Étur lauf Birkikemban fer afar illa með laufblöðin á birkitrjám.
Étur lauf Birkikemban fer afar illa með laufblöðin á birkitrjám. — Morgunblaðið/Ómar
Steinar Ingi Kolbeins steinar@mbl.is Rannsóknarsvið Skógræktarinnar óskar nú eftir aðstoð almennings við að líta eftir skaðvöldum á trjám og runnum um allt land. Þá er sérstaklega verið að líta eftir uppétnum laufum á trjám.

Steinar Ingi Kolbeins

steinar@mbl.is

Rannsóknarsvið Skógræktarinnar óskar nú eftir aðstoð almennings við að líta eftir skaðvöldum á trjám og runnum um allt land. Þá er sérstaklega verið að líta eftir uppétnum laufum á trjám. Brynja Hrafnkelsdóttir, sérfræðingur hjá Skógræktinni, segir birkikembu, birkiþélu og asparglyttu vera helstu skaðvaldana. Brynja segir að asparglyttan sé skæðust nú í ár, en hún leggst á aspir og víðitegundir.

„Asparglyttan étur yfir allt sumarið, bæði fullorðna dýrið og lirfurnar. Hún fer verr með víðitegundir og eins og staðan er núna er mikið af gulvíði að drepast vegna glyttunnar. Ég hef áhyggjur af þessu eins og staðan er núna,“ segir Brynja. Brynja segir Skógræktina óska eftir aðstoð almennings vegna þess að ómögulegt sé fyrir starfsfólk að fara um allt landið sjálf og fylgjast með þessu. ´

„Við höfum mest fengið sent frá samstarfsaðilum í skógrækt, en jú eitthvað frá almenningi.“ Upplýsingarnar eru síðan nýttar til rannsóknarstarfa og við vöktun á stöðunni. „Það er gott til framtíðar að skrásetja vel hvaða tegundir valda mestum skaða. Ég væri til í að svona gögn væru til frá því áður en ég hóf störf hér,“ segir Brynja. Hún bendir einnig á að með skrásetningu og söfnun gagna sé síðan hægt að bera saman við hitatölur til dæmis.

Brynja segist ávallt svara almenningi fái hún spurningar og reyni hún að gefa eins góð ráð og unnt er. „Oft vill fólk eitra, en það er eitthvað sem ég mæli ekkert sérstaklega með, nema þá að um sé að ræða eitthvert sparitré í garðinum hjá fólki.“ Brynja segir ekki gáfulegt að úða eitri á stórt svæði eða heilan skóg, afleiðingarnar af slíkri aðgerð gætu verið verri en staðan sjálf. „Við viljum alltaf að kerfið nái jafnvægi frekar,“ segir Brynja.

Brynja biður fólk um að hafa augun opin fyrir étnum laufum og óskar eftir því að sendar séu myndir með. Hún segir afar erfitt að greina eftir lýsingum fólks. Ábendingar má senda á brynja@skogur.is en einnig má finna upplýsingar á heimasíðu Skógræktarinnar, skogur.is.