Egill fæddist í Reykjavík 11. júní 1955. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu í Skálholti 9. júní 2021.

Foreldrar Egils voru Hallgrímur H. Egilsson, f. 13.7. 1919, d. 7.5. 1996, garðyrkjubóndi og Sigurlaug Guðmundsdóttir, f. 24.2. 1919, d. 3.4. 2002, húsfreyja. Bræður Egils eru Jón Hallgrímsson, f. 12.1. 1944, fyrrv. lögregluþjónn og bílstjóri í Reykjavík, eiginkona hans var Herdís Jónsdóttir, f. 13.8. 1944, d. 23.11. 2012, og Páll Hallgrímsson, f. 15.6. 1958, vörubílstjóri í Reykjavík.

Þann 23.9. 1989 kvæntist Egill Ólafíu Sigurjónsdóttur hjúkrunar fræðingi, f. 19.8. 1956. Foreldrar hennar voru Sigurjón Guðbergsson, f. 1.8. 1907, d. 3.1. 1984, málarameistari og Jóhanna Sveinsdóttir, f. 14.1. 1931, d. 21.1. 2007, húsfreyja. Börn Egils og Ólafíu eru: 1) Sóley Linda, f. 3.12. 1989, BA í bókmenntum, MA í leikhúsleikstjórn, starfar sem bókavörður og stundar MA í upplýsingafræði við HÍ. Unnusti hennar er Viðar Stefánsson, prestur í Vestmannaeyjum. 2) Hallgrímur Davíð, f. 12.9. 1993, BA í vélaverkfræði HÍ, BA í tölvunarfræði HÍ. Starfar í Svarma yfir hugbúnaðarþróun. Egill vann fram á fullorðinsár í gróðurhúsi pabba síns í Hveragerði. Hann lauk landsprófi frá Hlíðardalsskóla í Ölfusi eftir nám í Barna- og gagnfræðaskóla Hveragerðis. Hann lauk stúdentsprófi frá MH 1976. Að því loknu vann hann sem gæslumaður á geðdeild Landspítalans og var einn vetur kennari við Grunnskólann á Bíldudal. Egill nam sálfræði við HÍ en flutti sig síðan yfir í guðfræðideild og lauk cand. theol-prófi 1991. Með náminu var hann vaktmaður að Sogni í Ölfusi hjá SÁÁ og kirkjuvörður í afleysingum við Dómkirkjuna í Reykjavík. Þar sá hann lengi um barnastarf ásamt Ólafíu. Egill var sóknarprestur í Skagastrandarprestakalli 1991-1998. Hann tók við embætti sóknarprests í Skálholtsprestakalli 1998 og sinnti því til æviloka. Prestakallið nær yfir Bláskógabyggð, Grímsnes, Grafning, Laugardal og Þingvallasveit. Hann þjónaði átta sóknum en kirkjurnar sem hann þjónaði voru alls tólf því auk sóknarkirknanna þjónaði hann einnig Sólheimakirkju og Úthlíðarkirkju. Egill kynntist eiginkonu sinni þegar hann var gæslumaður á Kleppsspítalanum og hún var þar hjúkrunarnemi. Þau hafa því fetað æviskeiðið saman í 40 ár og Ólafía staðið þétt við hlið eiginmanns síns í prestsþjónustu hans. Egill sat í stjórn Skógræktarfélags Skagastrandar 1992-97, stjórn Kirkjumiðstöðvarinnar við Vestmannsvatn 1993-97, var formaður áfengisvarnanefndar Höfðahrepps 1994-97, í stjórn Prestafélags hins forna Hólastiftis 1995-97, í fulltrúaráði Hjálparstofnunar kirkjunnar 1995-98, í stjórn Æskulýðssambands kirkjunnar í Hólastifti 1996-97, í stjórn Collegium Musicum, samtaka um tónlistarstarf í Skálholti, frá 1998, stjórn Helgisiðastofu í Skálholti um árabil og í stjórn Þorláksbúðarfélagsins frá 2011. Egill sótti ýmis námskeið, m.a. í klaustri í Danmörku, nam og stundaði centering prayer í klaustri í Colorado, lauk námi í stjórnendamarkþjálfun 2017 frá HR og lauk námi í meðferðardáleiðslu frá Bandaríkjunum árið 2018.

Útförin verður gerð frá Skálholtsdómkirkju í dag, 26. júní 2021, klukkan 13.

Það er ávallt erfitt að skrifa um látna ástvini svo sómi sé að. Bæði þeim sem skrifar og hinum látna. Orð eru jú í grunninn bara orð og mannsævi og minningar er aldrei fyllilega hægt að móta eða miðla með orðunum einum.

En minningarnar eru dýrmætar og í sorginni er gott að tína þær til er ég kveð Egil, ástkæran tengdaföður minn, með þökkum og hlýhug.

