Guðberg Ellert Haraldsson fæddist 30. september 1927. Hann lést 9. júní 2021.

Útförin fór fram 22. júní 2021.

Það er með söknuði og þakklæti sem ég kveð Guðberg Haraldsson. Sennilega hef ég verið 12 ára gamall þegar mamma og Beggi hófu sambúð. Mamma hafði eignast mig aðeins 17 ára gömul og frá því ég var kornungur hafði ég verið alinn upp hjá ömmu og afa á Sauðárkróki. Sumarið 1948 kom mamma norður í heimsókn og Beggi með. Beggi var vel akandi enda áhugamaður um bíla og mér og ömmu og afa var boðið í ferðalag austur í Mývatnssveit sem var ekki lítið ævintýri. Þannig hófust okkar kynni.

Beggi tók mér strax einstaklega vel og sýndi mér mikla ræktarsemi alla tíð. Þó svo ég væri alinn upp hjá ömmu og afa á Króknum voru samskipti við mömmu og Begga mikil. Í Reykjavíkurferðum gisti ég hjá þeim í Rauðagerðinu, en þau bjuggu lengst af í sama húsi og foreldrar Begga, Olga og Haraldur. Beggi og mamma komu norður á hverju sumri og fljótlega stækkaði fjölskyldan, Halli bróðir fæddist 1949 og Palli nokkrum árum síðar. Þeir bræður dvöldu mikið fyrir norðan og svo fór að Halli settist að á Króknum með sína fjölskyldu og bjó þar þangað til hann féll frá langt um aldur fram.

Beggi vann allan sinn starfsaldur á verkstæði Reykjavíkurhafnar, hann var menntaður bifvélavirki og við áttum áhugann á bílum sameiginlegan. Beggi var mikill veiðimaður og um árabil var hann einn af leigutökum Laxár í Refasveit. Hann veiddi líka mikið í Blöndu og yfirleitt með Halla syni sínum. Eftir að ég eignaðist mína fjölskyldu sýndi Beggi strákunum mínum, Palla og Óla, sömu notalegheitin og hann sýndi mér þegar ég var strákur.

Mamma féll frá sumarið 1991, Beggi var þá enn þá á besta aldri rétt ríflega sextugur. Hann var svo lánsamur að kynnast Regínu Birkis og var í hjónabandi með henni í tæplega þrjátíu ár. Að leiðarlokum rifjast upp margar ánægjustundir með Begga, en mér er efst í huga þakklæti fyrir samfylgdina og hversu vel hann reyndist mér og minni fjölskyldu alla tíð.

Ég sendi Regínu og hennar fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur sem og fjölskyldum bræðra minna.

Brynjar Pálsson.

Elsku besti blíði og þolinmóði afi minn.

Ég og þú vorum ólík. Þú hafðir enga þörf fyrir að tala mikið um sjálfan þig eða troða þér að, en áttir alltaf tíma og hlustaðir af mikilli alúð.

Þetta síðasta ár helltist yfir mig hálfgerður kvíði. Þú hafðir alltaf verið heilsuhraustur, gengið teinréttur með fallega hvíta hárið þitt og tindrandi augun, en ég gerði mér grein fyrir að þú yrðir ekki hjá okkur að eilífu og við það reyndi ég að spyrja þig sem mest um líf þitt þegar þú varst ungur. Mér fannst tíminn vera að renna frá okkur og litlir hlutir á borð við hver væri uppáhaldskakan þín fóru að skipta mig miklu máli. Þú fyrirgefur það, afi minn. Sérstaklega þar sem jólakakan sem ég bakaði handa þér á afmælisdaginn hefur líklega snarlega fengið þig til að skipta um skoðun.

Þú varst svo merkilegur maður. Það er einstök tilfinning að vera elskaður af einhverjum sem þarf alls ekki að elska þig. Þér þurfti ekki einu sinni að líka við mig. Ég var átta ára þegar við kynntumst. Þú varst ekki blóðskyldur mér en það skipti engu máli. Ég spurði þig feimnislega einu sinni hvort ég mætti ekki kalla þig afa, því yngri systur mínar myndu ekki kynnast öðrum afa en þér og ég vildi alls ekki að þær myndu alast upp afalausar. Mér fannst því réttast að byrja markaðssetninguna á þér og kalla þig afa sem fyrst. Brennimerkingunni tókstu brosandi, bauðst mér auka perubrjóstsykur úr krukkunni og síðan vorum við perluvinir. Þú skammaðir mig ekki þegar ég kom drullug upp fyrir haus í heimsókn eftir að hafa dottið ofan í skítalækinn, heldur smúlaðir mig í bílageymslunni, hlóst og kallaðir mig litla drullusokk. Þú þreyttist aldrei á að keyra mig heim eftir bíó eða hlusta á mig mala við ömmu um hina og þessa misheppnuðu kærasta. Þú varst nefnilega alveg stórkostlegur afi. Og stórkostleg manneskja.

Guð veit að þegar þú giftist ömmu sastu uppi með okkur stórfjölskylduna plús ömmu sem er svo tapsár í spilum að þú lærðir snemma að vera helst með einhverjum öðrum í liði. Nema kannski mér sem er ekki mikið skárri. Þú brostir bara út í annað þegar allt fór í háaloft í kana.

Elsku afi minn. Lífið var ekki alltaf dans á rósum og þú upplifðir mikla sorg en með stóískri ró og hlýju hjarta tókstu á við það með þínu fallega lagi. Þú hefur kennt mér svo margt og er stærsta lexían líklega sú að fólk er ekki verkefni sem þarf að vinna í, laga og breyta heldur er fólk einmitt það – fólk. Sem á að umgangast af virðingu og njóta samvista við. Við erum ekki hér til að breyta hvert öðru heldur til þess að vera saman í kærleika.

Þú varst svo handlaginn, meinfyndinn og hjálpsamur og sannur. Þú sagðir aldrei neitt sem þú stóðst ekki við eða reyndir að breyta okkur, háværu, erfiðu eintökunum í kringum þig. Þú bara elskaðir okkur og þú elskaðir mig án þess nokkurn tímann að setja út á mig eða láta mér finnast ég vera eitthvað annað en stórkostleg. Það er ein sú fallegasta gjöf sem hægt er að gefa. Takk fyrir lífið okkar saman, elsku afi minn. Ég sakna þín svo mikið. Þangað til næst.

Þín

Þorbjörg (Tobba).