Ingvar Þórðarson lyklasmiður við gamla Fordinn sinn sumarið 1981.
Ingvar Þórðarson lyklasmiður við gamla Fordinn sinn sumarið 1981. — Morgunblaðið/Emilía Björg
„Ég er alveg sjálfmenntaður í lyklasmíðinni, fyrst lærði ég hana í amerískum bréfaskóla og síðan hef ég talsvert fylgzt með vinnuaðferðum og framgangi mála hjá dönsku fyrirtæki, sem ég kaupi allt efni af.

„Ég er alveg sjálfmenntaður í lyklasmíðinni, fyrst lærði ég hana í amerískum bréfaskóla og síðan hef ég talsvert fylgzt með vinnuaðferðum og framgangi mála hjá dönsku fyrirtæki, sem ég kaupi allt efni af. Svo lærir maður þetta smám saman af reynslunni,“ sagði Ingvar Þórðarson, í samtali við Morgunblaðið í lok júní 1981, en hann var þá eini maðurinn á landinu sem hafði lyklasmíði að aðalatvinnu.

Ingvar sagði starfið fyrst og fremst fólgið í smíði alls konar lykla, allra venjulegra og óvenjulegra. „Ég smíða lykla í hús og það sem þeim tilheyrir, bíllykla og fyrir flugvélar, skip og peningaskápa og aðrar lokaðar hirzlur. Það má segja að ég geti smíðað nær allar þær lyklategundir, sem hér eru fáanlegar.“

Beðinn að rifja upp skemmtilegar sögur úr starfinu gat Ingvar um peningaskáp sem honum hafði verið falið að opna og virtist fullur af einhverju dóti. Eigandanum hafði verið gefinn skápurinn en tjáði Ingvari að hann mætti eiga það sem í honum leyndist. Eftir japl, jaml og fuður tókst Ingvar loks að opna skápinn og var hann þá orðinn allnokkuð spenntur. Og uppskeran? Eitt nafnspjald.