Álver Álverðið hefur ekki verið hærra frá árinu 2011, að stuttu tímabili árið 2018 frátöldu.
Álver Álverðið hefur ekki verið hærra frá árinu 2011, að stuttu tímabili árið 2018 frátöldu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Ég þekki ekki fortíðina, en þessi samningur er allavega vel yfir meðaltalinu.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Ég þekki ekki fortíðina, en þessi samningur er allavega vel yfir meðaltalinu. Þetta er 55 ára gamalt fyrirtæki og samningurinn sem við höfum undirritað er númer 23,“ segir Reynhold Richter, aðaltrúnaðarmaður starfsmanna í álveri Rio Tinto á Íslandi. Hann fagnar samningi sem verkalýðsfélögin gerðu við fyrirtækið og er til fimm og hálfs árs.

Samið var við starfsmenn til eins árs í senn

Talsverð óvissa ríkti um starfsemi álvers Rio Tinto í Straumsvík, meðal annars vegna aðstæðna á álmörkuðum og óánægju fyrirtækisins með raforkusamninga. Því hefur verið samið við starfsmenn til eins árs í senn.

„Það er lyftistöng fyrir starfsmenn að fá svona samning. Ekkert er leiðinlegra en að vera í stöðugum deilum við vinnuveitandann. Við notum svo stóran hluta af vökutíma okkar í vinnunni að ef það eru vinnudeilur uppi hefur það áhrif á vinnuandann og fólk er upptekið af því að hugsa um kaupið sitt,“ segir Reynhold.

Byrjað var í gær að kynna nýja samninginn. Reynhold segir að hann sé góður og mælir eindregið með samþykkt hans.

Viðsnúningur hefur orðið á rekstrarumhverfinu. Landsvirkjun og Rio Tinto á Íslandi samþykktu í febrúar viðauka við raforkusamning fyrirtækjanna frá árinu 2010. Samkomulagið var talið renna styrkari stoðum undir samkeppnishæfni álversins við áframhaldandi starfsemi þess.

Einnig hefur hækkun álverðs breytt stöðunni. Verðið er nú hærra en það hefur verið frá árinu 2011, að stuttu tímabili árið 2018 frátöldu. „Það er mjög vaxandi eftirspurn eftir áli í heiminum og hefur verið vaxandi í langan tíma. Vöxturinn er sterkari meðal annars vegna þess að álið hefur verið hluti af nýjum lausnum í loftslagsmálum,“ segir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls. Dregið hafi úr framleiðsluvexti í Kína og verð á hrávörum almennt farið hækkandi. „Það hefur styrkt stöðu álvinnslu um allan heim, meðal annars hér á landi.“

Pétur segir að í áliðnaði sé jafnan horft til langs tíma. Því sé dýrmætt að skrifað hafi verið undir samninga í Straumsvík í febrúar og jákvætt að nýir kjarasamningar hafi verið gerðir í kjölfarið.