en vilja vinna meira.