Bragi Níelsson var fæddur á Seyðisfirði 16. febr. 1926. Hann lést þann 13. júní 2021 á Dvalarheimilinu Höfða á Akranesi.

Foreldrar Braga voru Níels Sigurbjörn Jónsson, f. 19.3. 1901, d. 24.1. 1975, verkamaður og Ingiríður Ósk Hjálmarsdóttir, f. 8.7. 1898, d. 30.3. 1961, húsmóðir og verkakona. Systkini Braga voru Sigrún, f. 19.12. 1927, d. 24.9. 2015, Rós, f. 11.3. 1929, d. 26.11. 1998, og Hjálmar, f. 15.11. 1930, d. 20.10. 2009.

Bragi kvæntist 21.10. 1950 Sigríði Árnadóttur, f. 8.3. 1929, d. 14.12. 2012, hún var forstöðumaður bókasafnsins á Akranesi. For.: Árni Guðmundsson og Margrét Pétursdóttir. Bragi og Sigríður eignuðust fjögur börn, þau eru: 1) Árni, f. 21.3. 1952, kvæntist Halldóru Sæmundsdóttur, f. 21.4. 1959, þau skildu. Börn þeirra eru Sigríður, Sæmundur Freyr og Steinþór. 2) Röðull, f. 31.5. 1955, kvæntist Arinbjörgu Clausen Kristinsdóttur, d. 28.1. 2015. Börn þeirra eru Stella María, Röðull Kolbeinn og Kristinn Darri. Núverandi sambýliskona er Svala Hjaltadóttir, f. 1.5. 1959. 3) Baldur, f. 8.2. 1958, kvæntist Guðrúnu Ingibjartsdóttur, f. 11.7. 1958, þau skildu. Dætur þeirra eru Fjóla og Björk. 4) Margrét Bragadóttir, f. 15.10. 1961, gift Sighvati K. Pálssyni. Synir þeirra eru Húni og Smári.

Bragi tók stúdentspróf frá MA 1947, læknisfræðipróf HÍ 1957 og sérfræðiviðurkenningu í svæfingum og deyfingum 1977. Bragi starfaði sem læknir á Sjúkrahúsi Akraness 1958-1959 og 1960-1969. Hann var héraðslæknir í Kirkjubæjarhéraði 1959-1960. Aðstoðarlæknir á svæfingadeild Borgarspítalans 1969-1970 og 1977. Svæfingalæknir á sjúkrahúsum í Svíþjóð í sumarafleysingum 1965, 1972, 1974 og 1975 og í Færeyjum 1978. Heilsugæslulæknir í Borgarnesi 1977-1979. Bragi var yfirlæknir á svæfingadeild Sjúkrahúss Akraness frá 1980, en lét af störfum í lok árs 1996.

Bragi starfaði jafnframt að félagsstörfum og almannahagsmunum og var formaður Svæfingalæknafélags Íslands 1974-1976, í stjórn Sambands norrænna svæfingalækna 1975-1977. Bragi var varafulltrúi í bæjarstjórn Akraness 1966-1970 og sat í stjórn og undirbúningsnefnd dvalarheimilisins Höfða á Akranesi frá 1971 og í stjórn Sjúkrahúss Akraness 1966-1969 og í byggingarnefnd þess 1970-1975. Bragi var landskjörinn alþingismaður (Vesturland) 1978-1979 fyrir Alþýðuflokkinn.

Útförin fer fram frá Akraneskirkju í dag, 25. júní 2021, klukkan 13 og athöfninni verður streymt frá vef Akraneskirkju.

Virkan hlekk á streymið má finna á:

https://www.mbl.is/andlat/

Bragi Níelsson var mér alltaf mjög góður. Bragi var fósturafi minn. Hann tók mér alltaf opnum örmum, glaður, hlæjandi með risabumbu og það vantaði á hann einn fingur, fingur sem hann hafði misst í slysi.

