Björg Sveinsdóttir
Björg Sveinsdóttir
Eftir Björgu Sveinsdóttur: "Það er því ekki síður í þágu lýðheilsu að fólk með vímuefnasjúkdóma sé ekki jaðarsett eða þvingað til að fara í felur með sitt vandamál."

26. júní er alþjóðadagur Sameinuðu þjóðanna til að vekja athygli á ýmsu er varðar misnotkun og sölu fíkniefna.

Á árinu 2019 kom út bæklingur UNAIDS sem kallast: Heilsa, réttindi og fíkniefni – skaðaminnkun, afglæpavæðing og að fólki sem notar vímuefni sé ekki mismunað (Health, rights and drugs. Harm reduction, decriminalization and zero discrimination for people who use drugs).

Barist er á mörgum vígstöðvum gegn fíkniefnum, framleiðslu þeirra, markaðssetningu, dreifingu og sölu en í bæklingnum kemur fram að fólk með vímuefnasjúkdóma hljóti mestan skaða af baráttunni gegn fíkniefnum.

Einnig að fólk með vímuefnasjúkdóma fái iðulega ekki sömu heilbrigðisþjónustu og aðrir, sé jaðarsett, allt sett undir einn hatt sem glæpamenn, fangelsað, troðið á mannréttindum þess og í sumum ríkjum jafnvel tekið af lífi.

Misnotkun fíkniefna getur leitt til heilsukvilla og útbreiðslu sjúkdóma sem vel eru læknanlegir eða hægt að halda í skefjum ef góð heilsugæsla er í boði.

Grasrótarsamtök sem tala fyrir skaðaminnkunarúrræðum, afglæpavæðingu neysluskammta og virðingu fyrir mannréttindum fólks með vímuefnasjúkdóma hafi sýnt fram á að það eru aðferðir sem skila árangri.

Fólk úr öllum stéttum þjóðfélagsins misnotar fíkniefni. Það er því ekki síður í þágu lýðheilsu að fólk með vímuefnasjúkdóma sé ekki jaðarsett eða þvingað til að fara í felur með sitt vandamál.

Vandamál tengd vímuefnum varða ekki eingöngu þann sem misnotar þau heldur einnig aðstandendur, börn, systkini, foreldra og vini.

Því viljum við aðstandendur aðila með langtíma vímuefnasjúkdóma, fíkn- og geðvandamál (AX) vekja athygli á þessum degi, hvetja til gagnrýninnar umræðu og fagna því að í maí sl. ákvað heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, að ráðist yrði í heildarúttekt á þjónustuferlum, hugmyndafræði, innihaldi og gæðum heilbrigðisþjónustu við einstaklinga með vímuefnasjúkdóma. Jafnframt því að skoðaðir verði möguleikar á frekari samhæfingu heilbrigðisþjónustu og félagslegrar þjónustu, einkum með tilliti til endurhæfingar, búsetuúrræða og stuðningsmeðferðar fyrir einstaklinga í bataferli.

Þessi vinna verður í þágu okkar allra.

Höfundur er fulltrúi AX. ax_teymi@yahoo.com

Höf.: Björgu Sveinsdóttur