Enski Uppboð á enska boltanum hófst á fimmtudaginn.
Enski Uppboð á enska boltanum hófst á fimmtudaginn. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Síminn hefur stefnt Samkeppniseftirlitinu, SKE, til greiðslu 200 m.kr. Málið á m.a. rætur að rekja til þess þegar SKE sektaði Símann í maí í fyrra um 500 m.kr. vegna meintra brota gegn skilyrðum á tveimur sáttum sem fyrirtækið hefur á undanförnum árum gert við eftirlitið. Í ákvörðun SKE á sínum tíma kom fram að mikill verðmunur og ólík viðskiptakjör væru við sölu á enska boltanum á Símanum Sport eftir því hvort hann er boðinn innan Heimilispakka eða einn og sér.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Síminn hefur stefnt Samkeppniseftirlitinu, SKE, til greiðslu 200 m.kr. Málið á m.a. rætur að rekja til þess þegar SKE sektaði Símann í maí í fyrra um 500 m.kr. vegna meintra brota gegn skilyrðum á tveimur sáttum sem fyrirtækið hefur á undanförnum árum gert við eftirlitið. Í ákvörðun SKE á sínum tíma kom fram að mikill verðmunur og ólík viðskiptakjör væru við sölu á enska boltanum á Símanum Sport eftir því hvort hann er boðinn innan Heimilispakka eða einn og sér.

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála felldi í janúar á þessu ári úr gildi stóran hluta ákvörðunar SKE og lækkaði sektina niður í 200 m.kr. Það er sú upphæð sem Síminn vill nú fá endurgreidda, þar sem félagið telur að sá hluti ákvörðunar SEK sem áfrýjunarnefndin felldi ekki úr gildi eigi ekki fremur við rök að styðjast en sá sem var látinn niður falla.

Byrjaði árið 2018

Orri Hauksson forstjóri Símans segir í samtali við Morgunblaðið að málið hafi byrjað með kaupum Símans á enska boltanum árið 2018. Um vorið 2019 er tilkynnt að verðið yrði 4.500 kr. væri það keypt stakt á Símanum Sport. Einnig væri hægt að fá það innifalið í Premium-áskrift sem kostaði 6.000 kr. á mánuði. Þá var hægt að fá enska boltann með Heimilispakkanum á 15 þ.kr., en þar er innifalinn heimasími og net.

Sýn kærir málið og segir að rétturinn að enska boltanum sé sérmarkaður. Síminn sé með 100% markaðshluteild í sýningu efnisins og beri því að selja það í heildsölu. Orri segir að Sýn og forverar hafi haft réttinn nær sleitulaust frá því fyrir aldamót og hann hafi aldrei fyrr verið talinn sérstakur markaður. Orri segir að í sátt SKE við Sýn 2017 komi fram að sjónvarpsmarkaðurinn í heild myndi tvo undirmarkaði, áskrift og opna dagskrá, en ekki að einstaka efnisþættir eins og íþróttir séu sérmarkaður, hvað þá ein stök deild í fótbolta.

Orri segir að Síminn hafi í fyrstu ekki ætlað sér að selja enska boltann í heildsölu. Í júlí 2019 hafi birst frummat frá SKE sem Síminn túlkar sem svo að ýjað sé að því að boltinn sé sérmarkaður. Meðal annars í því ljósi hafi Síminn ákveðið að semja við keppinauta sína um að þeir keyptu efnið ódýrt í heildsölu og áframseldu í sínu nafni, þótt félagið hafi ekki verið sammála þessari nýju mögulegu túlkun SKE.

Í desember 2019 kemur andmælaskjal frá SKE þar sem ekki er vísað til sérmarkaðsákvæðisins lengur og mótrökum Símans um það atriði er ekki svarað, að sögn Orra. Nú var lykilatriðið að sögn SKE að Síminn væri að brjóta tvær sáttir sem hann hefur gert við SKE. 500 m.kr. sekt er lögð á Símann í kjölfarið. Síminn áfrýjar og breytir strax verði.

Orri segir að SKE líti svo á að salan á enska boltanum inni í Heimilispakkanum jafngildi „samtvinnun“ en í annarri af tveimur sáttum Símans og SKE er kveðið á um bann við samtvinnun fjarskiptaþjónustu og sjónvarpsþjónustu eða kjörum sem jafna megi til samtvinnunar. Orri segir að Síminn hafi bent á að 13 þ. heimili kaupi Enska boltann utan heimilispakkans. Því sé það rangt að svo hagstætt sé að kaupa efnið í gegnum Heimilispakkann að enginn geri annað.

Eins og sagt var frá í ViðskiptaMogganum fyrr í vikunni hófst uppboð á enska boltanum fyrir tímabilið 2022 til 2025 eða til 2028 á fimmtudaginn og sagði Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri sölusviðs Símans, að enn væri óvissa um hvort um sérmarkað væri að ræða. Það hefði áhrif á tilboðsgerðina. Í bréfi til SKE lýsti Síminn því yfir að hann teldi mikilvægt að allir mögulegir bjóðendur um reglurnar sem giltu yrðu upplýstir, en óvissa um þetta væri nú fyrir hendi. SKE svaraði í bréfi að með samskiptum við samkeppnisaðilana gæti Síminn gerst brotlegur við samkeppnislög. Í bréfinu segir einnig að almenn afstaða liggi ekki fyrir um heildsölukvöð á enska boltanum.