Sveinn Fjeldsted fæddist 20. júlí 1944. Hann lést 3. júní 2021.

Útför Sveins fór fram 22. júní 2021.

Gegnumheill og traustur er það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar ég minnist Sveins Fjeldsteds. Hann var glæsimenni á velli, stæðilegur, hlýr og góður. Röddin var hæg og mjúk en hláturinn svo bjartur að hann hreif fólk með sér þegar hann hló. Hann var einstakt eintak af manni hann Svenni. Ég kynntist honum á vettvangi Oddfellow-reglunnar og þar áttum við samleið í 39 ár. Ég var ritari í stjórn hans í Ob. Petrusi og þar lærði ég hvernig maður setur punktinn yfir i-ið þegar við ræktum hugsjónir Reglunnar og gerum þær að leiðarljósi í lífi okkar. Hann var fastur fyrir og naut sín sem leiðbeinandi og framúrskarandi leiðtogi í Reglunni. Sveinn var séntilmaður sem vildi að allir hlutir væru vel gerðir samkvæmt hans fáguðu framkomu og aldrei mátti skuggi falla á athafnir í Reglunni þegar hann var við stjórn. Við leiddum saman tugi slíkra athafna um árabil þegar lærlingurinn var kominn með þann þroska að vera með í ráðum og stjórna. Ef ég stóð upp eða tímasetti göngu rangt fékk ég svakalegt augnaráð og þá kom sér vel að vera þéttur á velli því svipurinn var ákveðinn og ekki fyrir viðkvæma. Við lok slíkra athafna var slegið á létta strengi og gert grín að öllu saman. Sveinn var snillingur í því að láta manni líða vel í návist hans. Hann var hrókur alls fagnaðar, glaðsinna og gleymdi sér á góðra vina fundum með bakföllum á sögustundum. Sveinn nálgaðist fólk á hlýjan og viðkunnanlegan hátt, var auðmjúkur og kurteis. Þegar ég átti undir högg að sækja á nýjum starfsvettvangi vegna ósannra og óbilgjarnra ásakana áttum við fjölskyldan mjög erfiða tíma og stundir. Þá horfði maður stundum á símann og velti fyrir sér hvort enginn ætlaði að hringja og segja eitthvað sem kveikti ljós. Þá hringdi Sveinn og kom til að láta finna fyrir faðmi sem hafði ekki gleymt þeim heitum og loforðum sem gerðu okkur að bræðrum. Sveinn steig upp þegar mest lá við og þá kom í ljós hvað hann var stór að innan og hlýtt faðmlag hans og bros gat dimmu í dagsljós breytt. Hann var 76 ára og hafði spilað 18 holur í golfi nýlega. Þrátt fyrir að gangverkið væru löngu komið á tíma var hann tígulegur eins og póker með golfkylfurnar, golfhanskann og arkaði eftir brautunum. En hastarlegt takið lagði hann flatan á skurðarborðið. Samt bar hann engin veikindi með sér þessi snillingur. Og þótt hann lægi „out of bounds“ var hugsunin skýr. Tíminn var að renna út og læknirinn með hnífinn kláran spurði hvort hann gæti búið við skerta getu eða taka högg í víti. Hann stóð með sjálfum sér og sendi læknum skýr skilaboð um að ekki kæmi til greina að vera öðrum byrði í lífinu um leið og hann veifaði til sinna nánustu í kveðjuskyni. Leiðbeiningarnar voru skýrar eins og á fundum okkar besta æviskeiðs. Ég heyri nú fyrir mér taktfast fótatakið þegar hann marserar um salinn og síðasta höggið dynur, stafurinn skellur í parketið og við allir stöndum teinréttir. Það var lífsstíll fyrir Sveini Fjeldsted að vera Oddfellow. Með honum er genginn minn besti bróðir sem kenndi mér allt.

Votta Ingibjörgu og fjölskyldu hjartans samúð.

