Bragi Níelsson var fæddur 16. febrúar 1926. Hann lést 13. júní 2021.
Útförin fór fram 25. júní 2021.
Við leiðarlok viljum við, gamlir samstarfsmenn Braga Níelssonar læknis, minnast hans með nokkrum orðum. Læknisstarf Braga var samofið sjúkrahúsinu á Akranesi alla hans starfsævi. Bragi lauk læknanámi árið 1957. Hann hóf störf sem aðstoðarlæknir á Sjúkrahúsi Akraness árið 1958 og vann þar flest sín starfsár, með stuttum hléum þó. Hann var yfirlæknir svæfingadeildar sjúkrahússins frá 1980 til starfsloka árið 1996.
Hiklaust má telja Braga Níelsson einn af frumkvöðlum svæfingalækninga á Íslandi. Hann hóf sem ungur læknir að svæfa sjúklinga fyrir skurðaðgerðir, líkt og víða var siður á þeim tíma. Svæfingarnar virðast hins vegar hafa vakið áhuga hans á því að halda áfram á þeirri braut og hann fór að afla sér þekkingar á því sviði. Á árunum milli 1951 og 1958 höfðu einungis fjórir íslenskir læknar hlotið sérfræðingsviðurkenningu í svæfingum. Svæfingalækningar voru ung sérgrein á þessum árum og nám í þeim fræðum lítt skipulagt. Margir læknar fengu þá eldskírn að svæfa sjúklinga sem eitt af sínum fyrstu læknisverkum á spítala. Þetta var oft og tíðum erfitt starf, þokkaleg tæki og lyf lítt til staðar og þetta varð mörgum læknum þungbær raun. Sumir báru þess í raun aldrei bætur. Það var því mikið framfaraspor þegar svæfingalækningar urðu viðurkennd grein innan læknisfræðinnar.
Sjúkrahúsið á Akranesi tók á móti sínum fyrstu sjúklingum 4. júní 1952. Yfirlæknir var fyrstu árin Haukur Kristjánsson en árið 1955 tók Páll Gíslason við yfirlæknisstöðunni, þá nýkominn úr námi í skurðlækningum. Bragi hóf svo störf sem aðstoðarlæknir um þremur árum síðar. Hann fór fljótlega að vinna við svæfingar samhliða öðrum störfum. Fullyrða má að samstarf þeirra Páls og Braga sem þarna hófst hafi lagt grunninn að þeirri fjölbreyttu skurðstarfsemi sem enn má sjá á sjúkrahúsinu á Akranesi. Bragi aflaði sér sérfræðimenntunar hérlendis og erlendis þótt ekki hlyti hann formlega sérfræðingsviðurkenningu fyrr en árið 1977 en þá hafði hann starfað meira og minna við svæfingar hátt í tuttugu ár.
Jafnhliða spítalastörfum var Bragi til margra ára starfandi heimilislæknir á Akranesi og tók þar bæjarvaktir. Vinnudagurinn var því oft býsna langur. Hann var langtímum saman einn á svæfingavakt á spítalanum, afleysingar fátíðar og frí stopul.
Þrátt fyrir vinnu og vaktir var tími fyrir félagsstörf. Bragi var formaður Læknafélags Mið-Vesturlands um tveggja ára skeið. Hann sat í stjórn Sjúkrahúss Akraness og í stjórn Dvalarheimilisins Höfða á Akranesi. Bragi var formaður Svæfingalæknafélags Íslands árin 1974-1976 og í stjórn Norræna svæfingafélagsins (NAF) í tvö ár. Hann var kjörinn heiðursfélagi Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands (SGLÍ) árið 1997. Hann var heiðursfélagi Læknafélags Vesturlands. Bragi var landskjörinn þingmaður fyrir Alþýðuflokkinn frá júní 1978 til desember 1979.
Við viljum, fyrir hönd Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, þakka Braga fyrir tryggð og ósérhlífni við sjúkrahúsið okkar. Aðstandendum vottum við samúð.
Björn Gunnarsson
Þórir Bergmundsson.