Mælt er með bólusetningu þeirra sem sýkst hafa af kórónuveirunni í ljósi þess að mótefnasvörun þeirra virðist ekki vera eins mikil og hjá þeim sem hafa verið bólusettir.
Greint var frá því í byrjun vikunnar að flestir veitingastaðir væru komnir með fulla afkastagetu og megi taka við þeim fjölda sem þeir hafa leyfi fyrir.
Heildarhluthafalisti félaga verður tekinn út eins fljótt og unnt er af vef Ríkisskattstjóra en Persónuvernd hefur ákvarðað að birting hluthafalista á opnu vefsvæði Skattsins sé ólögmæt.
Ragna Kristín Guðbrandsdóttir varð um liðna helgi yngsti einstaklingurinn sem hefur útskrifast með B.Sc.-gráðu í læknisfræði hér á landi. Hún er fædd árið 2000.
The Washington Post fullyrðir að Michele Roosevelt Edwards , áður Michele Ballarin , eigi ekki setrið, þar sem hún tók á móti fréttateymi Kveiks á liðnu ári. Fátt er sem fyrr að frétta af endurreisn Wow air undir hennar forystu.
Guðjón Óskarsson , rúmlega sjötugur Reykvíkingur, hefur verið valinn Reykvíkingur ársins . Nafnbótina hlýtur hann fyrir starf sitt við að hreinsa gangstéttir borgarinnar af tyggjóklessum.
Á hverjum degi leita nokkrir á bráðamóttöku Landspítalans vegna rafskútuslysa . Meðal 18 ára og eldri sögðust 40% hafa verið undir áhrifum þegar slysið átti sér stað.
·
Uppsveifla er í sölu á æðardúni. Aðalinnflutningslandið er Þýskaland.
Sorpsamlögin á Suðvesturlandi og umhverfisráðuneytið hafa hafið undirbúning að því að koma upp sorpbrennslu fyrir allt svæðið. Á brennslan að lágmarka þörf fyrir urðun úrgangs.
Viðskiptavinum Orku náttúrunnar (ON) verður endurgreitt fyrir notkun frá og með 11. júní, í kjölfar þess að kærunefnd útboðsmála ógilti samning borgarinnar við ON varðandi rafhleðslustöðvar.
Prestar í Prestafélagi Íslands hafa samþykkt kjarasamning við kjaranefnd Þjóðkirkjunnar með um 2/3 hlutum atkvæða. Meðaltalslaunahækkun er um 3,25%.
Þríburarnir Þór, Jón Friðrik og Kristján Guðjónssynir , 23 ára, brautskráðust allir með BS-gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands um liðna helgi.
Karen Elísabet Halldórsdóttir , bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks í Kópavogi, lét bóka gagnrýni á Borgarlínu á fundi bæjarráðs og bendir á að peningar til verkefnisins komi ekki af himnum ofan.
Viðbrögð við mögulegri lokun Suðurstrandarvegar vegna hraunstreymis voru rædd á fundi Grindavíkurbæjar, björgunarsveita, lögreglunnar, Veðurstofu o.fl. í byrjun vikunnar. Staðan er metin frá degi til dags.
Ungbarnadauði var næstminnstur á Íslandi árið 2019 í samanburði við aðrar Evrópuþjóðir , en minnstur í Liechtenstein , að því er fram kemur í athugunum Eurostat .
Reykjavíkurborg og Félag íslenskra landslagsarkitekta efna til hönnunarsamkeppni um Lækjartorg og aðliggjandi gatnarými.
Enn ber á því að fólk sé að ganga á hraunbreiðunni í Geldingadölum , þrátt fyrir viðvaranir.
Guðni Bergsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, segir komið að því að taka ákvörðun um nýjan þjóðarleikvang í knattspyrnu.
Samherji hefur beðist afsökunar á ámælisverðum viðskiptaháttum sem fengu að viðgangast í starfsemi útgerðarinnar í Namibíu .
·
Jón Sigurðsson , forstjóri Össurar , segir fyrirtækið hafa staðið tæpt eftir að kórónuveirufaraldurinn lamaði heilbrigðiskerfi víða um heim í fyrra.