Ég hlakkaði reyndar lítið til þess að hitta Egil í fyrsta skipti og má segja að það hafi valdið mér miklum kvíða. Fyrir utan hinn klassíska ótta gagnvart því að hitta tengdaforeldra í fyrsta skipti var hann sóknarprestur í Skálholti, fornum og virðingarmiklum sögustað, og af prófílmynd hans á Facebook að dæma var hann grjótharður mótorhjólakappi, sitjandi á stóru mótorhjóli.

En kvíðinn hvarf fljótt þegar við hittumst loks og hörkutólið var hvergi að finna. Ljóst var frá fyrstu kynnum að þar fór einstaklega blíður maður sem tær kærleikur streymdi frá. Þá hafði hann mikinn áhuga á öðru fólki og bar einstaka virðingu fyrir þeim sem voru algjörlega þeir sjálfir. Sem betur fer fyrir mig.

Við náðum strax ágætlega saman, enda heppilegt að ég var í guðfræðinámi, og urðu samtöl um trúmál, kirkju og kristni fjölmörg. Síðar fékk ég að fylgja honum og aðstoða í prestsþjónustunni í hinu víðfeðma Skálholtsprestakalli sem var sérlega góð reynsla. Egill leyfði mér að gera margt í helgihaldinu og meira eftir því sem á leið og fyrir það er ég þakklátur. Samtöl okkar í bílnum milli kirkna eru mér minnisstæð og hefði ég viljað að þau yrðu fleiri.

Í þessari þjónustu, sem var oftast á páskum og jólum, sá ég hversu alvarlega hann tók þjónshlutverki sínu sem prestur. Ekki þó á þann hátt að hann notaði starf sitt eða stöðu til að tala niður til annarra heldur var köllun hans til prestsþjónustu svo áþreifanleg og djúpstæð og sannarlega áttaði hann sig á því að þrátt fyrir að hann væri mikilvægur sem prestur þá var sá sem leitaði þjónustu hans þeim mun mikilvægari.

Þegar ég varð prestur í Vestmannaeyjum sýndi hann minni þjónustu áhuga og spurði reglulega um ýmislegt tengt helgihaldi, samfélaginu eða öðru sem bar á góma. Var ávallt gaman að fá hann í heimsókn þrátt fyrir að hann hafi aldrei krafist sérstakrar gestrisni enda ávallt sáttur við það sem hann hafði og óskaði ekki eftir meiru en þurfa þótti. Þá lifði Egill algjörlega í núinu og fór sína leið í öllu sem hann tók sér fyrir hendur og ekki var verra ef það gat verið einkennilegt á einhvern hátt.

Gott hefði verið að allar þessar stundir og aðrar yrðu fleiri en svo verður ekki. Enginn veit sína ævi fyrr en öll er og skyndilegt andlát hans ristir djúpt hjá okkur fjölskyldunni. Það er um leið skrýtið og sárt en skyndilegt andlát hans hefur e.t.v. kennt stærstu lexíuna: Lífið er núna. Sárt er að þetta hafi þurft til þess.

Elsku Egill, takk fyrir að hafa tekið vel á móti mér í fjölskylduna, takk fyrir allar góðar stundir á akrinum og takk fyrir að feta þinn veg sem dyggur þjónn Drottins. Mér þykir vænt um hlutverk þitt í lífi mínu.

Guð blessi minningu þína. Amen.

Viðar Stefánsson.

Séra Egill er nú farinn,

enginn var þó fyrirvarinn.

Hann sem átti eld í huga

ást og trú sem mátti duga

til að þjóna þeim sem vilja

þekkja Guð og orð hans skilja

(ÞKÁ)

Okkar kæri Skálholtsstaður hefur misst tryggan þjón. Séra Egill sóknarprestur hefur verið kallaður til himnaföðurins, sem hann helgaði líf sitt af trúmennsku og heilindum. Langri og farsælli prestsþjónustu hans er lokið. Ófáar eru þær sálirnar, sem hann hefur blessað með einstakri handleiðslu sinni. Við erum á meðal þeirra.

Síðastliðin sex ár höfum við leitt Kyrrðardaga kvenna í Skálholti. Þjónusta séra Egils á þessum dögum hefur skipt sköpum í lífi okkar og þeirra mörgu kvenna sem hafa notið hennar. Samstarf okkar við séra Egil einkenndist af gagnkvæmri virðingu og kærleika, þar sem þakklæti og gleði voru ríkjandi. Hann sagði oft að þátttaka hans í kyrrðarstarfinu okkar væri honum bæði hvatning og endurnæring í daglegum störfum. Sjálfur bauð hann upp á kyrrðarstund í hinum ýmsu sóknum Skálholts.

