Leslie Caron árið 1953, þegar hún lék í þeirri vinsælu mynd Lili.
Leslie Caron árið 1953, þegar hún lék í þeirri vinsælu mynd Lili. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leslie Caron, fyrsta franska Hollywood-stjarnan, verður níræð í næstu viku. Sjálf botnar hún ekkert í því að hún hafi orðið leikkona enda ákaflega feimin að upplagi og lítið gefin fyrir sviðsljósið. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Leslie Caron var danselskt barn en varð fyrir áfalli þegar hún tilkynnti, í samráði við móður sína, sem sjálf var dansari, föðurfjölskyldu sinni yfir sunnudagssteikinni að hún hygðist leggja ballett fyrir sig. „Margaret, viltu virkilega að dóttir þín verði vændiskona?“ spurði föðurafi hennar hneykslaður.

Ungu stúlkunni brá í brún en komst seinna að því að afi hennar hafði sitthvað til síns máls. „Á þessum tíma voru ballerínur litlar hórur. Allt var þaulskipulagt. Litli dansarinn fór með móður sinni niður í anddyrið í hléinu og herrarnir mættu á svæðið, völdu sér stúlku og ræddu um kjörin,“ segir hún í samtali við breska blaðið The Guardian í vikunni. „Ballett var fyrir la fille de la concierge – dætur húsvarða.“

Föðurfjölskylda Caron í Frakklandi var auðug og vinna til handa stúlkunni því langt fyrir neðan hennar virðingu – hvað þá ballett. Móðir hennar, téð Margaret Petit, hálfbandarísk, hafði hins vegar þurft að vinna fyrir sér sem dansari á Broadway áður en hún gekk að eiga föður Leslie, apótekarann Claude Caron.

Síðan kom stríðið og auður fjölskyldunnar fauk út um gluggann. Caron minnist þeirra erfiðu tíma með hryllingi. Stríðið hafi ekki sameinað Frakka, eins og það gerði við Breta, heldur sundrað þeim. Loftið var læviblandið. „Við skömmuðumst okkar fyrir að hafa gefist upp og að hafa óvininn, Þjóðverja, inni á gafli hjá okkur. Það var skömm og óvild. Útilokað var að biðja fólk á götum úti um aðstoð – það dembdi sér bara yfir mann. Enn þann dag í dag get ég ekki beðið fólk um hjálp. Reikna alltaf með að verða hafnað,“ segir hún við The Guardian.

Stríðið reið móður hennar að fullu. Hún hafði brotist úr sárri fátækt til allsnægta og gat ekki stigið skrefið til baka. Margaret varð alkóhólisma að bráð og svipti sig að lokum lífi.

Líf Caron tók óvænta stefnu þegar ein skærasta stjarna Hollywood, Gene Kelly, kom auga á hana, 17 ára gamla, í ballettsýningu í París. Hann vildi ólmur fá hana til Hollywood og þegar Cyd Charisse varð að hafna aðalhlutverkinu á móti Kelly í An American in Paris árið 1951, vegna þess að hún var barnshafandi, fékk Caron kallið. Leikstjóri var Vincente Minnelli.

Stórt tækifæri en sannarlega enginn dans á rósum. „Ég hafði ekki borðað almennilega í fimm ár. Þess utan hafði ég aldrei mælt eitt einasta orð á sviði og það var algjör martröð fyrir mig. Algjör martröð,“ segir Caron.

Hún ber Kelly þó vel söguna; hann hafi stutt sig með ráðum og dáð. Seinna steig hún dansinn með annarri goðsögn, Fred Astaire, en verst af fimi þegar blaðamaður The Guardian vill fá að vita hvor hafi verið betri. „Ég hef harðneitað að svara þessari spurningu í 70 ár. Stórkostlegur dansari er stórkostlegur dansari.“

En ólíkir voru þeir; Kelly harður og örlátur en Astaire fágað ljúfmenni.