Mikil fjölgun hefur orðið á tilkynningum til barnaverndarnefnda vegna kynferðisofbeldis milli ára. Fyrstu þrjá mánuði ársins voru þær alls 224 eða 86,7% fleiri en á sama tíma í fyrra.
Héraðsdómur í Svendborg í Danmörku hefur dæmt íslenskan karlmann í fjögurra ára fangelsi fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn dóttur sinni.
Múlaþing hefur gengið frá kaupum á fimm af þeim sex íbúðum sem eru á hættusvæði vegna ofanflóða við Stöðvarlæk , utan við stóru skriðuna sem féll á Seyðisfjörð í desember.
Í næstu viku verður boðinn upp enskur setter-hundur sem kallast Rjúpnabrekku-Blakkur . Tekið er fram í auglýsingu Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu að greiða þurfi fyrir hundinn við hamarshögg. Ekki er vitað til þess að hundur hafi áður verið boðinn upp á vegum embættisins.
Ferðaþjónustuaðilum virðist ekki auðvelt að halda íslenskri tungu á lofti eða nota hana í þjónustu sinni, ef marka má nýja rannsókn.
„Það er til gull í jörðu á Íslandi . Spurningin er hvort hér finnst vinnanlegt magn,“ segir Þórdís Björk Sigurbjörnsdóttir , forstjóri Iceland Resources ehf. , sem verður með rannsóknarboranir í Þormóðsdal í sumar.
Verðlag á Íslandi mældist það þriðja hæsta meðal ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu árið 2020 og var 37 prósentum yfir meðaltali Evrópusambandsins.
Nýr loftslagsvegvísir atvinnulífsins var kynntur. Vegvísirinn á að stuðla að því að markmið um kolefnishlutlaust Ísland náist fyrir árið 2040.
Álftin Svanhildur hefur tapað einum unga frá í vor. Þeir eru nú tveir en ekki þrír.
Fulltrúar stéttarfélaga starfsmanna í álverinu í Straumsvík og Samtaka atvinnulífsins og Rio Tinto undirrituðu nýja kjarasamninga til fimm og hálfs árs.
Sumarið stakk óvænt við stafni á höfuðborgarsvæðinu á miðvikudag. Hver veit nema það láti sjá sig aftur um helgina. Og það jafnvel víðar um land.
Búið er að bólusetja tæplega 90% þeirra sem til stendur að bólusetja á landinu. Bruna þurfti með 700 skammta af Pfizer úr Reykjavík til Keflavíkur svo þeir færu ekki til spillis.
Freyr Alexandersson hefur verið ráðinn þjálfari danska knattspyrnuliðsins Lyngby .
·
Góður árangur meðferðarátaks gegn lifrarbólgu C hefur vakið athygli út fyrir landsteinana.
Dæla þurfti vatni úr nærliggjandi brunahana í Hvaleyrarvatn í vikunni. Yfirborð vatnsins hefur lækkað mikið síðustu vikur eftir þurrkatíð í vor.
Eftirlitsnefnd með starfsháttum lögreglu hefur komist að þeirri niðurstöðu að háttsemi tveggja lögregluþjóna, á vettvangi í Ásmundarsal á Þorláksmessukvöld , geti talist ámælisverð.
Flugvél flugfélagsins Play tók af stað í jómfrúarferð sína á fimmtudag frá Keflavíkurflugvelli . Ferðinni var heitið til Lundúna og voru í vélinni um 100 farþegar. Forvarsmenn félagsins léku á als oddi og horfa björtum augum til framtíðar.
Icelandair er ekki síður bratt en náðst hefur samkomulag við fjárfestingasjóðinn Bain Capital um kaup á 16,6% hlut í félaginu fyrir tæplega 8,1 milljarð króna.
Fleiri konur en karlar sátu í nefndum á vegum ráðuneyta í fyrra. Hlutfallið var 51% konur á móti 49% karla.
Öllum takmörkunum innanlands hefur verið aflétt.