Þorgeir Þorkelsson fæddist 27. febrúar 1929. Hann lést 10. júní 2021.

Að ósk hins látna fór útförin fram í kyrrþey.

Þótt minn elskulegi faðir

og kæri vinur

hafi nú kallaður verið heim

til himinsins sælu sala

og sé því frá mér farinn

eftir óvenju farsæla

og gefandi samferð,

þá bið ég þess og vona

að brosið hans blíða og bjarta

áfram fái ísa að bræða

og lifa ljóst í mínu hjarta,

ylja mér og verma,

vera mér leiðarljós

á minni slóð

í gegnum

minninganna glóð.

Og ég treysti því

að bænirnar hans bljúgu

mig blíðlega áfram muni bera

áleiðis birtunnar til,

svo um síðir við ljúflega

hittast munum heima á himnum

og samlagast í hinum eilífa

ljóssins yl.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Takk fyrir allt, elsku pabbi minn.

Þinn sonur,

Jón Þorgeir.

Að kvöldi fimmtudagsins 10. júní lagði minn elskulegi tengdafaðir augun aftur í hinsta sinn. Stund sem hann var búinn að þrá allt frá því að tengdamamma lést 8. apríl 2018. Geiri var hávaxinn, reffilegur karl sem hafði sterkar skoðanir á pólitík og öðrum þjóðmálum. Tengdi var með stórt hjarta og held ég að ég geti með sanni sagt að ekkert var honum dýrmætara en allir hans afkomendur sem hann var ávallt stoltur af og þakklátur fyrir. Það er ekki ofsögum sagt að ég hafi unnið í tengdaforeldralottóinu því aldrei fann ég annað en ást og umhyggju til mín og minna frá þeim. Nú una Geiri og Hanna sér glöð og sæl saman í sumarlandinu. Minning um ykkur lifir í hjörtum okkar um ókomna tíð.

Takk fyrir allt og allt.

Þín tengdadóttir,

Elín.

„Nú er komið að því“ – hann var svo feginn að fá að kveðja þennan heim. En þessi orð lét hann falla 5 dögum áður en hann kvaddi. Alltaf léttur þegar maður kom í heimsókn: „Hvað, er ekkert að frétta?“ Tók vel á móti mér þegar ég kom inn í fjölskylduna, sagðist vera kommúnisti og var mikið hrifinn af Stalín, en átti samt einhverja sjálfstæðismenn sem voru góðir vinir hans, en aldrei fékk ég að vita hvað þeir hétu, en það skiptir ekki máli. Við tókumst oft á um pólitíkina og lífið og stundum gekk mikið á, en vináttan var alltaf yfirsterkari. Þú varst einstakur á þinn hátt og yndislegt að hafa kynnst þér, varst vinur í raun og mikið hafði ég gaman af því að spjalla við þig þegar við vorum tveir einir saman.

Í brjóstum manna bærast öfl sem berjast þrátt um völd

og flest til sigurs fram þau keppa fram á ævikvöld

en vináttan hún bindur bönd sem bresta ei í raun

og forlaganna á feigðarströnd oft finnast sigurlaun.

Í örlaganna öfugstreymi og öllu kasti lífs

hún veitir styrk og þrótt og þol er þjóta stormar kífs

hamingjunnar hverfult hjól þó hringsins snúist braut

hún breytir sorg í sælusól og sigrar mitt í þraut.

Og þó að hjartað harmur nísti og hels að blæði sár

hún veitir styrk í þungri þraut og þerrar burtu tár,

hún eflir þrótt og eykur þor, hún endurnærir önd,

hún bendir mönnum beina leið að bjartri vonaströnd.

(Antoníus Samúelsson)

Elsku kallinn minn, frábært að fá að kynnast þér og þinni fjölskyldu.

Takk fyrir góða vináttu og öll árin sem við áttum saman.

Kv.

Björn Jóhannsson.

Elsku besti afi minn, loksins fékkstu hvíldina sem þú varst búinn að þrá svo lengi eða alveg síðan amma fór, sú stund kom 10. júní á afmælisdegi Dísu systur.

Þið amma völduð sko ykkar daga. Ég trúi því að það hafi verið tekið vel á móti þér með spilum og rjómaköku.

Elsku afi minn, ég á margar góðar minningar með þér, þú varst yndislegur afi og langafi, það var nú ekki leiðinlegt að segja þér frá því þegar ég var ólétt af Þóru minni að hún fengi sama afmælisdag og þú, mikið varstu glaður og alltaf komstu með rós handa henni þegar þið amma komuð í heimsókn, hún átti stóran stað í hjarta þínu.

Ef ég kom ekki í heimsókn til þín kannski í þrjá daga hringdir þú og athugaðir hvort ég væri á lífi, svona varstu, vildir alltaf hafa líf og fjör í kringum þig.

Elsku afi, við erum stór og samheldin fjölskylda og ég sé til þess að við höldum áfram túttlumóti, jólaboði og happadrætti jú, sem þú hafðir einstaklega gaman af.

Takk fyrir allt og kysstu ömmu frá mér.

Þín

Linda Rós.