Hver vinsæla myndin rak aðra, svo sem Lili 1953, sem Caron hlaut BAFTA-verðlaunin fyrir og var tilnefnd til Óskarsverðlauna, en toppnum var líklega náð með söngleiknum Gigi 1958. Sú mynd hlaut níu Óskarsverðlaun. Verst að Caron þótti söngleikir fánýtir og kjánalegir á þessum tíma. „Ég kann betur að meta þá í dag,“ segir hún hlæjandi.

Kornung og einmana

Caron skrifaði undir sjö ára samning við Metro-Goldwyn-Mayer. En lifði hún eins og blómi í eggi í Hollywood?

„Nei, ég var kornung og ákaflega einmana og hitti fáa sem deildu sömu reynslu og ég. Fólk sagði: „Mikil ósköp. Við höfðum það bágt í stríðinu – fengum ekki nema eitt súkkulaðistykki á viku.“ Það er ógjörningur að útskýra fyrir fólki hvernig það er að búa með óvininum, hríðskotabyssunum og vera stöðugt með lyktina af óttanum fyrir vitum.“

Caron færði sig með tímanum yfir í alvarlegri hlutverk og kynnti sér Stanislavski-aðferðina í því sambandi. Það skilaði sér í The L-Shaped Room 1962, þar sem hún fékk bæði BAFTA- og Golden Globe-verðlaunin fyrir túlkun sína á raunamæddri ófrískri konu. Og var tilnefnd til Óskarsins.

Tveimur árum síðar lék hún á móti Cary Grant í gamanmyndinni Father Goose en hann mun hafa verið hæfileikaríkasti leikarinn sem hún hefur unnið með.

Snemma á áttunda áratugnum fékk Caron nóg af Hollywood og sneri heim til Frakklands. Þar mætti henni tómlæti. „Þeir dást að fólki sem í raun og sann er bandarískt eða breskt en Frakka sem hefur slegið í gegn í Hollywood – og ég var eiginlega sú eina á þeim tíma – geta þeir ekki fyrirgefið.“

Spurð hvað henni finnist um það svarar Caron: „Það hryggir mig.“

Minna hefur farið fyrir Caron í kvikmyndum hin síðari ár, þó fékk hún mikið lof fyrir frammistöðu sína í hinni vinsælu mynd Chocolat árið 2000 í leikstjórn Svíans Lasse Hallströms.

Sjötíu árum eftir að hún birtist fyrst á hvíta tjaldinu er Leslie Caron enn að freista þess að ná utan um þá staðreynd að hún sé kvikmyndastjarna.

„Ég kann engan veginn við mig í sviðsljósnu. Satt best að segja er með ólíkindum að ég hafi orðið kvikmyndastjarna, feimin og hlédræg sem ég er.“

Heppin að fyrirfara sér ekki

Skömmu eftir að Caron sneri heim til Frakklands á áttunda áratugnum helltist þunglyndi yfir hana og hún fór að nota áfengi óhóflega. Spurð í The Guardian hvort hún hafi á þeim tíma óttast að hennar biðu sömu örlög og móður hennar, sem framdi sjálfsmorð, svarar Caron: „Já, það var hrein heppni að ég fór ekki sömu leið.“ Tæpast stóð það einn illviðrisdag 1995. Hún náði þó áttum og vann úr sínum málum með hjálp geðlæknis í Lundúnum.

Í endurminningum sínum, Thank Heaven, frá 2009 kemst Caron svo að orði: „Allar flóðgáttir opnuðust og líf mitt virtist gjörsamlega misheppnað, uppfullt af meðalmennsku og kjánalegum mistökum, alltaf skyldi ég velja ranga beygju. Ég grét bara og grét.“

Því lauk með því að hún var sett á deyfi- og geðlyf og lögð inn á spítala í mánuð. Í seinni tíð líður henni miklu betur, þökk sé öðrum fremur börnum hennar tveimur og AA-samtökunum.