Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri harmar að Orka náttúrunnar (ON), dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, skuli hafa ákveðið að slökkva á hleðslustöðvum sínum í kjölfar þess að kærunefnd útboðsmála úrskurðaði að samningur borgarinnar við ON skyldi ógiltur. Mun ON endurgreiða raforku á hleðslustöðvunum frá og með 11. júní vegna þessa.
Átti að þjóna íbúunum
Dagur rifjar upp markmið umrædds útboðs.„Markmiðið með útboðinu var að setja upp hleðslustaura víðs vegar um borgina fyrir þá borgarbúa sem ekki eru í aðstöðu til að hlaða heima hjá sér eða á vinnustað. Borginni finnst því bagalegt að kærunefnd útboðsmála kveði á um fyrirvaralausa óvirkni samnings sem er jafnmikilvægur fyrir orkuskipti í borginni og raun ber vitni. Kærunefnd nýtti ekki heimildir laga til að kveða á um óvirkni samningsins frá síðara tímamarki. Borgarlögmaður hefur óskað eftir því við kærunefnd útboðsmála að réttaráhrifum úrskurðar um óvirkni verði frestað en þangað til að afstaða nefndarinnar liggur fyrir verður gripið til allra nauðsynlegra ráðstafana til að framfylgja úrskurðinum.“
– Hvað telur þú rétt að ON geri næst í málinu?
„Borgin hefur í ljósi úrskurðarins og stöðunnar beint því til ON að slökkva á hleðslustöðvunum. Vonandi fæst þó sem fyrst niðurstaða um beiðni okkar um frestun réttaráhrifa.“
– Nú er þetta ekki fyrsta útboðsmálið hjá borginni sem gerðar eru athugasemdir við. Er tilefni til að endurskoða hvernig borgin stendur að útboðsmálum?
„Reykjavíkurborg hefur um áratugaskeið verið í fararbroddi um faglega innkaupahætti og staðið almennt mjög vel að innkaupum sínum. Á undanförum árum hafa að meðaltali verið framkvæmd um 300 innkaupaferli hjá Reykjavíkurborg árlega. Þau mál sem undanfarið hafa verið gerðar athugasemdir við hafa varðað lagatæknileg atriði sem ekki hefur reynt á áður. Í hvert skipti sem við fáum ábendingar eða úrskurði förum við vandlega yfir þau atriði með það að markmiði að gera alltaf betur og betur,“ sagði Dagur sem óskaði eftir því að fá að svara spurningum Morgunblaðsins skriflega.
Hafa aldrei krafist lokunar
Þegar ON greindi frá því að slökkt yrði á hleðslustöðvunum var málið rakið til kvartana Ísorku.Sigurður Ástgeirsson, framkvæmdastjóri Ísorku, vildi koma á framfæri athugasemd við þessa framsetningu á málavöxtum.
„Í tilkynningu frá ON er sagt að slökkva verði á stöðvum sökum þess að Ísorka hafi kvartað. Hvergi hefur Ísorka lagt fram kröfu um beitingu dagsekta líkt og fram kemur í yfirlýsingu Reykjavíkurborgar. Ísorka lagði fram kvörtun til kærunefndar útboðsmála 2020. Samhliða rannsókn þeirrar kæru ákvað Reykjavíkurborg að krefja ON um að setja stöðvarnar upp vitandi að málið var í rannsókn.
Kærunefnd ógilti samninginn og sektaði Reykjavíkurborg. Borgin er því rót vandans. ON setti stöðvarnar upp að beiðni Reykjavíkurborgar.
Ég harma að Ísorka sé gerð ábyrg fyrir afleiðingum á brotum og ákvörðun Reykjavíkurborgar. Ísorku er það alveg að meinalausu að stöðvarnar standi og hlaði bíla rafbílaeigenda þar til Reykjavíkurborg býður út að nýju,“ sagði Sigurður í yfirlýsingu.
Hann segir í samtali við Morgunblaðið að borgarstjóri hafi ekki orðið við beiðnum um fund til að skýra afstöðu Ísorku í málinu.