Á vinnustofunni Bjarni Sigurbjörnsson önnum kafinn við listsköpun.
Á vinnustofunni Bjarni Sigurbjörnsson önnum kafinn við listsköpun. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bjarni Sigurbjörnsson myndlistarmaður opnar í dag, 10. júlí, kl. 14, sýningu í Galleríi Portfolio á Hverfisgötu 71. Á sýningunni tekur hann fyrir málverk sem hugarhold, eins og því er lýst í tilkynningu, og segir þar: „Holdgerving vitundar.

Bjarni Sigurbjörnsson myndlistarmaður opnar í dag, 10. júlí, kl. 14, sýningu í Galleríi Portfolio á Hverfisgötu 71. Á sýningunni tekur hann fyrir málverk sem hugarhold, eins og því er lýst í tilkynningu, og segir þar: „Holdgerving vitundar. Málverk. Hugarhold málverks. Inni í marglaga málverki táknfræðinnar eins og fósturvísir umlukinn legvatni tímans. Hinni víggirtu tvíhyggju þar sem yfirborð hugans mætir yfirborði pensilskriftarinnar. Uppstaflaðar athafnir, áframhaldandi verknaður, líkamlegur gjörningur. Vöruhús líkamans, völundarhús minninganna. Núið stöðugt nýfarið eða rétt ókomið, augnablikið þegar fortíðin og framtíðin gleyma sér í blautum kossi. Málverkið reynir að útmála sig, fanga augabragðið, eins og áttaviti sem vísar í allar áttir í einu. Hérna getur allt gerst. Út úr engu, auðum striga, birtist vindlareykur. Kaffipása Syshipusar. Starri tyllir sér á vegrið og hristir af sér flærnar áður en hann tekur aftur á flug. Litir og orð hrynja úr fótsporum listamannsins niður grýtta hlíðina að hátindi næstu merkingar. Hinni innantómu endurtekningu sem er samt svo magnþrungin, æsispennandi og eftirsóknarverð þrátt fyrir allt tilgangsleysið. Markmiðið helgar tilganginn. Blóðrauð hálsrista á storknuðu hrauni, listasprengja í dauðans djúpu sprungum, útfararsálmur genginna goða.“

Bjarni hefur haldið fjölda sýninga bæði hér á landi og erlendis. Hann nam við San Francisco Art Institute á árunum 1990 til 1996 og lauk þar bæði BFA- og MFA-námi í myndlist með áherslu á málverk. Auk þess að starfa og sýna sem myndlistarmaður hefur Bjarni kennt við alla helstu listaskóla landsins og staðið fyrir námskeiðahaldi á eigin vegum um árabil. Þá hefur hann verið í hinum ýmsu nefndum og stjórnum í tengslum við myndlist síðustu áratugi, að því er fram kemur í tilkynningu.