Örn Clausen, ÍR (lengst til hægri), í 110 m grindahlaupi á Melavelli annað hvort 1950 eða 1951. Örn varð hlutskarpastur í greininni í Ósló.
Örn Clausen, ÍR (lengst til hægri), í 110 m grindahlaupi á Melavelli annað hvort 1950 eða 1951. Örn varð hlutskarpastur í greininni í Ósló. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenskt íþróttalíf fékk heldur betur byr í seglin föstudaginn 29. júní 1951, þegar frjálsíþróttalandsliðið lagði bæði Dani og Norðmenn í keppni í Ósló og knattspyrnulandsliðið vann frækinn sigur á Svíum á Melavellinum. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Dagurinn í gær, föstudagurinn 29. júní, er mesti sigurdagur, sem íslenskir íþróttamenn nokkru sinni hafa litið: Þeir unnu þá þrjá landsleiki. Tæpum þremur klukkustundum eftir að frjálsíþróttamenn okkar höfðu sigrað bæði Dani og Norðmenn í Oslo, hafði knattspyrnumönnunum tekist það ótrúlega, að vinna Svía hjer í Reykjavík. Það er mjög sjerstætt að slíkt komi fyrir og þætti stórviðburður meðal milljónaþjóða — hvað þá hjer hjá okkur. Íslenska þjóðin samfagnar íþróttamönnum sínum og þakkar þeim unnin afrek.“

Með þessum orðum hófst frétt á forsíðu Morgunblaðsins laugardaginn 30. júní 1951 og ekki dugði minna en fimm dálka fyrirsögn til að lýsa afrekinu í Ósló. Drjúgum hluta forsíðunnar var varið undir umfjöllun um keppnina ytra og henni fram haldið á blaðsíðu 2. Knattspyrnulandsleiknum voru svo gerð ítarleg skil á baksíðu blaðsins undir fimm dálka fyrirsögn og sögufrægri mynd af þremur leikmönnum liðsins með hetju kvöldsins, Ríkharð Jónsson, á gullstól en hann gerði öll mörkin í 4:3 sigri Íslands.

Um frjálsíþróttamótið var skrifað: „Stóðu íslensku íþróttamennirnir sig frábærlega vel og höfðu þegar tryggt sjer tvöfaldan sigur áður en síðasta grein mótsins, 4x400 m. boðhlaupið, fór fram, en þar unnu þeir einnig, eins og til að undirstrika sigurinn. Íslendingar unnu Dani með 15 stiga mun, en Norðmenn með 9 stigum. Eftir fyrri daginn var munurinn 2 og 4 stig, þannig að Ísland vann keppnina báða daga mótsins.“

Goðsagnir úr íslensku frjálsíþróttalífi fóru mikinn í Ósló. Torfi Bryngeirsson vann stangarstökkið á nýju mjög góðu íslensku meti, 4,30 m. Hörður Haraldsson vann 100 m hlaupið. Gunnar Huseby vann kringlukastið, Örn Clausen 110 m grindahlaup og Ingi Þorsteinsson varð annar. Guðmundur Lárusson vann 400 m hlaupið og Ásmundur Bjarnason varð annar. Kári Sólmundarson varð annar í þrístökki og Jóel Sigurðsson varð þriðji í spjótkasti. Tveir Norðmenn skipuðu þar fyrstu sætin. Örn Clausen var þriðji til fimmti í 100 m hlaupi og Kolbeinn Kristinsson 4. í stangarstökki og Þorsteinn Löve 4. í kringlukasti. Íslendingarnir voru síðastir í 10.000 m hlaupinu (sem raunar var ekki nema 9.800 m) og 1.500 m hlaupinu, „en það var fyrirfram vitað,“ að sögn Morgunblaðsins.

Að keppninni lokinni var íslenski þjóðsöngurinn leikinn og Ísland hyllt með ferföldu húrrahrópi.

Ferna frá Ríkharði

Þúsundir áhorfenda sáu Íslendinga sigra Svía í fyrsta landsleik þessara þjóða í knattspyrnu á Melavellinum. Áhugi á leiknum var mjög mikill. Kom það gleggst í ljós við það, að fólk var farið að streyma að vellinum, er klukkutími var til leiks.

„Ekki munu miklar sigurvonir hafa verið bundnar við þennan leik af Íslendinga hálfu, þar sem við eina sterkustu knattspyrnuþjóð í Evrópu var að etja. En hjer skeði hið ólíklega,“ stóð í inngangi fréttar Morgunblaðsins.

Fátt var um fína drætti til að byrja með en eftir um hálftíma leik tók að færast fjör í tuskurnar. Ríkharður kom Íslandi yfir á 32. mínútu með skoti sem hafði viðkomu í varnarmanni Svía. Hann tvöfaldaði forystuna skömmu síðar með óverjandi skoti.

Ríkharður gerði sitt þriðja mark með skalla áður en Svíarnir komust á blað. Arne Selmosson var þar að verki. Litlu síðar skoraði Sanny Jakobsson, 3:2. Fór þá um áhorfendur enda höfðu þeir áhyggjur af þoli landans á lokasprettinum. Fjórða mark Ríkharðs var viðstöddum því mikill léttir en það gerði hann eftir góða samvinnu í sóknarlínu Íslendinga. Svíar sóttu án afláts allt til leiksloka en uppskáru aðeins eitt mark sem Jakobsson gerði. Lokatölur því 4:3.

Morgunblaðið sagði Ríkharð hafa borið af á vellinum en einnig hafi verið áberandi að Íslendingar höfðu hvergi nærri eins mikið þol og andstæðingar þeirra. Blaðið varð fyrir vonbrigðum með leik Svía og gat ekki fallist á að liðið væri í hópi bestu liða sem hingað hefðu komið. Þess má geta að marga af bestu leikmönnum Svía vantaði en þeir voru orðnir atvinnumenn erlendis.

„Hinsvegar munu Íslendingar sjaldan eða aldrei hafa sýnt betri leik, hvorki hjerlendis eða erlendis. Samvinna Bjarna, Þórðar og Rík[h]arðs var til fyrirmyndar en hinsvegar voru útherjarnir óvirkir. Af varnarleikmönnum skal markmannsins, Bergs Bergssonar, einkum getið. Sýndi hann mjög góðan leik. Öll mörkin, sem skoruð voru, voru algerlega óverjandi.“

Frjálsíþróttalandsliðið blés knattspyrnulandsliðinu baráttuanda í brjóst en í hálfleik upplýsti Baldur Jónsson, vallarstjóri á Melavellinum, viðstadda um afrekið. „Þetta hafði mjög mikið að segja og við tvíefldumst við þessi tíðindi,“ hefur Sigmundur Ó. Steinarsson eftir Ríkharði í bók sinni Saga landsliðs karla. „29. júní 1951 verður mér alltaf ógleymalegur.“

Gleðin var fölskvalaus í leikslok og Sigmundur rifjar upp í bók sinni ummæli Einars Halldórssonar Valsara, sem hann lét léttur í lund falla við Ríkharð: „Þakka þér fyrir að leyfa okkur að vera með.“