Sérfræðingur Arnar Sveinn Geirsson greinir leikina á EM á Stöð 2 Sport.
Sérfræðingur Arnar Sveinn Geirsson greinir leikina á EM á Stöð 2 Sport. — Morgunblaðið/Eggert
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Sextán liða úrslitin á EM í knattspyrnu hefjast í dag. Mótið hefur verið bráðskemmtilegt það sem af er. Fátt hefur þó komið á óvart, öll liðin sem búast mátti við að færu áfram gerðu það og Ronaldo er enn langbestur.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Sextán liða úrslitin á EM í knattspyrnu hefjast í dag. Mótið hefur verið bráðskemmtilegt það sem af er. Fátt hefur þó komið á óvart, öll liðin sem búast mátti við að færu áfram gerðu það og Ronaldo er enn langbestur. Ekki verður með góðu móti séð að óþekktir leikmenn hafi slegið í gegn til þessa nema ef vera skyldi í myndverinu hjá Stöð 2 Sport. Þar steig fram fullskapaður sérfræðingur af yngri kynslóðinni sem vakið hefur verðskuldaða athygli. Arnar Sveinn Geirsson spilaði í stöðu hægri bakvarðar hjá Fylki í fyrrasumar en greinir nú leiki á stóra sviðinu. Og það er eins og hann hafi aldrei gert neitt annað.

„Já, þetta gerðist allt með frekar stuttum fyrirvara. Ég fékk símtal frá Sýn þar sem ég var spurður hvort ég hafi eitthvað hugsað út í það að vinna í sjónvarpi. Ég fékk sólarhring til að hugsa málið og þá hringdi ég í pabba sem hafði verið í þessu hlutverki á stórmótum í handbolta í gamla daga. Hann hvatti mig eindregið til að gera þetta og sagði að ég myndi fljótt finna hvort þetta ætti við mig. Þegar ég vaknaði morguninn eftir fann ég að ég var klár í slaginn. Þá voru kannski fimm dagar í fyrsta leik Englands þegar ég var farinn að segja bestu leikmönnum heims til syndanna,“ segir Arnar í léttum dúr.

Óhræddur að segja skoðun sína

Til að setja hlutina í samhengi er rétt að geta þess að Arnar er sonur Geirs Sveinssonar, fyrrverandi landsliðsfyrirliða í handbolta og núverandi þjálfara. Arnar á að baki 191 leik í meistaraflokki í fótbolta og hefur fagnað Íslandsmeistaratitlum með Val. Meiðsli hafa sett strik í reikninginn á síðustu árum og því spilar Arnar ekki í ár. Það opnaði hins vegar ný tækifæri fyrir hann. Þau byrjuðu með gestakomum í hið vinsæla hlaðvarp Hjörvars Hafliðasonar, Dr. Football, í vetur. Þar fór Arnar frekar rólega af stað og talaði á diplómatískum nótum. Svo var eins og eitthvað gerðist og hann virtist öðlast þor til að tala hreint út og gagnrýna íslenska leikmenn og þjálfara. Arnar var nýkominn úr klefanum, eins og það er kallað, og því var hans sjónarhorn ögn ferskara en fólk hefur kannski átt að venjast.

Arnar viðurkennir að það hafi verið meðvituð ákvörðun að setja mark sitt á umræðuna, að þora að segja skoðun sína umbúðalaust. „Maður á góða að og fékk leiðsögn, en þetta snerist líka um að finna taktinn, að þreifa fyrir sér í nýju umhverfi. Það er fín lína á milli þess að vera of neikvæður og jafnvel ósanngjarn eða vera uppbyggilegur og gagnrýna á sanngjarnan hátt. Með hverju skiptinu kemur meira sjálfstraust, maður eflist í því sem maður er að gera.“

Hann segir að viðbrögð við gagnrýni hans meðal íslenskra fótboltamanna hafi að mestu verið góð. Hann reyni enda að gagnrýna á faglegan hátt. „Ég þekki það sem leikmaður að það er erfitt að ætla að vera reiður eða fúll yfir þannig gagnrýni. Svo er auðvitað öllum frjálst að vera sammála eða ósammála.“

Arnari hefur ekki reynst erfitt að taka skrefið frá því að fjalla um íslenskan fótbolta og yfir á EM. Hann segir að þetta séu í grunninn engin vísindi. „Góður vinur minn, Birkir Már Sævarsson, hefur oft sagt að fótbolti sé bara fótbolti, ellefu á móti ellefu og mörkin alltaf jafn stór. Það er maður sem hefur mætt bæði Ronaldo og Messi svo það er erfitt að andmæla þessu.“

Alltaf pælt í taktíkinni

Ekki er þó öllum gefið að greina leikinn. Arnar játar því að leikmenn séu mismunandi, sumir pæli mikið í taktík á meðan aðrir hugsi ekki um fótbolta utan vallar. „Mér hefur alltaf fundist gaman að spá í það sem gerist á vellinum og af hverju það gerist. Að einhverju leyti þurfti ég að bæta upp það sem mig skorti sem leikmaður með því að skilja taktíkina betur en næsti maður. Ég var langt í frá sá hæfileikaríkasti en ég fór langt á því að ég skildi leikinn vel.“

Hann segist hafa mjög gaman af því að vinna við að greina leikina á EM og getur vel hugsað sér að gera meira af því í framtíðinni. „Fyrst og fremst ætla ég að njóta þess að vinna við þetta núna með skemmtilegu fólki. Ég hefði hvort sem er horft á flesta leikina sjálfur heima. En ég væri að ljúga ef ég segði ekki að mér þætti þetta mjög skemmtilegt og ég hefði áhuga á að gera þetta aftur.“

Sérfræðingurinn er að lokum spurður hvaða land muni vinna EM. „Það verður annaðhvort Þýskaland eða Belgía. Ég held að Belgía taki þetta.“