Parken Samstaðan með Christian Eriksen var algjör, alls staðar.
Parken Samstaðan með Christian Eriksen var algjör, alls staðar. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mitt sjónarhorn Philipp Lahm @philipplahm Evrópukeppni endurspeglar ávallt líf okkar Evrópubúa. Í þessari keppni hefur fjögur atriði borið hæst að mínu mati. Þann 12. júní sýndi heil heimsálfa samstöðu með dönskum fótboltamanni. Það þurfti að endurlífga Christian Eriksen á vellinum. Samherjar hans, sem slógu strax hring um hann á vellinum, vissu strax hvernig þeir ættu að styðja hann við þessar erfiðu aðstæður. Það var augljóst hversu annt þeim var um friðhelgi hans á þessari örlagastundu. Þetta var gríðarlega tilfinningarík stund.

Mitt sjónarhorn

Philipp Lahm

@philipplahm

Evrópukeppni endurspeglar ávallt líf okkar Evrópubúa. Í þessari keppni hefur fjögur atriði borið hæst að mínu mati. Þann 12. júní sýndi heil heimsálfa samstöðu með dönskum fótboltamanni. Það þurfti að endurlífga Christian Eriksen á vellinum. Samherjar hans, sem slógu strax hring um hann á vellinum, vissu strax hvernig þeir ættu að styðja hann við þessar erfiðu aðstæður. Það var augljóst hversu annt þeim var um friðhelgi hans á þessari örlagastundu. Þetta var gríðarlega tilfinningarík stund.

Samúð og samstaða allra á vellinum í Kaupmannahöfn, hvort sem þeir voru Danir eða Finnar var mikil, líka þeirra sem fylgdust með úr fjarlægð og óttuðust um líf Christians Eriksens. Næsti leikur var stöðvaður á 10. mínútu honum til heiðurs og allir klöppuðu fyrir honum, líka mótherjar og dómarar. Í leikslok föðmuðust danski þjálfarinn, Kasper Hjulmand, og Belginn, Romelu Lukaku, sem hafði tileinkað Eriksen mark sitt í leiknum á undan. Þú þurftir ekki að heyra hvað fór þeim á milli en umræðuefnið var augljóst.

Eftir að Christian Eriksen hafði verið giftusamlega bjargað vöknuðu margar spurningar: Hvað á að sýna í sjónvarpi og hvað ekki? Hvað er fréttamennska, hvenær verður hún of nærgöngul? Brugðust stjórnendur og myndatökumenn við af ábyrgð? Hvenær má mynda og hvernig? Þessar vangaveltur endurspegluðu kosti okkar frjálsa samfélags. Í Evrópu leyfist okkur að hafa mismunandi skoðanir. Þar með talin gagnrýni Dana á að leiknum skyldi hafa verið haldið áfram.

Þarf ekki á óvini að halda

Alþjóðlegar deilur spruttu af pólitískri athöfn. Lið Englands, Wales og Belgíu hafa kropið á hné fyrir þeirra leiki, líka Skotland í eitt skipti. Þessi táknræna tilvísun í Black Lives Matter-hreyfinguna, sem NFL-leikmaðurinn Colin Kaepernick ýtti af stað til að mótmæla kynþáttahatri, minnir okkur á að öll eigum við jafnan rétt og að brotið er á þeim rétti aftur og aftur. Minnihlutahópar eru ofsóttir um allan heim.

Margir telja sig fá styrk af því að útiloka einhvern þjóðfélagshóp og lýsa honum á neikvæðan hátt. Það er rangt og ónauðsynlegt. Ég þarf ekki á óvini að halda til að þrífast. Ég verð ekki sterkari með því að útiloka aðra, heldur með samvinnu við aðra. Þegar til lengri tíma er litið getur fótboltalið aðeins náð árangri ef allir viðurkenna og meta fjölbreytileikann í hópnum. Að sjálfsögðu á þetta líka við um andstæðinginn. Í fótbolta er brot alltaf brot, sama hver brýtur af sér.

Þetta er ekki popúlismi

Enska landsliðið hefur mátt þola kynþáttahatur í mörgum útileikjum á undanförnum árum. Búlgarar beindu apahljóðum að Raheem Sterling. Nú finnur enska liðið styrk í því að krjúpa á hné. Gareth Southgate útskýrði þýðingu þess í opnu bréfi til þjóðar sinnar. „Þetta er þeirra skylda,“ skrifaði enski þjálfarinn um leikmenn sína, „að halda áfram samtalinu við almenning um þætti eins og jafnræði, samvinnu og kynþáttamisrétti“.