Köllun Guðs var sterk í lífi séra Egils. Hans gæfa var að hlýða því kalli. Trúarsannfæring hans sterk og hann var óhræddur við að kanna hinar ýmsu víddir tilverunnar. Eins var hann mjög fróður um og hafði mikinn áhuga á því sem tengdist lífi okkar mannanna á jörðinni þá og nú. Þetta dýpkaði skilning hans á guðdóminum og andlegri tilvist mannsins.

Okkar gæfa er að hafa notið þjónustu hans. Hann var okkur mikil og góð fyrirmynd. Hugrakkur auðmjúkur og hlýr. Uppbyggjandi en um leið beittur í prédikun sinni, trúr orði Guðs, sem varð í flutningi hans bæði lifandi og kröftugt. Oft gerði hann góðlátlegt grín að sjálfum sér, og þá var auðveldara að samsama sig því sem hann prédikaði. Þannig náði hann svo vel til þessa fjölbreytta hóps kvenna.

Hjörtu okkar eru full þakklætis fyrir kæran leiðtoga og vin, sem við kveðjum í dag. Við biðjum Skálholtsstað blessunar og handleiðslu þess Guðs, sem séra Egill helgaði líf sitt og krafta. Guð gefi vernd og grósku hverju fræi sem hann sáði og hlúði að af nærgætni.

Eiginkonu hans og fjölskyldunni allri biðjum við huggunar Guðs í hennar miklu sorg.

Skálholts kirkjuklukkur óma,

kveðjustund er sveipuð ljóma.

Er sem helgur himnaskarinn

heiðri þann sem nú er farinn.

Faðir vor á himni háum,

huggun þína' og líkn við þráum.

(ÞKÁ)

Anna Stefánsdóttir,

Ástríður Kristinsdóttir,

Bergþóra Baldursdóttir,

Kristín Sverrisdóttir,

Þórdís Klara Ágústsdóttir.

Að eiga góðan vin er dýrmætt og mikils virði! Að missa góðan vin er svo sárt og erfitt! Egill var góður vinur og var mér mikils virði! Hann var einstakur vinur. Við spjölluðum oft saman um svo margt, lífið og tilveruna og spáðum í margt. Hann var mikill húmoristi og var stutt í hláturinn og grínið hjá honum. Hann kom austur í maí til að ferma hjá okkur og kom aldrei annað til greina en að fá Egil. Sem betur fer tók hann vel í þessa bón og flaug austur til okkar. Þegar við vorum að undirbúa ferminguna þá spurði ég hann hvort að það ætti að fara tvisvar með Faðirvorið og var hann snöggur að svara: „Já, ekki spurning! Allir alvöruprestar fara með það tvisvar“ og síðan brosti hann. Já, Egill var sko alvöru prestur og var alltaf gott að fara í messu til hans enda átti ég það til að fara í eins margar messur hjá honum um jólahátíðina eins og ég gat þegar ég kom suður. Þegar ég keyrði Egil út á flugvöll þann 21. maí, daginn eftir ferminguna, þá kvöddumst við með faðmlagi og töluðum um að þau yrðu að koma austur og ég myndi keyra með þau um Austfirðina við tækifæri. Hann kvaddi mig og sagði: „Áslaug, við skulum heyrast fljótlega. Mjög fljótlega.“ Við vorum ekki búin að heyrast því það voru bara liðnir 20 dagar frá því hann var hér og þar til hann varð bráðkvaddur. Lífið er alltaf að kenna mér að það er ekki hægt að ganga að neinu vísu.

Elsku Ólafía, Sóley Linda, Hallgrímur Davíð og Viðar. Missir ykkar er mikill. Guð styrki ykkur í þessari miklu sorg. Egill var einstakur maður og ég er ríkari að hafa fengið að kynnast honum og ykkur fjölskyldunni.

Hversvegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Elsku Egill, góða ferð í sumarlandið, hafðu kæra þökk fyrir allt og allt.

Þín vinkona,

Áslaug frá Króki.

Stórt skarð og vandfyllt hefur myndast í skólasystkinahópnum og meðal þjóna kirkjunnar við mjög svo ótímabært og skyndilegt fráfall dómkirkjuprestsins í Skálholti, Egils Hallgrímssonar. Enginn átti von á þessu og ábyggilega mörgum líkt farið og mér að eiga erfitt með að trúa þessu í fyrstu.

Ég kynntist honum fljótlega eftir að hann kom í deildina, og talaði oft við hann. Það var strax auðfundið, hversu hann ígrundaði allt vel, sem við lærðum og lásum. Allt var það líka með mikilli athygli, ígrundun og yfirlegu, og var nákvæmt, vandað og vel út hugsað, sem frá honum kom í ræðu og riti. Þar var ekki verið að kasta til höndunum. Það var gaman að tala við hann, því að hann var fróður og skemmtilegur. Hann var líka rólegur og yfirvegaður og hafði mjög góða nærveru. Strax í deildinni gat maður greint í honum takta sálusorgarans, og ég hugsaði stundum, að það yrði áreiðanlega góður prestur úr honum, sem og varð. Þá vissi ég ekki, að hann hafði verið í sálfræðinámi áður. Það var gott að njóta nærveru hans og félagsskapar þeirra beggja, Ólafíu og hans, en þau voru oftar en ekki saman í deildinni. Það var auðséð, að þau áttu vel saman.