Sérstaklega minnist ég samverustunda okkar frá barnæsku minni. Það var lítið um að ég fengi nammi þegar ég var barn, en stundum bauð Bragi mér í sjoppuna, Fólksbílastöðina eða Fóló eins og sjoppan var kölluð. Ég man eftir einu skipti þegar hann sagði mér að velja mér eitthvað og að ég ætti sjálf að segja hvað ég ætlaði að fá. Ég var kannski 5-6 ára og var feimin og hafði held ég aldrei verslað sjálf. Ég sagðist ætla að fá eitthvað, lindubuff að mig minnir, þá sagði hann „fleira?“, ég gapti og bað um eitthvað annað og aftur spurði hann „eitthvað fleira?“ Ég man að ég sagði nei en þá sagði hann „jú, kauptu eitt enn.“ Ég keypti eitthvað þrennt. Ég hafði aldrei aldrei fengið eins mikið nammi í einu og þið getið ímyndað ykkur gleðina, þannig situr þessi minning fast.

Hann fór með mér í sveitaferðir að skoða lömbin og oftar en ekki í heimsókn til Sæmundar og Boggu á Galtalæk.

Þegar ég var aðeins eldri, kannski 10 ára, man ég að hann vildi endilega að ég færi í ballett til Reykjavíkur og ætlaði sjálfur að keyra mig en ég lagði ekki í það, fannst það eitthvað óyfirstíganlegt og vildi það ekki.

Við bjuggum heima hjá þeim Siggu og Braga í tæpt ár, 1978-1979, á Vogabrautinni á meðan foreldrar mínir voru að endurbyggja hús. Sigga og Bragi voru þá að mestu fjarverandi, Bragi að vinna í Borgarnesi og Sigga amma í Háskóla Íslands.

Heimilið var mjög „sixtís“ og mér þótti það mjög fallegt.

Mig langar að minnast þess hér líka hvað mér fannst það sérstakt og stórmerkilegt þegar ég var barn að Sigga amma mín færi í háskóla að læra bókasafnsfræði. Hún byrjaði í náminu 1974, þá 45 ára og var að útskrifast um þetta leyti sem við bjuggum í húsinu þeirra, 1978 eða 1979.

Í þá daga fannst mér hún alveg svakalega gömul til að fara í skóla. En hún gerði sér lítið fyrir og dúxaði.

Bragi Níelsson var vel liðinn og farsæll svæfingalæknir.

Ég minnist þeirra hjóna Siggu og Braga með hlýju.

Hvíl í friði og far vel.

Stella María

Arinbjargardóttir.

Elsku besti afi. Ég vil að þú vitir að þú varst heimsins besti afinn, það jafnast enginn á við þig. Þú varst ein af mikilvægustu manneskjunum í lífi mínu og þú skilur eftir svo stórt tómarúm. Þú varst svo skemmtilega skrítinn, með stóru eyrun þín og nefið og blautu kossana alltaf beint á munninn. Ég man hvað ég var alltaf stolt að vera barnabarnið þitt, þegar við röltum á laugardagsmorgnum í Skagaver og næstum hver einasta manneskja sem við hittum á leiðinni vildi heilsa þér og taka í höndina á þér. Mér leið eins og ég væri að labba með forsetanum. Þú varst mér svo mikil fyrirmynd, þú varst alltaf með mér í liði og studdir svo vel við mig í gegnum lífið. Í matarboðum á Esjubraut sat ég alltaf þér á vinstri hönd og kom það sér mjög vel ef ég fékk kjötbita sem var of fitugur og mig langaði ekki að borða. Þá þurfti ég ekki annað en að ýta honum út á brún disksins og á næsta augnabliki varstu búinn að krækja þér í hann. Ég elskaði að fara með þér niður á vinnustofu að slípa steina eða í kartöflugarðinn í Skorradal. Skoða alla fuglana eða fara í fjöruferð. Takk fyrir allar góðu minningarnar. Ég mun gæta þeirra vel í hjarta mínu. Ég trúi ekki öðru en að amma hafi tekið vel á móti þér og ég elska þá tilhugsun að þið séuð nú aftur sameinuð. Hvíldu í friði elsku afi minn, ég elska þig.

Björk Baldursdóttir.