Enn er gosóróinn í Geldingadölum í dvala. Ekkert hraun hefur flætt úr gíg eldgossins síðan 5. júlí, en um er að ræða lengsta hlé gossins frá því það hófst í mars.
„Óróinn er ennþá niðri eins og er, hann er ekkert að stíga upp. Það er þoka svo maður sér lítið í myndavélunum, en það sást glóð um klukkan 2 í (fyrinótt) og það rennur enn hraun undan gígnum. Það er enn þá einhver virkni í gangi,“ segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands.
Lovísa segir of snemmt að segja til um það hvort hegðun gossins hafi breyst eða hvort virknin hafi minnkað.
„Það er of snemmt að segja því hraunið er enn að fara eftir þessum lokuðu rásum undan gígnum og við erum ekki komin með nýjar mælingar frá Háskólanum um hversu mikið af hrauni hefur komið upp, við bíðum spennt eftir þeim tölum. Það er of snemmt að segja til um hvort það sé að hægja á þessu eða ekki á meðan það er ekkert að koma upp úr gígnum,“ segir Lovísa.
Lítið fyrir ferðamenn að sjá
Lovísa segir að von sé á mælingum Háskóla Íslands á rúmmáli hraunsins á næstu dögum. Mælingarnar eigi að geta gefið vísbendingar um framhaldið. „Það virðist sem þetta sé eitthvað nýtt. Það byrjar 28. júní að fara upp og niður en núna frá 5. júlí er þetta í fyrsta skipti svona langt bil. Það er spurning hvort þetta haldi áfram svona og taki sig svo aftur upp, eða hvort þetta verði bara svona; að það flæði bara undan gígnum,“ segir Lovísa.Svo það er ekki mikið fyrir ferðamenn að sjá á gossvæðinu?
„Í rauninni ekki, nema bara hraunjaðarinn. Það hefur verið að sjást glóð í gígnum á nóttunni ef fólk er að fara þá, þá er hægt að sjá eitthvað smávegis,“ segir Lovísa.