Þessi athöfn var gagnrýnd og töluð niður af sumum. Íhaldssamir, enskir stjórnmálamenn höfnuðu henni, baulað var á krjúpandi Belgana á völlunum í Búdapest og Pétursborg, og fótboltaforystumenn kölluðu þetta „popúlisma“. En þetta tákn hefur unnið sér sess í liðsíþróttum. Þetta er áhrifarík leið til að fást við málefni sem allir þekkja. Þetta er mikilvæg sameiginleg yfirlýsing um að húðlitur skipti ekki máli. Um leið fær hver einstaklingur styrk og vissu fyrir því hverjum hann eða hún vill tilheyra. Þessi athöfn getur því engan veginn verið popúlismi.

UEFA gagnrýnt fyrir afstöðu

Annað tákn fjölbreytileikans vakti mikla athygli í Evrópu, sérstaklega í Þýskalandi. Borgarstjórinn í München vildi lýsa upp leikvanginn í regnbogalitunum daginn sem Þýskaland og Ungverjaland mættust, til að senda skilaboð gegn hatri í garð samkynhneigðra og ungversku löggjöfinni. UEFA hafnaði þessu þar sem skilaboðin beindust beint að ákvörðun þingsins og braut því í bága við reglur sambandsins um hlutleysi gagnvart stjórnmálaskoðunum. Bannið var harðlega gagnrýnt, allt frá samfélagi samkynhneigðra til íhaldssamra stjórnmálaafla. Yfirmenn annarra leikvanga í Þýskalandi brugðust við þessu með því að lýsa sína velli upp með regnbogalitunum þetta kvöld til að sýna ofsóttum minnihlutahópi samstöðu.

Mótshald á ábyrgan hátt

Að lokum er Evrópa enn að glíma við þá áskorun sem kórónuveiran hefur verið okkur öllum. Nú er það delta-afbrigðið. Hvernig er hægt að halda Evrópukeppnina á ábyrgan hátt? Hvernig styðja hin ýmsu lönd hvert annað? Eins og allir vita þá stöðva engin landamæri veiruna, aðeins skynsamlegar ákvarðanir. Á alþjóðavísu er það ekki alltaf átakalaust.

Mál Eriksen hefur sýnt um hvað samstaða snýst. Hún er menning í sinni bestu mynd. Danska liðið er samstilltara en nokkru sinni fyrr og tengsl þess við þjóð sína eru augljóslega betri. En þeirra samstaða beinist ekki gegn neinum. Og mótherjar Dana standa með þeim.

Að sjálfsögðu er Evrópukeppnin stórskemmtileg og við sjáum mörg önnur frábær lið. En ef þetta gengur ekki upp, þá gengur það ekki upp. Ef allt væri galopnað væru það röng skilaboð, að mínu mati. Frá viku til viku, frá degi til dags, þarf að skoða tölur og önnur viðmið. Hvar úrslitaleikurinn fari fram, í London eins og áætlað er eða einhvers staðar annars staðar, var til umræðu en það skiptir ekki öllu máli. Það eina sem skiptir máli er hvar sé öruggt að halda hann.

Veiran hefur valdið öllum þjóðum þjáningum, sumum snemma, öðrum seint, sumum minna, öðrum meira. „Heilsa almennings verður að vera í forgangi,“ segir Boris Johnson. Í Moskvu er búið að loka svæði stuðningsfólks. Það er ljóst að sömu reglur gilda ekki alls staðar. Evrópukeppnin sýnir okkur að aðstæður í Evrópu eru mismunandi, og það þarf meira að segja stöðugt að endurmeta fótboltamót. Þannig virkar lýðræðið.

Pistlar frá Philipp Lahm

Philipp Lahm var fyrirliði heimsmeistara Þýskalands 2014 og skrifar pistla um knattspyrnu fyrir Morgunblaðið og fleiri fjölmiðla í Evrópu í samvinnu við Oliver Fritsch, íþróttaritstjóra Zeit Online í Þýskalandi. Að þessu sinni fjallar hann um EM en í 16-liða úrslitum helgarinnar mætast þessi lið:

Wales – Danmörk L16

Ítalía – Austurríki L19

Holland – Tékkland S16

Belgía – Portúgal S19