Þegar hann var kjörinn dómkirkjuprestur í Skálholti, þá var hann réttur maður á réttum stað. Hann sómdi sér ákaflega vel í því embætti, og setti sinn svip á staðinn. Ég var um vikutíma í Skálholti sumarið 2004, en hitti svo á, að þau Ólafía voru í sumarleyfi, og komu ekki fyrr en daginn, sem ég fór af staðnum. Það var gott að hitta þau, og auðfundið, að Egill var vinur vina sinna, og skipti ekki máli, þótt við hefðum ekki sést eða talast við svo árum skipti. Það var alltaf gott að hitta hann.

Það er vissulega mikil eftirsjá að þessum góða dreng, og íslenska þjóðkirkjan hefur misst einn af sínum bestu þjónum.

Með sorg í hjarta kveð ég nú þennan ágæta skólabróður minn hinstu kveðju, og bið honum allrar blessunar Guðs, þar sem hann er í landi ljóss og friðar, með kærri þökk fyrir góða og gjöfula viðkynningu gegnum árin. Ólafíu og fjölskyldunni allri votta ég mína dýpstu samúð og bið Guð að vera með þeim, styrkja þau og styðja á þessum erfiðu tímum.

Blessuð sé minning Egils Hallgrímssonar.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir.

Fráfall séra Egils Hallgrímssonar var harmafregn. Hryggð vina hans og samferðafólks er mikil en mestur er missir fjölskyldu hans. Hví hafa örlögin kallað „svona vænan vinnumann af velli heim á bæ um miðjan dag.“

Menntaskólaárin í Hamrahlíð fyrir næstum hálfri öld voru ár þroska og lærdóms. Þá varð til einlæg vinátta okkar Egils. Í Grjótaþorpi stutt frá Unuhúsi var annað lítið hús þar sem stúdentsefni úr MH hittust. Þangað sótti Egill til að hitta vini sína, hlýða á tónlist og gleðjast. Gestagangur var mikill og gleðin eftir því.

Vináttan við Egil var gefandi, hann var einstaklega skemmtilegur, hlýr og hjálpsamur. Skarpgreindur, jákvæður og fjölfróður um menn og málefni. Kurteisi, hófsemi og hlédrægni einkenndu vandaða framkomu hans. Samræður við hann voru heillandi og aldrei skorti umræðuefni. En það var einnig gott að geta þagað með Agli, þegar hlýtt var á tónlist án samtala. Margar hljómplötur voru spilaður upp til agna á þessum árum.

Og svo kom Ólafía. Glæsileg eins og í ævintýri, með kolsvart hár og hvít á hörund. Ástin kviknaði og fyrr en varði var hann fluttur inn til hennar á Nönnugötuna. Virðingin og hlýjan á milli þeirra var mikil. Þau ætluðu að eigast til æviloka.

Egill var ætíð önnum kafinn. Meðfram námi stundaði hann oftast vinnu, enda vinnusamur. Hann seldi sumarblóm, var gæslumaður, kennari, kirkjuvörður, þýðandi og hann sté meira að segja á fjalirnar í Þjóðleikhúsinu. Í háskólanum tók Egill sér tíma, var óviss um sálfræðina en svo fann hann fjölina sína í guðfræðinni. Hann var einlægur trúmaður og ákvað að þjóna Guði og boða fagnaðarerindið. Eftir að guðfræðinni lauk hélt hann áfram að bæta við sig – hann var alltaf að læra.

Prestsár Egils urðu þrjátíu. Hann boðaði Orðið með merkilegum predikunum ásamt eftirminnilegum og innihaldsríkum hugvekjum á vefsíðu kirkju sinnar og söng fallegar messur. Það var eftirminnilegt að sækja þær í Skálholti og þess virði þótt vegalengdir væru drjúgar. Hann var hugsunarsamur um sóknarbörn sín og ávann sér vinsældir og virðingu þeirra.

Snemma á prestsárum Egils átti Kirkjan erfitt. Egill tók þær innantökur nærri sér og skipaði sér í hóp þeirra presta sem vildu reglufestu. Hann lét til sín taka þegar honum var misboðið og tjáði sig þá af hugrekki. Þegar gjaldtaka hófst í Skálholtskirkju mótmælti Egill kröftuglega og sagði: „Kirkjan er opin faðmur Guðs. Þetta er ekki listasafn, þetta er heilagt hús“.

