Biðstaða Matthías Ragnarsson og Svanhildur Guðmundsdóttir við nýju umhverfisvænu rúllubindivélina. Ekki þarf að binda rúllurnar með plastneti.
Biðstaða Matthías Ragnarsson og Svanhildur Guðmundsdóttir við nýju umhverfisvænu rúllubindivélina. Ekki þarf að binda rúllurnar með plastneti.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Sláttur hefst væntanlega af fullum krafti á Suðurlandi í dag. Menn vilja nýta þurrkinn. Þeir sem gátu byrjað að heyja í síðustu viku eru sumir búnir með fyrsta slátt eða langt komnir með hann.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Sláttur hefst væntanlega af fullum krafti á Suðurlandi í dag. Menn vilja nýta þurrkinn. Þeir sem gátu byrjað að heyja í síðustu viku eru sumir búnir með fyrsta slátt eða langt komnir með hann.

Vorið var einstaklega kalt og þurrt. „Mér finnst ekki hafa farið að hlýna fyrr en í þessari viku,“ segir Eiríkur Þ. Davíðsson, bóndi á Kanastöðum í Austur-Landeyjum. Hann hefur eftir eldri manni annars staðar í héraðinu að vorið hafi verið eins og köldu vorin á árunum 1965 til 1990. „Það er alla vega rétt að árin frá aldamótum og sérstaklega síðustu tíu ár, hafa verið þokkalega góð.“

Matthías Ragnarsson, bóndi á Guðnastöðum í sömu sveit, segir að grösin hafi strax farið að taka við sér þegar hlýnaði. Túnin séu hins vegar afar misjöfn. Sum séu tilbúin og stutt í að grösin skríði á meðan önnur séu fjórum til fimm vikum á eftir því sem venjulegt hefur verið. Hann telur að almennt sé gróður þremur vikum á eftir. Matthías segist hafa bætt áburði á túnin um mánaðamótin maí og júní enda hafi áburðurinn frá fyrri áburðargjöf verið fokinn út í veður og vind. Telur hann að þessi auka áburður sé að skila sér núna í góðri sprettu.

Gæðin í góðu lagi

Gróður virðist vera lengra kominn í Landeyjum og undir Eyjafjöllum en annars staðar á Suðurlandi, eins og oft áður. Þó er sláttur ekki hafinn á nærri öllum bæjum í Landeyjum og sumir rétt búnir að slá litla bletti til að prófa tækin. Einstaka bændur eru þó búnir með fyrri slátt og jafnvel er til dæmi um bónda sem lokið hefur heyskap á þeim fáu dögum sem gefið hefur til heyskapar.

Eiríkur á Kanastöðum segist alltaf byrja snemma að slá. Þó sé hann nú að byrja hálfum mánuði seinna en venjulega. Hann er langt kominn með fyrri slátt. Hann lætur ekki illa af uppskerunni. „Gæðin eru í góðu lagi. Við höfum verið að afla fóðurs í mjólkurkýrnar og veljum sérstaklega það sem við sláum í þær. Þetta fer allt eftir því í hvaða hópa við ætlum að nota heyin,“ segir Eiríkur.

Hann var að undirbúa hestaferð í vikunni, um leið og hann sinnti bústörfum og heyskap. Fékk uppkomna syni sína til að koma úr Reykjavík og hjálpa til. Nú tekur hann sér fimm daga frí til að fara í ferðina. Hún er vitaskuld löngu ákveðin og var ekki gert ráð fyrir að heyskapur drægist á langinn þegar hún var skipulögð upphaflega.

Matthías á Guðnastöðum segist venjulega hafa lokið fyrri slætti á þessum tíma en hann er rétt byrjaður. Hann ætlar að slá í dag og reiknar með að slá 50 hektara í vikunni.

Hann segist vongóður um að fá nóg hey fyrir kýrnar. Það muni bjarga miklu ef úr sumrinu rætist og haustið verður gott.