Þorgerður Laufey Diðriksdóttir
Þorgerður Laufey Diðriksdóttir
Eftir Þorgerði Laufeyju Diðriksdóttur: "Þegar foreldrar og kennarar taka höndum saman er hægt að vinna á nær öllum vandamálum sem upp koma og sannast þar enn á ný að skólamál eru samfélagsmál"

Nú þegar hillir undir að við séum að ná tökum á Covid-faraldrinum er rétt að þakka fyrir það sem vel var gert meðan verkefnið virtist allt að því óyfirstíganlegt. Við lögðumst öll á eitt; nemendur, foreldrar og kennarar, tókum höndum saman og sýndum svart á hvítu að þegar við stöndum saman að einhverju verkefni, þá náum við að leysa það.

Ég vil nota tækifærið, fyrir hönd kennara, og þakka bæði nemendum og foreldrum fyrir ótrúlega elju og dugnað á þessum fordæmalausu tímum. Það var aðdáunarvert að fylgjast með þeirri yfirvegun sem sýnd var og hvernig allir lögðust á eitt til að ná tökum á þeirri einkennilegu stöðu sem fylgdi faraldrinum.

Það sannaðist berlega og með óyggjandi hætti hversu mikilvægur grunnskólinn er, ekki bara sem stofnun, heldur sem samfélag. Þar þroska nemendur ekki bara með sér þá þekkingu sem þeir taka með sér út í lífið, heldur er grunnskólinn svo miklu miklu meira. Hann er félagslegur vettvangur, þar fá nemendur tækifæri til að finna styrkleika sína og áhugamál, þar er grunnurinn lagður. Sumir hafa haldið því fram að grunnskólinn geti ekki tekið utan um ólíka einstaklinga og búið þeim það örugga skjól sem þeir eiga rétt á, en allt slíkt tal varð að engu þegar við stóðum saman á Covid-tímanum. Auðvitað komu upp vandamál í grunnskólanum eins og alls staðar í þjóðfélaginu, en óvíða var tekið betur á þeim en einmitt hjá grunnskólanemendum, foreldrum og kennurum. Og það sýndi okkur að við sem samfélag ekki bara þurfum, heldur verðum, að gera allt sem í okkar valdi stendur til að vinna gegn vanlíðan í skólanum og það gerum við einmitt best saman. Þegar foreldrar og kennarar taka höndum saman er hægt að vinna á nær öllum vandamálum sem upp koma og sannast þar enn á ný að skólamál eru samfélagsmál og við verðum öll að leggjast á árarnar til að ná í land.

Grunnskólakennarar taka undir með félags- og barnamálaráðherra, sem ítrekað hefur bent á mikilvægi þverfaglegrar þjónustu við börn. Með slíku átaki er hafin vegferð um innleiðingu kerfisbreytinga þar sem grunnskólanemandinn er hjarta kerfisins og tryggt er að samfélagið grípi strax inn í ef aðstoðar er þörf. Þar er unnið eftir hugmyndafræði um snemmtæka íhlutun, en hún felur í sér að börn fái aðstoð áður en vandi geti orðið óafturkræfur, en til að slíkt gerist þarf að brjóta niður þá múra sem oft er að finna í „kerfinu“. Starfsþróun kennara er stór þáttur í þessu mikilvæga verkefni. Við viljum öll, hver svo sem við erum, að börnin okkar séu í fyrsta sæti, að þau séu okkar fyrsta og síðasta hugsun, því þau eiga það svo sannarlega skilið að við sem samfélag setjum velferð þeirra á oddinn. Og það er kjarninn sem við getum öll verið sammála um; að öll börn fái að þroskast í heilnæmu umhverfi þar sem þau eiga rétt á sömu tækifærum til náms og þroska. Þetta á ekki bara við innan skóla eða sveitarfélaga, heldur þvert á okkar samfélag. Stór þáttur í því er að breyta þeim hugsunarhætti að fjárhagsleg ábyrgð liggi hjá sveitarfélaginu. Ábyrgðin liggur hjá okkur öllum. Hún liggur hjá íslensku samfélagi.

Höfundur er formaður Félags grunnskólakennara.

Höf.: Þorgerði Laufeyju Diðriksdóttur