Gestir virða fyrir sér verk á opnun sýningarinnar um Fridu Kahlo.
Gestir virða fyrir sér verk á opnun sýningarinnar um Fridu Kahlo. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mexíkóborg. AFP. | Frida Kahlo er einn þekktasti listamaður sem Mexíkó hefur alið og með nýrri sýningu á að gæða verk hennar nýju lífi með því að stækka þau upp og nota tónlist hennar og dagbókarbrot.

Mexíkóborg. AFP. | Frida Kahlo er einn þekktasti listamaður sem Mexíkó hefur alið og með nýrri sýningu á að gæða verk hennar nýju lífi með því að stækka þau upp og nota tónlist hennar og dagbókarbrot. Markmiðið er að sýningargestir geti sökkt sér inn í hugarheim listamannsins.

Á sýningunni, sem opnuð var í Mexíkóborg á afmælisdegi hennar á þriðjudag, eru tekin 26 verk sem þykja einkennandi fyrir Kahlo, sem er þekkt fyrir sláandi sjálfsmyndir, oft fullar af sársauka og einangrun.

Mara de Anda, frænka Kahlo, sagði að hugmyndin væri að kynna málverk hennar, sem hefðu farið um allan heim, en bæta við nánd og gera þau aðgengilegri.

Framúrstefnuleg og nútímaleg

„Ég er á því að Frida hafi verið mjög framúrstefnuleg og nútímaleg svo að þetta passar fullkomlega,“ sagði de Anda þegar sýningin var opnuð. „Hún var kona á undan sínum samtíma.“

Sýningargestir geta sökkt sér inn í hjarta og huga eins þekktasta listamanns 20. aldarinnar í 35 mínútur. Kahlo lést árið 1954. Hún náði aðeins 47 ára aldri og hefði í ár orðið 114 ára.

Notuð er stafræn tækni til að færa myndir á borð við „Fridurnar tvær“ og „Brotna súlan“ nær gestum með því að blanda saman myndskeiðum, tónlist og gagnvirkum þáttum í safninu Fronton Mexico, byggingu í art deco-stíl í höfuðborg Mexíkó.

Á sýningunni er fjallað um erfiða tíma í lífi Kahlo, sem fékk lömunarveiki þegar hún var barn aldri og óx hægri fótur hennar ekki eðlilega.

Þegar Kahlo var 18 ára lenti hún í slysi í strætisvagni og stakkst járnrör inn í kvið hennar. Hún fór í margar kvalafullar aðgerðir vegna slyssins í þeirri von að ná fyrri heilsu og það sem eftir var ævinnar var hún fyrir vikið iðulega rúmföst.

Fór að mála eftir slys

Kahlo hafði hugsað sér að læra læknisfræði, en sneri sér að málverkinu þegar hún var að jafna sig eftir slysið og notaði spegil til að gera sjálfsmyndir. Móðir hennar lét smíða handa henni sérstakar trönur svo að hún gæti málað liggjandi í rúminu. Kahlo giftist mexíkanska listamanninum Diego Rivera tvisvar og var náinn vinur Leons Trotskís, sem var einn af forsprökkum rússnesku byltingarinnar. Rivera var einn þekktasti listamaður Mexíkó á sínum tíma, en Kahlo er mun þekktari á okkar tímum.

Kahlo var sjálfmenntaður listamaður. Hún sótti mikið í mexíkanska alþýðulist og hafa merkimiðarnir súrrealismi og töfraraunsæi verið notaðir til að lýsa verkum hennar.

Hún öðlaðist heimsfrægð á sínum tíma. Á áttunda áratug liðinnar aldar var hún uppgötvuð að nýju og undir aldamót hafði henni verið markaður sess sem einn helsti listamaður liðinnar aldar. Talið er að hún hafi málað á milli 150 og 200 verk á ævinni.

„Hér gefst fólki sem líkar ekki að fara á listasýningar þar sem allt er kyrrstæðara kostur á að kynna sér hlutina með öðrum hætti,“ sagði Frida Hentschel Romeo, önnur frænka listamannsins. „Þannig að ég held að nýjar kynslóðir eigi eftir að elska þetta.“