Nú er hún Snorrabúð stekkur, það var einstakt að vera samferðamaður Egils, notaleg framkoma hans, hlýja handtakið, blikið í augunum, viðkunnanlega röddin og brosið hans sköpuðu góða nærveru. Egill var góðviljaður og átti ekki í illdeilum við fólk en var hreinskiptinn. Hans er sárt saknað. Nú stafar ylur frá gömlu jólakortunum og hugleiðingar hans í gestabókinni úr Grjótaþorpinu eru hreinar perlur. Ólafíu, eiginkonu hans, börnum þeirra og öðrum ástvinum eru færðar innilegar samúðarkveðjur. Nú hefur hann haldið til austurs eilífa. Hafi hann þökk fyrir allt og allt. Blessuð sé minning Egils Hallgrímssonar.

Skúli Eggert Þórðarson.

Við fráfall sr. Egils Hallgrímssonar er mikill harmur kveðinn að fjölskyldu hans og sóknarbörnum í Skálholtsprestakalli. Hann var ástsæll sóknarprestur, staðfastur í trúnni og sýndi í þjónustu sinni lipurð og umhyggju fyrir sóknarbörnum sínum. Það aflaði honum virðingar og tiltrúar hjá þeim sem hann þjónaði.

Hlýja og góðvild einkenndi Egil og skilningur á högum fólks og í starfi sínu kunni hann svo vel að beina athyglinni að því góða og jákvæða en horfast jafnframt í augu við raunveruleikann.

Hann hlúði vel að sóknarbörnum sínum, til hans gátu þau leitað og var liðveisla hans þeim ómetanleg því hann miðlaði af manngildi sínu og manngæsku. Vinnudagurinn var oft langur í stóru og víðfeðmu prestakalli. Prédikanir hans voru í senn vel ígrundaðar, vekjandi og uppbyggilegar, nærvera hans sjálfs þægileg, öll mannleg samskipti honum eðlislæg og nærgætin. Hann brann fyrir barna- og æskulýðsstarfi og sinnti því sérstaklega vel, enda sér vel meðvitaður um að þar er grunnurinn lagður að lífsgildunum.

Egill var fróðleiksfús og andleg málefni honum hugleikin. En hann lét ekki þar við sitja heldur kynnti sé einnig alþjóðamál og viðskipi og eiginlega allt þar á milli. Allt sem laut að lífsgátunni miklu var honum hugleikið og hann leitaði svara og fann þau í okkar kristnu trú og boðskap frelsarans. Hann hafði fjölþætta starfsreynslu áður en hann hóf prestsþjónustu, og vann með guðfræðináminu hin ýmsu störf. Hann var sífellt að leita sér frekari þekkingar og reynslu, fór á styttri og lengri námskeið og ráðstefnur bæði utanlands og hér heima og fylgdist vel með í guðfræði og raunar á öllum sviðum sem lúta að mannlegum kjörum og aðstæðum og lifði fram á síðasta dag eftir því mottói að vita meira og meira, meir í dag en í gær. Var hann enda víðlesinn og fróður. Hann var maður sem stóð og féll með verkum sínum, og þeirrar gerðar að vilja í engu bregðast því er honum var trúað fyrir.

Og áhugamál hans voru á fleiri sviðum, hann er sóknarbörnum sínum ógleymanlegur á mótorfáki sínum sem hann naut þess að ferðast á.

Fjölskylda hans, hans góða kona Ólafía og börnin hans Sóley Linda og Hallgrímur Davíð, voru samofin verkahring Egils í Skálholti og Ólafía var honum samstíga að láta allt ganga upp og studdi hann vel í starfi hans og þjónustu þar sem ekki er spurt um tíma eða dag þegar kallað er eftir þjónustu prestsins.

Í hópi okkar presta á Suðurlandi var hann góður félagi, hlýr í samræðum og manna skemmtilegastur enda einstaklega vel gefinn og skýr í hugsun og framsetningu. Hjá honum var alltaf stutt í húmorinn og gaman að sjá hvernig honum tókst að fanga athygli viðstaddra þegar hann sló á létta strengi. Við prestarnir söknum vinar í stað en þökkum jafnframt fyrir samfylgdina, fyrir gefandi samskipti og sanna fyrirmynd í þjónustu Drottins.

Ég sendi eiginkonu hans og fjölskyldu hugheilar samúðarkveðjur. Megi góður Guð styrkja þau og blessa.

Halldóra J. Þorvarðardóttir prófastur.

