Mögnuð Nicole Kidman er ótrúleg leikkona.
Mögnuð Nicole Kidman er ótrúleg leikkona. — Skjáskot/Cinemax
Undirritaður hefur síðustu daga horft á fyrstu seríuna af þáttunum Big Little Lies og haft virkilega gaman af. Þættirnir eru ekki aðeins gríðarlega vel leiknir, vel skrifaðir og vel framleiddir heldur einnig átakanlegir.

Undirritaður hefur síðustu daga horft á fyrstu seríuna af þáttunum Big Little Lies og haft virkilega gaman af. Þættirnir eru ekki aðeins gríðarlega vel leiknir, vel skrifaðir og vel framleiddir heldur einnig átakanlegir. Það er ekki við öðru að búast þegar HBO er annars vegar.

Stórleikonan Nicole Kidman er sérstaklega mögnuð sem Celeste Wright. Kidman fer með algjöran leiksigur en Celeste er sterk kona sem þarf að glíma við afleiðingar alvarlegs heimilisofbeldis.

Senurnar sem sýna heimilisofbeldið og afleiðingar þess eru átakanlegar og hinar ýmsu tilfinningar fara af stað hjá áhorfendum, kannski helst reiði. Magnaður leikur Kidman gerir senurnar enn átakanlegri. Kidman er mögnuð í að túlka hinar ýmsu tilfinningar sem þolendur heimilisofbeldis þurfa að glíma við svo sem afneitun, vonleysi, sorg, ótta, reiði o.s.frv. Þá er Reese Witherspoon einnig virkilega góð í þáttunum sem hin ófullkomna Madeline.

Í lok fyrstu seríurnar taka konurnar málin í eigin hendur og er lokaþátturinn magnaður. Ég ætla ekki að fara nánar út í það hér, enda sjón sögu ríkari.

Næst er það sería tvö þar sem stórleikkonan Meryl Streep leikur stórt hlutverk. Það lofar mjög góðu.

Jóhann Ingi Hafþórsson

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson