Stefán Alexandersson fæddist 26. ágúst 1946. Hann lést 14. júní 2021.

Útför Stefáns fór fram 24. júní 2021.

Í dag kveðjum við hann Stefán hinstu kveðju. Við kynntumst honum og hans góðu fjölskyldu fljótlega eftir að elsti sonur okkar og dóttir þeirra hjóna kynntust, en þau voru samtíða í Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Við höfum alltaf þekkt hann Stefán sem brosmildan, ljúfan og góðan mann. Við sáum fljótlega hvað fjölskylda Stefáns og Lailu var samrýmd og þau mikið fjölskyldufólk. Okkur varð strax vel til vina og við vorum oft boðin í fjölskylduboð hjá þeim. Ekki má gleyma skemmtilegu áramótaveislunum sem okkur var boðið í.

Stefán var laginn maður og alltaf tilbúinn að koma til aðstoðar börnum og tengdabörnum þegar á þurfti að halda. Þau hjónin áttu fallegt heimili og seinna eignuðust þau sumarbústað sem þau keyptu tæplega fokheldan. Börnin og tengdabörnin hjálpuðu til við að innrétta hann og gera að notalegum íverustað. Við komum oft í heimsókn í bústaðinn og var alltaf gaman að koma þangað. Hann er í þægilegri akstursfjarlægð frá höfuðborginni í rólegu og fallegu umhverfi.

Stefán og Laila komu stundum í heimsókn til okkar á Akranes og var alltaf gaman að hitta þau og fjölskylduna.

Megi guð geyma Stefán og varðveita.

Við sendum eiginkonu hans og fjölskyldu okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Bjarni og Kristín.