[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Knattspyrnumaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson hefur verið gerður að varafyrirliða þýska B-deildarfélagsins Schalke. Þetta tilkynnti félagið á heimasíðu sinni í gærmorgun.

*Knattspyrnumaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson hefur verið gerður að varafyrirliða þýska B-deildarfélagsins Schalke. Þetta tilkynnti félagið á heimasíðu sinni í gærmorgun. Guðlaugur Victor gekk til liðs við þýska félagið í sumar frá Darmstadt en miðjumaðurinn Danny Latza verður fyrirliði félagsins á komandi tímabili.

*Knattspyrnustjórinn Zinedine Zidane mun ekki taka við félagsliði á næstunni en hann lét af störfum sem þjálfari Real Madrid síðasta vor. Franski miðillinn L'Equipe greinir frá því að Zidane ætli sér að taka við franska landsliðinu þegar Didier Deschamps lætur af störfum. Deschamps mun að öllum líkindum láta af störfum hjá franska knattspyrnusambandinu eftir HM í Katar á næsta ári.

* Louis van Gaal tekur væntanlega við starfi landsliðsþjálfara Hollands í fótbolta í þriðja skipti eftir helgi. De Telegraaf greinir frá því að van Gaal hafi fundað með forráðamönnum hollenska knattspyrnusambandsins í vikunni og að gengið verði frá ráðningunni á næstu dögum. Van Gaal stýrði hollenska landsliðinu fyrst frá 2000 til 2002 og síðan 2012 til 2014. Undir hans stjórn urðu Hollendingar í þriðja sæti á HM 2014.

*Stúlknalandslið Íslands í knattspyrnu, skipað leikmönnum 16 ára og yngri, vann í gær b-lið Dana 1:0 á opna Norðurlandamótinu sem nú stendur yfir í Abenraa í Danmörku . Ísabella Sara Tryggvadóttir skoraði sigurmarkið á 25. mínútu leiksins með skalla eftir fyrirgjöf Vigdísar Lilju Kristjánsdóttur . Ísland gerði jafntefli við Svíþjóð í fyrsta leik mótsins, 1:1, og mætir A-liði Dana í síðasta leiknum á mánudaginn kemur.

*Íslandsmeistarinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir er í fínum málum eftir tvo hringi á Aramco Team Series-mótinu á Evrópumótaröðinni í golfi. Guðrún lék annan hringinn í gær á 74 höggum, einu höggi yfir pari. Hún lék fyrsta hringinn á 71 höggi og er því á samanlagt einu höggi undir pari og í 27. sæti.

* Guðmundur Ágúst Kristjánsson komst af öryggi í gegnum niðurskurðinn á Le Vaudreuil Golf Challenge-mótinu á Áskorendamótaröð Evrópu í gær. Leikið er í Frakklandi.

Hann lék fyrstu tvo hringina á 69 höggum, tveimur höggum undir pari, og er því á samanlagt fjórum höggum undir pari þegar mótið er hálfnað.

Á holunum 18 í gær fékk Guðmundur fimm fugla og þrjá skolla. Hann er í 15. sæti ásamt nokkrum öðrum kylfingum.