Langir kjarasamningar skapa eftirsóknarverðan stöðugleika

Álverið í Straumsvík hefur gert nýjan kjarasamning við stéttarfélög starfsmanna og gildir hann í fimm og hálft ár, sem er langur tími fyrir kjarasamninga hér á landi og skapar stöðugleika í rekstri álversins og um leið öryggi fyrir starfsmenn. Kolbeinn Gunnarsson, formaður verkalýðsfélagsins Hlífar, lýsti ánægju með samninginn og sagðist reikna með að hann gæti orðið ágæt fyrirmynd.

Nú hefur samningurinn ekki verið birtur og atkvæðagreiðsla stendur yfir um hann, þannig að innihaldið liggur ekki fyrir, utan þess að sagt er að hann byggi á hinum svokölluðu lífskjarasamningum. En ef aðeins er horft á tímalengd samningsins er í öllu falli hægt að taka undir með formanni Hlífar um að þessi samningslengd mætti verða til fyrirmyndar við kjarasamningagerð hér á landi.

Nokkuð hefur vantað upp á að tekið sé tillit til þess að sá stöðugleiki sem fæst með langtímasamningum er mikils virði. Samningaþref og jafnvel verkföll með stuttu millibili valda mikilli óvissu og þar með vanda við rekstur fyrirtækja. Sú óvissa veldur launþegum augljóslega einnig óþægindum. Aðilar vinnumarkaðarins ættu að stefna að því að næstu samningar verði til lengri tíma en þekkst hefur hér á landi.