Einar Falur Ingólfsson
Einar Falur Ingólfsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stangveiði Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Óhætt er að segja að laxinn hafi undanfarið látið bíða eftir sér og beðið með að ganga í árnar, svo víða er áhyggjusvipur farinn að sjást á leigutökum og staðarhöldurum. Hefur byrjun laxveiðisumarsins því verið nokkuð daufleg í flestum ám. Eftir að stórir straumar fyrr í mánuðinum skiluðu fáum löxum í árnar hefur verið horft stíft til Jónsmessustraumsins, sem var í gær, og hverju hann skili en með honum hefur oft mátt ganga að vænum smálaxagöngum.

Stangveiði

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Óhætt er að segja að laxinn hafi undanfarið látið bíða eftir sér og beðið með að ganga í árnar, svo víða er áhyggjusvipur farinn að sjást á leigutökum og staðarhöldurum. Hefur byrjun laxveiðisumarsins því verið nokkuð daufleg í flestum ám. Eftir að stórir straumar fyrr í mánuðinum skiluðu fáum löxum í árnar hefur verið horft stíft til Jónsmessustraumsins, sem var í gær, og hverju hann skili en með honum hefur oft mátt ganga að vænum smálaxagöngum.

Í þessu sambandi hefur vakið athygli pistill sem Jóhann Davíð Snorrason, framkvæmdastjóri Kolskeggs, skrifaði, en félagið rekur Eystri-Rangá, Hólsá, Þverá og Affallið. Jóhann orðar þar það sem margir í veiðibransanum hafa verið að hugsa en hann spyr hvort veiðiguðinn hafi yfirgefið veiðimenn. „Við verðum bara að segja það eins og það er, þetta hefur verið hálfgert hörmungarhark hingað til,“ skrifaði Jóhann en minna má á að gríðargóð veiði var í Eystri-Rangá í fyrra. Hann bætir við: „Hólsáin sem var búin að gefa hátt í 40 laxa um þetta leyti í fyrra er núna í tveimur löxum, Eystri Rangá er að gefa þetta frá 0-3 löxum á dag en oftar nær fyrri tölunni. Ytri Rangá hefur þegar þetta er skrifað ekki enn gefið lax!

Og það eru ekki bara árnar í Rangárþingi sem eru seinar til leiks heldur má yfirfæra þessa óáran og aflatregðu á allt landið nema blessaðan Urriðafossinn sem virðist lúta öðrum lögmálum. En hvað veldur? Hefur laxaguðinn yfirgefið oss?

Líklega og mikið rosalega vonandi ekki. Þetta vor er búið að vera óvenjukalt og sumarið í framhaldi af því. Allar líkur eru á að laxinn sé hreinlega sirka tveimur þremur vikum of seinn í partíið þetta sumarið. Nú er spáð hlýnandi veðri og svo er sjálfur Jónsmessustraumurinn nú í vikunni, þetta hlýtur að koma þá! Við gefumst alltént ekki upp þó hægt fari af stað heldur horfum fram á við með bjartari tíð í vændum og árnar bláar af laxi.“

Tveggja ára laxar afar vænir

Blaðamaður var við Ytri-Rangá í fyrradag og þá hafði fyrsti laxinn komið á land daginn áður, bandarískur veiðimaður landaði þá smálaxi fyrir neðan Ægissíðufoss. Sami veiðimaður sagði blaðamanni frá glímu sinni við stórlax sama dag en sá slapp að lokum. Lax var greinilega tekinn að ganga í ánni og var tekinn að sjást hér og þar en það var dræm taka, einn kom á land þann daginn, líka fyrir neðan foss.

Blaðamaður var líka við Kjarrá í vikunni, í norðangarra og kulda, og eins og búast mátti við þá var lítið af stórlaxi í ánni eftir lélegt smálaxasumarið í fyrra. En þeir tveggja ára fiskar sem þó veiddust þóttu óvenjulega vænir og vel haldnir. Níu veiddust í hollinu og þar af tveir smálaxar, sem voru einnig sérlega myndarlegir. Síðustu vaktirnar var farið að bera meira á smálaxi á ferð upp á og var þar vestur undir Tvídægru beðið fyrir góðum Jónsmessugöngum.

Í hinum vikulegu veiðitölum Landssambands veiðifélaga má sjá að á miðvikudag hafði 331 lax veiðst í mánuðinum við Urriðafoss í Þjórsá en veitt er á fjórar stangir. Í Þverá og Kjarrá höfðu 72 verið færðir til bókar, 65 í Norðurá og 47 í Miðfjarðará. Blaðamaður kom einnig við við Haffjarðará í vikunni og þar höfðu þá 30 laxar verið færðir til bókar á fimm dögum. Og áin sú virðist oft lúta öðrum lögmálum því þar voru þegar fínar göngur og lax víða að sjá – og var líka nokkuð tökuglaður.