Ásmundur Friðriksson.

Það var fyrir margt löngu að leiðir okkar Sveins Fjeldsted lágu saman. Það var í gamla Skátaheimilinu við Snorrabraut. Hann var í Landnemum en ég í Birkibeinum.

Svo liðu árin og það var ekki fyrr en ég gekk í Oddfellowregluna að leiðir okkar lágu saman á ný.

Sveinn tók á móti mér þegar ég gekk inn í Oddfellow og þar var líka vinur okkar Magnús Stephensen. Þarna endurnýjaðist vinskapurinn með okkur þremur og hann var mikill.

Árin líða og þegar litið er til baka, eins og ég geri núna, þá kemur margt upp í hugann.

Allt sem við gerðum saman bæði innan Oddfellow og utan.

Sveinn var prímus mótor í öllu. Til dæmis ævintýrið við stofnun stúkunnar okkar, Ara fróða. Þá var farið um allt að leita að hentugu húsnæði, því eitt af markmiðunum við stofnun stúkunnar var að fara úr Oddfellowhúsinu við Vonarstræti. Ekki vildum við vera í yfirfullu húsinu þar. Örlögin urðu samt þau að stúkan er enn í Vonarstræti.

Uppbygging stúkunnar og fjáröflun fyrir hana var okkur ofarlega í huga.

Ferðirnar tvær til Reims í Frakklandi, Búdapest og Pétursborgar voru mikil áskorun og gáfu góðar tekjur í sjóði stúkunnar.

Sveinn var þarna allt í öllu, endalausar bollaleggingar. Allt þetta kemur upp í hugann núna.

Sveinn var mikill og góður vinur og ávallt tilbúinn að hjálpa.

Þegar við fjölskyldan keyptum prentsmiðjuna Gutenberg kom Sveinn og var mér til halds og trausts við skipulagningu og uppbyggingu fyrirtækisins. Það var mér mikil og góð hjálp, en hann kunni vel til verka.

Sveinn var alltaf að hugsa um Oddfellowregluna og hvernig mætti bæta hana og siði hennar. Margar stundirnar sátum við og ræddum þau málefni og unnum síðan að þeim.

Sveinn var mikill golfari og naut sín á golfvellinum, þar var ég ekki en hann átti marga vini og kunningja á þeim vettvangi.

Mikil er eftirsjáin að góðum dreng og góðum vini, sem hefur verið með mér í gegnum árin.

Að eigin mati oft oss yfirsést

Þá auðnu' er best við nutum.

Við ferðalok við finnum best,

Þá farsæld er við hlutum.

(Ágúst Böðvarsson)

Ingibjörgu og fjölskyldunni vottum við Sólrún okkar dýpstu samúð.

Megi góður Guð vera með þeim.

Steindór Hálfdánarson.

Í dag kveð ég tengdaföður minn, Svein Fjeldsted. Svenni var einstakur á svo margan hátt og við fjölskyldan erum heppin að eiga margar góðar minningar. Margar stundir sem gaman er að rifja upp. Aðallega var það samt áhuginn og umhyggjan, örsímtölin til að vita hvort það væri í lagi með fólkið sitt, samveran, fljótfærnin, greiðviknin, rauða jólapeysan og hláturinn sem yfirgnæfði heilan bíósal.

Svenni var frábær afi og hafði mjög gaman af barnabörnunum. Ekki fannst honum verra ef þau voru svolitlir prakkarar og hló hann manna hæst þegar þau gerðu eitthvað af sér. Ekki fór afi eftir uppeldisreglum foreldranna en var alltaf fyrirgefið. Afi Svenni skipti stelpurnar okkar miklu máli og hans verður sárt saknað af þremur afastelpum.

Það er virkilega sárt að þurfa að kveðja svona skyndilega. Þó er mér efst í huga þakklæti fyrir frábæran tengdapabba sem skilur eftir sig djúp spor í hjartanu.

