Ingunn Halldórsdóttir fæddist 16. september 1925. Hún lést 9. júní 2021.

Útför Ingunnar fór fram 22. júní 2021.

Látin er í hárri elli elskuleg frænka okkar, Ingunn Halldórsdóttir, Inga frænka.

Hún fæddist og ólst upp hjá foreldrum sínum og eldri bróður á myndarbúinu Skaftholti í Gnúpverjahreppi. Á bænum var oft margt um manninn, mörg verk að vinna og tók vinnufólk og ættingjar virkan þátt í bústörfunum. Börn vina og vandamanna komu og dvöldu hjá hjónunum í Skaftholti sumar eftir sumar en faðir okkar, Einar Hjaltested, dvaldi þar lengur. Það var hans gæfa og þar með okkar að hann var sendur til Halldórs og Steinunnar í Skaftholti árið 1950, þá 11 ára gamall, eftir að heimili hans í Reykjavík var leyst upp. Það var vel tekið á móti ungum dreng og þar hlaut hann gott atlæti. Án þess að nokkur vissi var þar lagður grunnur að þeim órjúfanlegu fjölskylduböndum sem hafa verið okkur ómetanleg alla tíð. Fjölskyldan í Skaftholti varð föðurfjölskylda okkar systkinanna. Hjónin í Skaftholti brugðu búi árið 1955 og fluttu til Reykjavíkur, í Nökkvavoginn. Með í för voru Inga, Ranka, Halldór, einkasonur Ingu, og faðir okkar. Lífið hafði sinn gang. Ranka fluttist seinna til bróður síns, gömlu hjónin létust og faðir okkar stofnaði fjölskyldu. Inga frænka og Halldór, sonur hennar, Haddi, frændi okkar, héldu heimili í Nökkvavoginum fram til ársins 2011 þegar þau fluttu á Sléttuveginn. Það var ævintýri líkast fyrir barn að koma í heimsókn í Nökkvavoginn. Við systkinin sóttumst eftir því að fá að gista og tók Inga frænka okkur ætíð opnum örmum, ástrík og umhyggjusöm. Alltaf var góður matur á borðum og var vel veitt hjá þeim mæðginum, sérstaklega á stórhátíðum og afmælum. Inga var vandvirk og handlagin, prjónaði og saumaði. Það var ekki nóg að sauma náttkjól á litla frænku, heldur varð dúkkan hennar að fá á sig saumaðan alveg eins kjól. Á heimili hennar átti allt sinn stað og var Inga frænka alltaf vel tilhöfð. Heimilið bar þess merki að þar réð fagurkeri ríkjum jafnt innandyra sem utan. Garðurinn var ævintýraheimur Ingu og eru til ófáar ljósmyndir af bleiku rósinni hennar. Eins og við systkinin naut rósin umhyggju Ingu og blómstraði ár eftir ár tilkomumeiri rósum en árið áður. Í Nökkvavogi var alltaf tími til að setjast niður og bjóða upp á heitt súkkulaði. Inga frænka fylgdist vel með hvar í heiminum við vorum stödd hverju sinni, vildi fá fréttir, helst sent kort. Sumar frænkur eru líka ömmur. Að baki er löng og farsæl ævi. Við minnumst Ingu frænku með þakklæti og hlýhug og þökkum fyrir allt og allt.

Einar Kristinn Hjaltested

og Margrét Theódóra Hjaltested.

Elsku Inga frænka mín er dáin. Þegar ég var lítil átti Inga frænka dótakassa sem hún tók alltaf fram þegar við komum í heimsókn, það þótti mér svo gaman. Vettlingarnir hennar og hosurnar voru engu lík, allt svo vel prjónað og þægilegt. Okkur systkinunum hefur alltaf liðið best í vettlingum frá Ingu frænku. Ég vildi að ég gæti hjólað með pabba til hennar í kvöld, við myndum fá okkur heitt kakó saman og ég færi súkkulaðimolasödd heim aftur. Inga frænka átti alltaf til mola handa mér.

Þín

Katrín Eva.