Þjóðvegurinn Jarðvinna við Staðarskála fyrr í vikunni. Aðgengi fyrir flutningabíla að rafhleðslustöðvum verður gott, enda fara margir tugir slíkra bíla um Hrútafjörðinn á degi hverjum.
Þjóðvegurinn Jarðvinna við Staðarskála fyrr í vikunni. Aðgengi fyrir flutningabíla að rafhleðslustöðvum verður gott, enda fara margir tugir slíkra bíla um Hrútafjörðinn á degi hverjum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Nú í vikunni hófst við Staðarskála í Hrútafirði jarðvinna vegna uppsetningu hraðhleðslustöðva fyrir bíla. N1 stendur að þessu verkefni og áformað er að stöðvarnar sem eru á hlaðinu fyrir framan skálann verði komnar í gagnið um miðjan ágúst, segir Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmkvæmdastjóri félagsins, í samtali við Morgublaðið.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Nú í vikunni hófst við Staðarskála í Hrútafirði jarðvinna vegna uppsetningu hraðhleðslustöðva fyrir bíla. N1 stendur að þessu verkefni og áformað er að stöðvarnar sem eru á hlaðinu fyrir framan skálann verði komnar í gagnið um miðjan ágúst, segir Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmkvæmdastjóri félagsins, í samtali við Morgublaðið.

Fyrr á þessu ári var samið um kaup N1 á 20 hleðslustöðvum frá Innogy e Station, en þær eru allt að 400 kw og þær öflugustu á landinu. Sex þessara stöðva verða í Staðarskála. Nú þegar eru hleðslustöðvar við þjónustustöðvar N1 í Mosfellsbæ, Borgarnesi, Blönduósi, Staðarskála, Hvolsvelli, Vík og Egilsstöðum og á Akureyri og við verslun Krónunnar í Lindum.

Hlöður verða víða um landið

Nýju hlöðurnar í Staðarskála eru fyrir allar gerðir bíla og þannig staðsettar á plani að auðvelt verður fyrir ökumenn stærri bíla að koma að. Er þar meðal annars horft til stórra flutningabíla, sem svo tugum skiptir fara um Hrútafjörðinn á hverjum degi. Slíkir bílar eru enn ekki rafknúnir en verða væntanlega í næstu framtíð og það er einmitt þess sem N1 horfir nú til.

Þegar hlöðurnar í Staðarskála verða konar í gagnið verður slíkum komið fyrir á fleiri þjónustustöðvum N1 við hringveginn, svo sem í Borgarnesi, Vík og á Egilsstöðum. Á nokkrum stöðum á landinu þar sem N1 er með starfsemi verður uppsetning að bíða, enda mikil eftirspurn eftir rafhleðslustöðvum og biðtími langur hjá framleiðendum slíkra tækja.

„Ætlun okkar er að N1 sé í forystu í orkuskiptum í samgöngum. Verkefnið í Staðarskála er hluti af því. Við þurfum að fylgja þróun í rafbílavæðingu með uppsetningu hleðslustöðva. Framtíðin verður ekki stöðvuð,“ segir Hinrik Örn.

Breyttar þjónustustöðvar

Að hlaða bíl fyrir 100 km akstur tekur 20-30 mínútur, svipaðan tíma og fólk stoppar gjarnan á þjónustustöðvum við þjóðvegina. Eðli þeirra er að breytast. Þar var áður mest áhersla lögð á sölu eldneytis og skyndibita. Nú er hlutverkið fjölbreyttara, s.s. rafhleðslur, og nýjast er að nú eru seld lausasölulyf í Staðarskála, eins og sagði frá í Morgunblaðinu fyrr í viknunni.