John Snorri Sigurjónsson fæddist í Reykjavík 20. júní 1973. Hans var saknað á fjallinu K2 í Pakistan 5. febrúar 2021.

Útför Johns Snorra fór fram 22. júní 2021.

Mikið er það sárt að kveðja þig John. Það eru liðnir fjórir mánuðir frá því að þú gerðir lokaatlögu á toppinn til að sigra sjálfan þig og fjallið aftur. Fjallið sem þú hafðir sigrað fjórum árum áður. Fjallið sem marga dreymir um en fáir sigrast á. En einhvers staðar tóku guð og fjallið yfir og höguðu örlögunum á þennan veg. Fjallið sem þú settir fyrstur manna íslenska fánann á, næsthæsti og erfiðasti fjallstindur í heimi.

En hún Lína leitaði að þér. Hún gerði allt sem í hennar valdi stóð til þess að þú myndir finnast. Hún breytti heimilinu ykkar í alþjóðlega björgunarmiðstöð. Hún virkjaði öll möguleg og ómöguleg úrræði til þess að hægt væri að leita meira og betur. Fann allt gott fólk sem gat lagt lið. Eftir því sem dagar og nætur liðu og leitin skilaði litlu og vonir okkar dvínuðu um að þú myndir finnast á lífi missti hún ekki trúna á að þú fyndist. Hún elskaði þig, hafði trú á þér og vildi fá þig heim.

Fjallamennskan átti hug Johns allan og á því sviði vann hann stóra sigra. Afrekið 2017 er okkur ekki bara minnisstætt vegna þess hversu öflugur fjallgöngumaður John var, að fara á K2 sem telst erfiðasta fjallamennska í heiminum, heldur fór hann rakleiðis áfram á Broad Peak því hann gat slegist í för með öðrum hópi sem ætlaði þangað. Það er mjög lýsandi fyrir þann sterka, bjartsýna og ævintýragjarna karakter sem John var. Þau voru líka einstaklega falleg og samstillt hjón og hún gaf honum skilyrðislausan stuðning í öllum fjallaferðunum.

Allt sem John tók sér fyrir hendur gerði hann á sinn einstaka hátt, með bros út að eyrum og liðina flaksandi. Allt var gert af fullum krafti og alúð. John var duglegur, áræðinn og viljasterkur og það leyndi sér ekki þegar við spjölluðum saman. Hugmyndirnar og áætlanirnar voru stórar og þær voru framkvæmdar, þó svo að stundum færu þær ekki alveg eins og áætlað var. En baráttuþrekið vantaði ekki og því áttum við sem þekktum hann von á að hann kæmist niður af fjallinu með stóra brosið sitt.

Í allri þessari sorg lifa góðar minningar um lífið sem John, Lína og krakkarnir áttu saman, og þær góðu stundir sem við áttum saman með þeim. Ég man þegar Lína sagði mér að hún hefði kynnst manni og væri á leið í grunnbúðir Everest. Svo fór ævintýrið á flug hjá þeim, sem var fallegt og skemmtilegt að fylgjast með og alltaf svolítið öðruvísi. Hvert skipti sem við hittumst var eitthvert ferðalag á döfinni, eða önnur ævintýri í bígerð. Lífsgleðin allsráðandi.

Hugur okkar hefur reikað fram og til baka og minningarnar geyma dýrmætar perlur. Minningar um fallegt líf og góðan föður. Það allra fallegasta var að sjá John saman með Línu og öllum börnunum í leik og starfi, og í dag sjáum við John í þeim öllum. Kraftmikil, brosandi og áræðin eins og pabbi þeirra.

Vel sé þér, vinur,

þótt vikirðu skjótt

Frónbúum frá

í fegri heima.

Ljós var leið þín

og lífsfögnuður,

æðra, eilífan

þú öðlast nú.

(Jónas Hallgrímsson)

Máni og Berglind.

Mér finnst ótrúlegt að John Snorri sé farinn. Maður bjóst alltaf við því að hann birtist óvænt, brosandi og glaðbeittur, eins og ætíð. Ég kynntist John fyrir réttum 25 árum í Vélskólanum þar sem hann sat í eðlisfræðitíma hjá mér. Hann vakti strax athygli, bæði vegna nafnsins en þó enn frekar vegna brossins. Hann hafði sérstaklega góða nærveru og það var alltaf bjart og létt í kringum hann. John var afskaplega atorkusamur; hafði lokið Vélskólanum, 2. stigi í skipstjórn, var í HÍ og lauk svo BSc-prófi frá Háskólanum á Bifröst 2015.

Undanfarin ár höfum við oftast hist um haust og vor og alltaf hafði hann frá mörgu að segja. Fjölskyldan var honum ætíð efst í huga en svo var hann á fullu í framkvæmdum á Íslandi eða erlendis, námi hér eða þar, eða þá í ferðalögum á fjarlæga tinda. Þá varð manni oft um og ó og fylgdist með ferðalögum hans eins og kostur var í tölvunni heima. Þegar ég hitti hann síðastliðið haust var mikill hugur í honum vegna væntanlegrar vetrarfarar á K2. Því miður endaði sú ferð hans ekki sem skyldi, eins og alþjóð veit, en hans er sárt saknað.

Um leið og ég þakka John fyrir samfylgdina votta ég Línu Móeyju og börnum hans innilega samúð mína. Hvíldu í friði, kæri vinur.

Sigurður R. Guðjónsson.