Ritað er í Opinberunarbók Jóhannesar 14.13:

Og ég heyrði rödd af himni sem sagði: „Rita þú: Sælir eru dánir, þeir sem í Drottni deyja upp frá þessu. Já, segir andinn, þeir skulu fá hvíld frá erfiði sínu því að verk þeirra fylgja þeim.“

Séra Egill Hallgrímsson, dómkirkjuprestur í Skálholti og sóknarprestur hins víðlenda Skálholtsprestakalls, hefur óvænt verið kallaður burt frá sinni jarðnesku sáningu inn til himneskrar uppskeru. Það er sárt að sjá honum á bak meðan enn var mörgu að sinna og margs að gæta. En Guð hlýtur að ráða.

Ritað er í Sálmunum: (Sálm. 102. 24,)

Hann bugaði kraft minn á miðri ævi, fækkaði ævidögum mínum.

Sannarlega var mér ekki

ókunnugt um að séra Egill var farinn að hugsa til starfsloka sinna eftir langa og dygga þjónustu, fyrst í Skagastrandarprestakalli frá vígsludegi sínum 12. maí 1991 og síðan í Skálholtsprestakalli frá 1. janúar 1998, sem aukið var um Mosfellsprestakall og Þingvallaprestakall rúmum áratug síðar. Hið nýja Skálholtsprestakall geymir því þær þrjár perlur Árnesþings, Skálholt, Þingvöll, Haukadal, eins og tilgreint er í samnefndu kvæði. Séra Egill naut þess að þjóna þessum vettvangi og byggði á og bjó að þeim grunni sem í nöfnum þessum felst.

Þegar séra Egill kom til starfa á Skagaströnd mynduðust tengsl milli okkar vegna þess að ég var þá formaður Prestafélags Hólastiftis hins forna. Það var þó ekki fyrr en við hófum samstarf í Skálholti í ársbyrjun 1998 sem við fórum að hittast daglega við bænahald kvölds og morgna. Það var gott að hverfa síðar að því samstarfi og eiga þar óslitin sjö ár. Séra Egill stóð traustum fótum í hinni kirkjulegu hefð og fylgdi þeirri braut sem forveri hans hafði mótað og lagður var grunnur að strax við vígslu Skálholtsdómkirkju 1963. Það var ómetanlegt að eiga séra Egil að sem nánasta samstarfsmann í boðun og helgihaldi í Skálholti þjónustutíma minn þar 2011-2018. Hann var sannarlega á heimavelli í helgihaldi kirkjunnar, fumlaus, öruggur og einlægur. Predikun sína og sérhverja útleggingu Guðs orðs vandaði hann vel og villtist ekki út af vegum kristinnar trúar og játningar. Samtöl okkar í kirkjunni þegar messu lauk um trúarefni eru mér dýrmætur fjársjóður. Við vorum mjög sama sinnis um flest þau málefni sem vörðuðu trúariðkun, trúfræðslu og helgihald nema helst lengd predikana. Það var gott að ræða öll mál við séra Egil og einnig það efni því hann var hreinskiptinn að eðlisfari og duldi ekki skoðanir sínar. Það er mikið þakkarefni að mega hvíla í þeirri minningu að aldrei urðum við sundurorða öll þessi ár sem við störfuðum saman. Ef okkur hafði láðst að ákveða fyrirfram hver ætlaði að gera hvað í einhverjum þætti helgihaldsins þá nægði augnatillit. Ég kveð vin minn og kollega í djúpri og einlægri þökk fyrir samstarfið og vináttuna og bið Guð að styrkja fjölskyldu hans í sorginni. Ritað er: (Opb. 3.20)

Ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér.

Kristján Valur Ingólfsson.

Eitt af allra síðustu verkum sr. Egils Hallgrímssonar var að framkvæma og helga brúðkaup verðandi hjóna í Haukadalskirkju. Það var geysilega falleg athöfn er sóknarpresturinn framkvæmdi af mikilli

alúð eins og öll sín verk er hann veitti og þjónaði í öllum sínum fjölmörgu söfnuðum.

Kirkjugesti óraði ekki fyrir að hinn ungi og dugmikli kirkjunnar þjónn væri þar að framkvæma

sína síðustu athöfn hér á jörð. Hann gat þess jafnan í upphafi máls síns, með lotningu, að af þessu ævaforna Guðs húsi stafaði mikil helgi enda sagan meir en þúsund ára gömul af þeim sögufræga stað.

Sr. Egill hefur nú skyndilega verið burt kallaður eftir rétt rúmlega 23 ára þjónustu við söfnuði

sína. Allt frá upphafi starfans hefur öll hans þjónusta við söfnuðinn okkar borið með sér velvilja, einlægni og góðvild.

Snemma komu í ljós einstakir eiginleikar hans við að ná til barna og starfa með þeim. Safnaðarstarf með þátttöku þeirra kallaði jafnan fram í honum það allra besta er mönnum getur verið gefið.

Með þeim eiginleikum sínum bjó hann mörgu ungmenninu góðan stað er gjarnan báru með sér þakklæti þeirra er nutu, og áttu í honum vináttu og báru trúar nesti fram á veg.