Hulda Sævarsdóttir.

Kveðja frá hestamannafélaginu Fáki

Í dag kveðjum við Svein Fjeldsted, fyrrverandi formann Fáks. Hann var í stjórn félagsins frá 1992 til 1996 og þar af formaður í tvö ár. Það var ánægjulegt að hitta Svein fyrir nokkrum vikum þar sem gamlir félagar hittust og ræddu útkomu bókar í tilefni 100 ára afmæli Fáks á næsta ári. Hann sýndi verkinu mikinn áhuga og ætlaði að koma með okkur af fullum krafti í verkefnið. Það var gaman að skynja í honum kraftinn og áhugann á félaginu eins og á árum áður.

Sveinn hafði ávallt hagsmuni Fáks að leiðarljósi og deildum við áhuga okkar og trú á félaginu. Fákur þakkar þitt framlag til félagsins.

Vottum Ingibjörgu og öðrum aðstandendum innilega samúð okkar.

Hjörtur Bergstað,

formaður Fáks.

Elsku besti afi, ég á svo erfitt með að trúa því að þú sért ekki lengur á meðal vor. Þetta var ekki planið okkar ... við áttum eftir að bralla svo margt og þið amma búin að plana allt sumarið og haustið þar sem við ætluðum að hittast á Spáni og hafa það notalegt.

Það var nú reyndar svo að þú varst oftar en ekki búinn að yfirgefa samkvæmin áður en maður vissi af og í þeim anda kvaddirðu þennan heim og við hin sitjum eftir með brostið hjarta.

Alltaf tókstu á móti okkur með opinn faðminn og risaknús fylgdi í kjölfarið. Þegar ég horfði á börnin mín hlaupa í faðm þér rifjuðust upp fyrir mér öll þau skipti sem ég hef gert slíkt hið sama, og þú fagnaðir mér alltaf með orðunum „Sveinsína mín“. Þú varst hjartahlýr, hjálpsamur, ljúfur og ráðgóður. Ég gat ávallt leitað til þín og var svo heppin að það átti við bæði í leik og starfi, það stóð ekki á svörunum, þau varstu alltaf með á reiðum höndum.

Ég er innilega þakklát fyrir hvað ég fékk að vera mikið með ykkur ömmu þegar ég var yngri, góðar stundir á Prestbakkanum, ferðalög, hestaferðir, ógleymanleg Grænlandsferð og svo mikið meira. Þið leyfðuð mér alltaf að vera með og taka þátt í ykkar lífi.

Það var dásamlegt að upplifa Þjóðhátíð með þér og ömmu í ykkar fyrsta skipti, við nutum þess svo að fá að hafa ykkur hjá okkur að ég suðaði í þér í þrjú ár þar til þið komuð aftur með okkur í dalinn og aftur var jafn gaman. Þið amma voruð dugleg að kíkja í heimsókn til okkar fjölskyldunnar í Eyjum, nú síðast í lok apríl þar sem við áttum góðar stundir og þá sérstaklega þið Rökkvi. Hann var svo hrifinn af þér og ykkar samband var dásamlegt eins og samband þitt við öll afabörnin. Tæpri viku áður en þú kvaddir fórum við tvö saman í sund með börnin mín þrjú, þið Rökkvi lékuð saman í barnalauginni nær allan tíman en þegar hann var kominn í mína umsjá, meðan þú ætlaðir aðeins í gufubað, datt hann. Sárið sem kom við þá byltu skildi eftir sig ör á hné hans og ég vona að það fái að fylgja honum alla tíð til minningar um þig.

Elsku dásamlegi afi minn, ég er svo þakklát fyrir allar yndislegu minningarnar sem ég á um og með þér, þú varst og ert langbesti afi sem hugsast getur og minning þín mun varðveitast til eilífðarnóns.

Þín

Thelma Hrund.