Áhöfnin Að sögn Jónínu Guðmundsdóttur mannauðsstjóra var erfitt að velja áhöfnina fyrir jómfrúarferð félagsins.
Áhöfnin Að sögn Jónínu Guðmundsdóttur mannauðsstjóra var erfitt að velja áhöfnina fyrir jómfrúarferð félagsins. — Morgunblaðið/Unnur Karen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þóra Birna Ingvarsdóttir thorab@mbl.is Flugvél flugfélagsins Play tók af stað í jómfrúarferð sína í gær frá Keflavíkurflugvelli. Ferðinni var heitið til Lundúna og voru í vélinni um 100 farþegar.

Þóra Birna Ingvarsdóttir

thorab@mbl.is

Flugvél flugfélagsins Play tók af stað í jómfrúarferð sína í gær frá Keflavíkurflugvelli. Ferðinni var heitið til Lundúna og voru í vélinni um 100 farþegar. Venjan er að boðsgestir fylli fyrstu ferð nýs flugfélags en Play fór aðra leið þar sem aðeins farþegar sem greitt höfðu fyrir farið voru um borð og er ástæðan sú að meiri fyrirhöfn er að ferðast nú en áður.

Fimm manna sérvalið teymi flugliða sá um farþega Play en Jónína Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs, sagði að erfitt hafi verið að velja áhöfnina fyrir þetta fyrsta flug. Í fyrstu lotu, sem tekur mið af þeim þremur flugvélum sem Play sér fram á að nota í sumar, var aðeins ráðið í 55 stöður flugliða. Umsóknirnar sem bárust voru aftur á móti 1.500 talsins. Jónína sagði að Play myndi svo ráða fleiri í haust.

Á sama tíma og verið var að klippa á borða vegna jómfrúarferðar Play, hófst hlutafjárútboð á félaginu en því lýkur klukkan fjögur í dag. Bréfum verður svo úthlutað eftir helgi. Með hlutafjárútboðinu hefur stefnan verið sett á að safna fjórum milljörðum króna. Birgir Jónsson, forstjóri Play, sagði að óháð því væri rekstur félagsins nú þegar fjármagnaður til ársins 2025.

Fyrr í vikunni bárust fréttir af því að alþjóðlegi fjárfestingasjóðurinn Bain Capital hafi gengið frá kaupum á 8 milljarða króna hlut í Icelandair.

Birgir sagði þessar fréttir sýna áhuga erlendra fjárfesta á íslenskum ferðamannaiðnaði. Það séu því ekkert annað en jákvæðar fréttir fyrir Play.

Sagan hefur ekki verið hliðholl lággjaldaflugfélögum á íslenskum markaði hingað til. Birgir sagði að tveggja ára vinna lægi að baki stofnun Play sem sé vel fjármagnað og ætli sér að gera hlutina skynsamlega. Flugfélagið mun því leggja upp úr sveigjanleika og halda sig við leiðarkerfi sem gengur aðallega út á að tengja Bandaríkin og Evrópu. Skráning félagsins á markað hafi svo þau áhrif að gerðar eru meiri kröfur til gagnsæis og skipulags sem hjálpar stjórnendum að halda einbeitingu.

Þegar Birgir klippti á borðann ásamt Guðmundi Daða Rúnarssyni, framkvæmdastjóra viðskipta- og þróunar Isavia, sagði hann það vera tilfinningaríka stund að sjá hlutina raungerast. Hann sagði þennan dag vera risastóran og líklega þann gleðilegasta í sögu félagsins. „Við ætlum að láta íslenska ferðaþjónustu og efnahag finna fyrir okkur.“