Í upphafi hafði Skálholtsprestakall á að skipa fjórum söfnuðum og jafn mörgum kirkjum er Egill hafði til sinnar sáluhirðar. Hin síðari ár var einnig bætt við hann fullri þjónustu við söfnuði í öðrum nærliggjandi sveitum. Duldist vart þeim er til þekktu að álagið á prestinum í Skálholti var orðið ærið og krefjandi hin síðari ár. Af þekktri bóngæfu sinni vann hann sér heldur ekki það sem auðveldara gæti orðið við að uppfylla sérhverjar óskir fólksins, hvar og hvenær sem verða vildi.

Sr. Egill var einlægur í trú sinni. Hann flutti söfnuði sínum fallegar bænir, af trúarhita, og hafði af miklu að gefa af hluttekningu sinni. Hvort sem var í gleði eða sorg.

Við berum fram okkar hjartans þakkir fyrir samveruna og tímann sem við fengum að njóta af góðum dreng, vini og Drottins þjóni. Við snúum þeim bænum er hann áður flutti okkur svo fallega og biðjum honum sjálfum, minningu hans, eftirlifandi eiginkonu, börnum og fjölskyldunni allri Guðs blessunar.

Fyrir hönd safnaðarfulltrúa Haukadalskirkju,

Einar Gíslason.

Frá upphafi sumartónleika í Skálholtskirkju hefur þátttaka tónlistarfólks í guðsþjónustum sunnudagsins verið fastur liður.

Séra Egill tók við ríkri hefð forvera síns, séra Guðmundar Óla Ólafssonar, og það má með sanni segja að hann fylgdi henni eftir með virðingu og alúð alla sína starfstíð. Það var alltaf gefandi samvinna að undirbúningi messunnar og tónlistarfólkið fann greinilega hve umhugað honum var um helgihaldið og einnig hve honum var eðlilegt að treysta því fyrir að velja bestu tónlistina á rétta staði í messunni.

Stjórnendur tónleikastarfsins áttu alla tíð sérlega gott samstarf við hann og þar ríkti gagnkvæm virðing og traust.

Við sem höfum setið í stjórn og stýrt Sumartónleikum í Skálholtskirkju þökkum að leiðarlokum fyrir dýrmætt starf hans og skilning.

Guð blessi minningu Egils Hallgrímssonar og veiti fjölskyldu hans styrk og huggun.

Fyrir hönd stjórnar og stjórnenda sumartónleikanna,

Margrét Bóasdóttir.

Nú er skarð fyrir skildi á Skálholtsstað þegar séra Egill Hallgrímsson er fallinn frá. Í meira en tvo áratugi þjónaði hann tvíþættu starfi sem dómkirkjuprestur og sóknarprestur í Skálholtsprestakalli. Hann sinnti sínum störfum af trúmennsku, en ekki síður af trúarsannfæringu.

Eins og verða vill með hæfa menn fór starfsálag hans vaxandi með aldrinum. Til dæmis var bætt við hans starf fyrir nokkrum árum Mosfellsprestakalli í heild sinni. Mér er tjáð að undir lokin hafi séra Egill sinnt helgihaldi í tólf kirkjum og stofnunum. En það verður einnig að segjast, að í ljósi sögu kristni á Íslandi gerist varla meiri sæmd en að vera á sama tíma sóknarprestur í Skálholti og á Þingvöllum, þeim tveimur stöðum landsins sem saga kristninnar hefur risið hæst.

Ég kynntist séra Agli fyrst þegar við systkinin héldum sýningu á öllum íslenskum Biblíum, allt frá Guðbrandsbiblíu, sem kom út 1584, til okkar daga. Sýningin var opnuð á haustdögum 2018, þegar 500 ár voru liðin frá því að Lúther hóf mótmæli sín við Kaþólsku kirkjuna.

Sýningin var haldin í Þorláksbúð, en séra Egill var einn af forgöngumönnum byggingar hennar. Hann gladdist yfir sýningunni og taldi hana til vegs fyrir Skálholtsstað. Einnig að í Þorláksbúð færi vel að sýna þessar bækur, þær elstu þeirra hefðu verið varðveittar með þjóðinni í hundruð ára í húsnæði eins og Þorláksbúð.

Það gladdi Egil einnig að fá Þorláksbúð þetta hlutverk, eftir það moldviðri sem var magnað upp í tengslum við byggingu hússins. Nú er það svo að menn mega hafa eigin skoðanir á húsum, en sumir þeirra sem voru á móti Þorláksbúð fóru offari og sökuðu forsvarsmenn hússins um fjárdrátt. Þetta var séra Agli þungbært, þar sem hann sá um fjárreiður framkvæmdanna. Ríkisendurskoðun hreinsaði hann af öllum sökum og gekk svo langt að ávíta opinberlega menn sem dreifðu þessum rógi.

