Gunnlaugur Einar Þorsteinsson fæddist í Ólafsfirði 6. apríl 1946. Hann lést á Hornbrekku í Ólafsfirði 28. júní 2021.

Foreldrar hans voru Þorsteinn Mikael Einarsson, f. 23. ágúst 1924, d. 31. desember 2006 og Anna Gunnlaugsdóttir, f. 15. mars 1926, d. 29. nóvember 2011. Gunnlaugur Einar var elstur 6 systkina. Þau eru Sigursveinn Hilmar Þorsteinsson, f. 2. mars 1948, Guðbjörg Þorsteinsdóttir, f. 17. desember 1951, Ingibjörg Þorsteinsdóttir, f. 7. maí 1954, Þórhildur Þorsteinsdóttir, f. 13. mars 1958 og Elín Rún Þorsteinsdóttir, f. 12. desember 1969.

Þann 3. júlí 1982 kvæntist Gunnlaugur Einar Jónasínu Dómhildi Karlsdóttur frá Klaufabrekknakoti, f. 27. júní 1957. Faðir hennar var Karl Karlsson, f. 30. október 1912, d. 19. september 2009 og móðir hennar Lilja Hallgrímsdóttir, f. 5. ágúst 1916, d. 11. febrúar 2014. Systkini Jónasínu Dómhildar eru Jónasína Dómhildur, f. 30. maí 1946, d. 18. nóvember 1951 og Halla Soffía, f. 4. júní 1950.

Börn Gunnlaugs og Dómhildar eru: Anna Lilja Gunnlaugsdóttir, f. 23. desember 1978, börn hennar Rut Marín, f. 10. mars 2006 og Gunnlaugur Orri, f. 9. ágúst 2009. Þorsteinn Mikael Gunnlaugsson, f. 26. mars 1983, unnusta hans Halldóra Eydís Jónsdóttir, f. 8. ágúst 1984. Helgi Pétur Gunnlaugsson, f. 27. september 1990, sambýliskona hans Jóhanna Sara Jakobsdóttir, f. 4. september 1993.

Gunnlaugur fór á sjó um 20 ára gamall og stundaði sjómennsku þar til hann flutti í Klaufabrekknakot 1977 og gerðist bóndi.

Útför hans fer fram í dag, 10. júlí 2021, frá Urðakirkju í Svarfaðardal og hefst hún klukkan 13.30.

Streymt verður frá útförinni. Stytt slóð á streymið:

https://tinyurl.com/rnj6pkvk

Virkan hlekk á streymið má finna á:

https://mbl.is/andlat

Í dag skein sól á sundin blá

og seiddi þá,

er sæinn þrá.

Og skipið lagði landi frá.

Hvað mundi fremur farmann gleðja?

Það syrtir að, er sumir kveðja.

Ég horfi ein á eftir þér,

og skipið ber

þig burt frá mér.

Ég horfi ein við ystu sker,

því hugur minn er hjá þér bundinn,

og löng er nótt við lokuð sundin.

En ég skal biðja og bíða þín,

uns nóttin dvín

og dagur skín.

Þó aldrei rætist óskin mín,

til hinsta dags ég hrópa og kalla,

svo heyrast skal um heima alla.

(Davíð Stefánsson)

Það eru einhvern veginn ekki til nægilega stór og sterkt orð til að fanga hug okkar til þín, elsku pabbi. Hetjan okkar allra, svalastur og bestur, að okkar mati manna mestur. Frábær fyrirmynd og ljúfmennska þín okkar leiðarljós. Hjartans bestu þakkir fyrir allt, kærleikinn, hlýjuna og stóra faðminn. Alltaf til staðar, kletturinn okkar í lífsins ólgusjó. Þín er svo óskaplega sárt saknað. Elskum þig og dáum meir en orð fá lýst, ljúfi pabbi. Þig munum við í hjartanu geyma og grallaraglott þitt í huga okkar sveima.

Anna, Þorsteinn og Helgi.