Þorvaldur Jóhannes Elbergsson fæddist 11. desember 1934. Hann andaðist 11. júní 2021.
Útför hans fór fram 23. júní 2021.
Í dag kveðjum við elsku Valda okkar. Við erum þakklát fyrir að hafa fengið að hafa hann í lífi okkar og eigum ótal minningar sem ylja á kveðjustund. Það var alveg einstaklega gaman að sitja og spjalla við Valda. Hann var svo fróður um marga hluti, skemmtilegur, fylgdist vel með öllu og húmorinn hans var frábær. Umhyggja hans gagnvart fólkinu sínu var mikil. Hann fylgdist alltaf með hvað allir voru að stússast og mörgum sinnum á dag fór hann á „marine traffic“ til að fylgjast með strákunum sínum á sjónum. Valdi fylgdist mikið með enska boltanum og hélt alltaf með West Ham sem við svo höldum öll svolítið upp á út af honum. Það verður tómlegt á Grundargötu 23 þar sem hann bjó næstum alla sína tíð og þá sérstaklega fyrir pabba og mömmu sem hafa búið með honum þar í mörg ár og hugsað einstaklega vel um hann og sérstaklega eftir að hann veiktist og var hann þeim mjög þakklátur fyrir það.
Góður drengur er genginn,
góður maður er dáinn.
Minnir hann oft á máttinn
maðurinn slyngi með ljáinn.
Allra okkar kynna
er ánægjulegt að minnast.
Mér finnst slíkum mönnum
mannbætandi að kynnast.
(Kristján Árnason frá Skálá)
Elsku Valdi, minning þín lifir í hjörtum okkar.
Guðmunda, Hinrik og fjölskylda.