Áhugi Arndís Þórarinsdóttir barnabókahöfundur með fróðleiksfúsum krökkum á fundi í skúrnum í vikunni.
Áhugi Arndís Þórarinsdóttir barnabókahöfundur með fróðleiksfúsum krökkum á fundi í skúrnum í vikunni. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Þriðji fundur Arndísar Þórarinsdóttur barnabókahöfundar með áhugasömum börnum um sögur og bækur verður á mánudag og þá verður bókin Bíóbörn eftir Yrsu Sigurðardóttur tekin fyrir.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Þriðji fundur Arndísar Þórarinsdóttur barnabókahöfundar með áhugasömum börnum um sögur og bækur verður á mánudag og þá verður bókin Bíóbörn eftir Yrsu Sigurðardóttur tekin fyrir. „Það skiptir miklu máli að gera bókina og bóklestur að alvöru valkosti, eitthvað sem er eftirsóknarvert og skemmtilegt án þess að það sé kvöð,“ segir hún og leggur áherslu á að hún sé alltaf að tala og hugsa um bækur.

Leshringurinn Lestrargleði er hugsaður fyrir átta til tólf ára krakka. Hann fer fram í bílskúr Arndísar og stendur yfir í klukkustund á mánudögum til 16. ágúst, en fyrsti fundurinn var 14. júní.

Hugmyndin varð til þegar Arndís heyrði af barni sem fékk lága einkunn fyrir bókmenntaritgerð skömmu fyrir skólaslit í vor. „Æi, hugsaði ég með mér. Þarf ekki að setja bókmenntir í jákvætt og skemmtilegt samhengi í sumar? Sem lyftir lestri án pressu og kvaðar. Búa til nýjar leiðir til að njóta lestrar.“

Fyrirvarinn var lítill og flókið var að finna samstarfsaðila. Því hafi hún ákveðið að bjóða börnum í bílskúrinn og njóta góðra bókmennta án nokkurra kvaða og þeim að kostnaðarlausu.

Djúpar samræður

„Viðbrögðin hafa verið fín,“ segir hún. Á öðrum fundinum hafi þau farið yfir Steindýrin eftir Gunnar Theodór Eggertsson en í fyrsta tímanum hafi þau rætt Öðruvísi daga eftir Guðrúnu Helgadóttur. „Ég valdi allar bækurnar fyrirfram vegna þess að ekki þarf að skrá sig og hver má mæta þegar hann kemst.“ Hún hafi valið sígildar, íslenskar bækur frá undanförnum áratugum til þess að spjalla um. Rætt sé um persónurnar, viðfangsefnin, ákvarðanir persónanna og fleira. „Í aðra röndina er þetta þjálfun í því að tjá sig um lestur og bókmenntir og hins vegar þjálfun í lestri. Maður les bækur öðruvísi ef tala á um þær við aðra.“

Arndís segir að fyrsti tíminn hafi verið mjög skemmtilegur og gefið góð fyrirheit um framhaldið. Mörg viðfangsefni séu í bókum Guðrúnar og umræður hafi verið fjölbreyttar og fjörugar. Þau hafi meðal annars rætt um deilur Ísraelsmanna og Palestínumanna, erfðafjárskatta, mismunandi heimilisaðstæður, leyndarmál, hvenær sagt er frá og hvenær ekki. „Þetta voru djúpar samræður sem maður á ekki venjulega við börn og það er mjög gaman og gefandi.“

Áhugi á bókmenntum og lestri er helsti drifkraftur Arndísar í verkefninu auk löngunar til þess að láta gott af sér leiða í nærsamfélaginu. Sumir séu til dæmis mjög öflugir við að safna peningum í foreldraráði íþróttafélaga, aðrir séu duglegir að plokka og þar fram eftir götunum. „Það er misjafnt hvað fólk leggur af mörkum til samfélagsins og það rann upp fyrir mér að þetta væri eitthvað sem ég gæti gert. Ég hef haldið námskeið fyrir krakka, hef talað um bækur við börn í mörg ár og sá fyrir mér að þetta yrði skemmtilegt.“