Ég nefni þetta hér vegna þess að þeir sem ata auri treysta á það að eitthvað af honum festist á mannorði þeirra sem atyrtir eru. Því tel ég það skyldu að halda til haga þegar heiðvirður drengskaparmaður eins og séra Egill er hreinsaður af skítkasti, svo allir megi vita hið sanna.

Að lokum vil ég óska konu hans, Ólafíu Sigurjónsdóttur, og börnum þeirra blessunar á þessari erfiðu stund.

Ólafur Sigurðsson.

Það er dýrmætt hverjum manni að geta lagst saddur og sæll í hvílu sína og notið góðrar hvíldar og endurnýjunar fyrir verkefni komandi dags. Það hefur jú reynt nokkuð á það á liðnum misserum að ótalmargir hlutir og mynstur í lífi okkar mannanna geta ekki talist sjálfsagðir og tilveran tekur breytingum þegar minnst varir. Þannig er það með lífið sjálft og hefur sjálfsagt alltaf verið. En hversu meðvituð sem við erum um lífið og dauðann er það þungbært að fá frétt um skyndilegt fráfall góðs vinar og samstarfsmanns.

Egil Hallgrímsson hittum við fyrst er leið að prestskosningum í Skálholti haustið 1997 að fjölskyldan hans kom í heimsókn til okkar og kynnti sig, þar sem Egill væri að sækja um stöðu sóknarprests í Skálholti. Það fór strax vel á með þessum fjölskyldum og óhætt að segja að það átti eftir að verða mikill samgangur á milli bæjanna, og náðu börnin strax vel saman í leik og starfi. Þar sem ég annaðist starf meðhjálpara þau ár sem ég var í Skálholti var óhjákvæmilegt að við myndum eiga margar stundir saman á starfsvettvangi Skálholtskirkju.

Í öllum störfum er gott að hafa áhugamál og félagsskap sem endurnýjar hugann og það má segja að séra Egill hafi haft þann hátt á. Það blundaði nefnilega dálítill töffari í Agli. Ég held að það hafi þurft sterkan vilja og kjark til að drífa sig í mótorhjólapróf og mæta svo í Skálholt á stóru mótorhjóli, ég man að ég hreifst mjög af því, þvílíkur krómfákur. Ég veit að hann átti margar góðar stundir á ferðum einn eða með mótorhjólafélögum sínum á góðum sumardögum í endalausri birtu sumarsins.

Já, þetta eru fátæklegar línur um það sem kom upp í hugann er mann setti hljóðan við þessa harmafregn að séra Egill hefði orðið bráðkvaddur að heimili sínu í Skálholti. Spurning vaknar um tíma okkar manna hér á jörð og hvenær við, hvert og eitt, erum burt kölluð af jarðvist okkar. En eitt vitum við að það er í hendi guðs. Ég minnist Egils sem ljúfs og einlægs manns. Hann var nákvæmur, hjartahlýr og gott til hans að leita. Ég er þakklátur fyrir að hafa átt Egil sem nágranna og samstarfsmann. Ég votta Ólafíu, Sóleyju Lindu, Viðari og Hallgrími Davíð innilega samúð á þessum erfiðu tímum.

Guttormur Bjarnason.

Með síra Agli Hallgrímssyni sóknarpresti og dómkirkjupresti í Skálholti er genginn merkur kennimaður og vandaður guðfræðingur, heilsteyptur trúvarnarmaður og prýðilegur prestur.

Hann varðveitti í embætti sínu við dómkirkjuna og í sóknarkirkjunum arfleifð heilagrar kirkju með mikilli virðingu, trúmennsku og lotningu eins og fyrir Guðs augliti og samkvæmt fyrirskipaðri reglu, framfylgdi kirkjuaganum eins og lög standa til með röggsemi og alvörugefni, en undir eins með hógværð og sannsýni, eins og hann hafði heitið biskupi við vígslu sína til hins heilaga prests- og predikunarembættis.

Hann var afar grandvar maður og prúðmenni upp á sunnlenzka vísu, orðvar og kurteis, en fastur fyrir þegar þurfti, einkum til varnar erindi kirkju og trúar og þegar honum þókti vera hallað sannleikanum, sem aldrei var fyrir honum samkomulagsatriði.

Íslenzk kristni og kirkja er fátækari nú en löngum áður þegar þögnuð er raust hans við helgar tíðir í Skálholti og hann býr ekki lengur staðinn undir nóttina að venju sinni.

Eg þakka síra Agli samfylgdina, votta frú Ólafíu, börnum og öðrum ástvinum samúð og bið þeim huggunar, en sjálfum óska ég honum náðar, miskunnar og friðar af Guði, föður vorum og Jesú Kristi, frelsara vorum í einingu heilags anda.

Geir Waage,

pastor emeritus

í Reykholti.