Jakob Zuma, fyrrverandi forseti Suður-Afríku, ávarpar stuðningsmenn við heimili sitt í Nkandla 4. júlí eftir að hann var dæmdur í 15 mánaða fangelsi.
Jakob Zuma, fyrrverandi forseti Suður-Afríku, ávarpar stuðningsmenn við heimili sitt í Nkandla 4. júlí eftir að hann var dæmdur í 15 mánaða fangelsi. — AFP
Karl Blöndal kbl@mbl.is

Árum saman hefur Afríska þjóðarráðið, sem hefur verið leiðandi afl í suður-afrískum stjórnmálum frá því að aðskilnaðarstefnan leið undir lok, glímt við sjálft sig út af spillingarmálum. Þessi innri barátta náði hámarki í vikunni þegar Jakob Zuma, fyrrverandi leiðtogi flokksins og forseti landsins, gaf sig fram og var stungið í fangelsi. Þar með var leiðtoginn, sem á sínum tíma sat í fangelsi fyrir að berjast gegn hvítu aðskilnaðarstjórninni, aftur kominn á bak við lás og slá.

Tveir armar takast á

Í flokknum, sem hefur stjórnað landinu óslitið frá því að aðskilnaðarstjórninni var komið frá völdum, takast á þeir, sem vilja uppræta spillingu í eigi röðum, og þeir, sem enn lifa í ljóma baráttunnar gegn aðskilnaðarstefnunni og telja hina vera að sverta flokkinn og skíta í eigið hreiður. Í augum þeirra fyrrnefndu er Zuma holdgervingur alls, sem hefur misfarist í flokknum, en hinna síðarnefndu frelsishetja.

Zuma er lýst sem glaðværum og heillandi stjórnmálamanni, smalanum, sem komst til metorða og varð fjórði forseti Suður-Afríku. Millinafn hans er Geleyihlekisa, sem merkir „sá sem hlær á meðan hann malar óvini sína“ á súlúsku. Hann hefur einnig fengið viðurnefnið teflonforsetinn vegna þess hvernig honum hefur tekist að koma sér undan réttvísinni.

Viðurnefnið bjargaði honum þó ekki þegar flokkurinn hrakti hann úr embætti 2018 undir lok annars kjörtímabils hans og núverandi forseti, Cyril Ramaphosa, tók við stjórnartaumunum.

Zuma var dæmdur í 15 mánaða fangelsi fyrir rúmri viku og voru honum gefnir fimm dagar til að gefa sig fram. Hann var þó ekki dæmdur fyrir spillingu heldur fyrir að gefa sérstakri rannsóknarnefnd um spillingu langt nef. Hann neitaði að bera vitni og þegar hann gekk út úr vitnaleiðslunni sakaði hann Raymond Zondo, sem leiðir rannsóknarnefndina og er einnig varaforseti æðsta dómstóls Suður-Afríku, um að vera sér andsnúinn. Lét Zuma sér í léttu rúmi liggja þótt tugir vitna hefðu bendlað hann við ýmiss konar misferli.

Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem sótt er að Zuma. Hann á yfir höfði sér 16 ákærur um svik og spillingu vegna kaupa á vopnum frá evrópskum vopnaframleiðendum árið 1999 þegar hann var varaforseti.

Árið 2006 var hann dreginn fyrir dóm og sakaður um að hafa nauðgað dóttur starfsfélaga sem var með HIV-veiruna. Zuma sagði við réttarhöldin að hann hefði haft mök við konuna án þess að nota verjur og farið í sturtu á eftir til að fá ekki veiruna. Hann var sýknaður.

Zuma tók við forustu Afríska þjóðarráðsins af Thabo Mbeki árið 2007. Voru þá miklar væringar í flokknum og tókst honum ekki að lægja þær. Tveimur árum síðar leysti armur í flokknum, undir forustu Zuma, upp nefnd, sem forveri hans hafði skipað til að taka á spillingu. Var nefndin orðin full aðgangshörð við Zuma og félaga hans.

Zuma skipaði hins vegar sjálfur nefndina, sem kennd er við Zondo dómara, áður en hann fór úr embætti, en neitaði síðan þráfaldlega að koma fyrir hana. Haldið er fram að á síðustu fjórum árum valdatíma hans hafi skaðinn vegna spillingar Zuma og hirðar hans numið 13.000 milljörðum króna.

Zuma fæddist 12. apríl árið 1942. Hann gekk í Afríska þjóðarráðið á táningsaldri þegar hreyfingin var neðanjarðar. Hann sat í tíu ár í fangelsi á Robben-eyju fyrir að berjast gegn aðskilnaðarstefnunni. Eftir það fór hann í útlegð og fór fyrir njósnadeild flokksins.

Zuma hvorki reykir né drekkur. Hann hefur kvænst sjö sinnum og á að minnsta kosti 20 börn.

Zuma varð forseti árið 2009. Hann á sér dyggan stuðningshóp, sem reyndar hefur farið minnkandi með árunum. Þá á hann sér einnig fylgjendur í röðum þingmanna og embættismanna.

„Látið Zuma vera“

En hann hefur alltaf verið umdeildur og við minningarathöfn um Nelson Mandela árið 2013 baulaði almenningur á hann þar sem hann deildi sviðinu með þjóðarleiðtogum.

Óvissa ríkti um hvort Zuma myndi gefa sig fram eftir að hann var dæmdur. Lögregla sendi vopnaðar sveitir og brynvagna til Nkandla í KwaZulu-Natal-héraði þar sem hann fæddist, þegar fresturinn rann út. Fyrir utan heimili hans stóð fjöldi manns og kyrjaði „látið Zuma vera“. Hálftíma fyrir miðnætti á miðvikudag vék mannfjöldinn hins vegar til hliðar og bílalest límúsína með Zuma innan borðs ók honum í fangelsið. Dudu Zuma-Sambudla, dóttir hans, tísti að hann hefði verið kátur og haft á orði að hann vonaði að laganna verðir ættu enn fangafötin, sem hann hefði klæðst á Robben-eyju.