Dans Sinfónían AIÔN, eftir Önnu Þorvaldsdóttur og Ernu Ómarsdóttur, er unnin í samstarfi við Íslenska dansflokkinn og verður sýnd í haust.
Dans Sinfónían AIÔN, eftir Önnu Þorvaldsdóttur og Ernu Ómarsdóttur, er unnin í samstarfi við Íslenska dansflokkinn og verður sýnd í haust. — Ljósmynd/Sinfóníuhljómsveit Íslands
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristín Heiða Kristinsdóttir khk@mbl.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Mikil eftirvænting ríkir hjá okkur og ánægjulegt að geta farið aftur af stað með nýtt starfsár af fullum krafti,“ segir Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en í gær var næsta starfsár hljómsveitarinnar kynnt til sögunnar.

„Óvenjumargir hápunktar verða á árinu því við erum líka að setja á dagskrá viðburði sem hafa frestast. Fyrst ber að nefna stóra viðburði eins og AIÔN, eftir Önnu Þorvaldsdóttur og Ernu Ómarsdóttur, í samstarfi við Íslenska dansflokkinn. Í febrúar verður óperan Valkyrjan eftir Wagner sett á svið í samstarfi við Íslensku óperuna og Listahátíð í Reykjavík. Við hlökkum mikið til að geta sett þessa tvo viðburði aftur á dagskrá,“ segir Lára og bætir við að starfsárið hefjist á tónleikunum Ný klassík í ágúst. Þar munu ungstirnin Bríet, GDRN, Reykjavíkurdætur, JóiP og Króli meðal annarra stíga inn í okkar sinfóníska heim með lögin sín. Við verðum líka með opið hús hjá sinfóníunni á Menningarnótt.“

Heiðra Vladimir Ashkenazy

Lára segir að eitt af því stóra sé að Víkingur Heiðar Ólafsson verði staðarlistamaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands næsta starfsár.

„Hann verður með okkur á þrennum tónleikum og mun flytja þrjá nýlega píanókonserta, en tónskáld konsertanna munu stjórna tónleikunum. Við erum afskaplega ánægð með að þetta hafi orðið að veruleika og einir af tónleikum Víkings Heiðars verða sýndir í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV,“ segir Lára og bætir við að þar fyrir utan haldi Víkingur Heiðar einleikstónleika í nóvember.

„Í september verður Níunda sinfónía Beethovens flutt með aðalhljómsveitarstjóranum okkar, Evu Ollikainen. Þar verða frábærir söngvarar og kórar, Hallveig Rúnarsdóttir, Sigríður Ósk Kristjánsdóttir, Jóhann Kristinsson og Stuart Skelton. Módettukórinn og Söngsveitin Fílharmónía verða með á þessum tónleikum en það er alltaf ákveðinn hápunktur þegar sú sinfónía er flutt. Við ætlum á þessum tónleikum að heiðra Vladimir Ashkenazy fyrir hans framlag til hljómsveitarinnar. Hann hefur ákveðið að leggja sprotann á hilluna en verður áfram aðalheiðursstjórnandi hljómsveitarinnar. Okkur finnst vel við hæfi að þakka honum með gleðisöngnum í þessari stórbrotnu sinfóníu Beethovens.“

Styttri tónleikar án hlés

Lára segir afar ánægjulegt að kanadíska sópransöngkonan Barbara Hannigan komi fram með hljómsveitinni á Listahátíð í Reykjavík í júní og er það stórviðburður í íslensku tónlistarlífi.

„Hún er heimsfræg, ekki aðeins sem söngkona heldur líka sem hljómsveitarstjóri, því hún syngur og stjórnar á sama tíma. Það er mikill fengur að fá hana til Íslands, en hún er ein dáðasta tónlistarkona samtímans.“

Lára segir að þau hjá Sinfóníunni hafi lært ýmislegt af heimsfaraldrinum, m.a. að auka fjölbreytni í tónleikaforminu.

„Nú bjóðum við líka upp á styttri tónleika án hlés, þar sem við verðum með kynni á sviði. Við höfum haldið tónleika með þessum hætti síðustu mánuði, þegar við máttum fá áhorfendur í sal. Þetta vakti mikla lukku meðal tónleikagesta og því ákváðum við að ein tónleikaröðin verði með þessu formi. Við höfum frá upphafi átt í mikilvægu samstarfi við Ríkisútvarpið, en Rás 1 hefur útvarpað beint frá flestum tónleikum Sinfóníunnar. Nú fá landsmenn einnig tækifæri til þess að horfa og hlýða á tónleika í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV,“ segir Lára og bætir við að það sé mjög mikilvægt að allir landsmenn geti notið hljómsveitarinnar sem við eigum jú öll saman.

„Sjónvarpað verður beint frá fernum áskriftartónleikum, en auk þess verður sjónvarpað frá Klassíkinni okkar, sem er orðinn árviss viðburður og verður að þessu sinni í samstarfi við Þjóðleikhúsið og RÚV. Boðið verður upp á leikhúsveislu í byrjun september með framúrskarandi söngvurum, leikurum og kórum sem flytja landsmönnum leikhústónlist frá ýmsum tímum m.a. uppáhaldsleikhúslag þjóðarinnar samkvæmt kosningu sem fram fór í vor.“

Stjörnu-Sævar og undur jarðar

Sinfóníuhljómsveit Íslands sinnir börnum ekki síður en fullorðnum og innan fjölskyldutónleika næsta starfsárs kennir ýmissa grasa.

„Barnastundirnar sem eru sívinsælar verða á sínum stað ásamt tónleikaröðinni Litli tónsprotinn. Við förum líka í samstarf við Stjörnu-Sævar, en á þeim tónleikum verður flutt ævintýraleg tónlist um undur jarðar. Sinfóníuhljómsveitin mun flytja Skilaboðaskjóðuna eftir Þorvald Þorsteinsson og Jóhann G. Jóhannsson og við ætlum að flytja Töfraflautuna eftir Mozart í aðgengilegum búningi fyrir börn. Ekki má gleyma jólatónleikunum sem orðin er mikil hefð fyrir. Að lokum má nefna bíótónleika þar sem fyrsta myndin um Harry Potter verður sýnd með lifandi tónlistarflutningi. Allt hið hefðbundna verður á sínum stað, Vínartónleikar, skólatónleikar og margt fleira. Af mörgu er að taka, því árið er þéttskipað og fjölbreytt, enda er Sinfónían fyrir alla.“

Nánar: sinfonia.is