Hundraða milljóna króna kostnaðarauki dugar ekki til að borgin staldri við

Borgarstjóri gumar af því á félagsmiðli að borgin hafi keypt „hjálpartækjaverslun“ til að hýsa leikskóla við Kleppsveg. „Húsnæði Adams og Evu er nú okkar!“ tísti borgarstjóri hróðugur. En hvernig liggur í málinu, þessu leikskólamáli og öðru óþægilega svipuðu sem afgreitt var á sama borgarráðsfundi fyrir rúmri viku?

Byrjum á hinu málinu, leikskólanum væntanlega sem ekki hýsti „hjálpartækjaverslun“ áður en borgarstjóri komst yfir húsnæðið. Þar er um það að ræða að borgin gerði kostnaðaráætlun vegna Safamýrar 5 og var málið á grundvelli þeirrar kostnaðaráætlunar afgreitt áfram í borgarráði í janúar síðastliðnum. Þessi kostnaðaráætlun, sem kölluð er frumkostnaðaráætlun eða kostnaðaráætlun I, gerði ráð fyrir kostnaði upp á 420 milljónir króna og voru efri vikmörk hennar um hálfur milljarður króna.

Í liðinni viku var málið tekið fyrir aftur í borgarráði og þá var kynnt ný kostnaðaráætlun, kostnaðaráætlun II, og þá hafði hún hækkað í 752 milljónir króna, en óvissan eftir sem áður sögð 15%. Þetta þýðir að hækkun frá fyrstu kostnaðaráætlun, þeirri sem ákvörðun um að ráðast í verkefnið byggðist í raun á, er 79%, sem þýðir með öðrum orðum að sú kostnaðaráætlun var algerlega ónothæf. Meirihlutinn í borgarstjórn lætur þetta ekki hafa áhrif á sig, enda kominn í slíkar ógöngur með leikskólarými eftir langvarandi vanrækslu að hann telur sig eflaust ekki geta hætt við þó að áætlanir reynist haldlausar og kostnaður fari úr böndum. Borgarráð samþykkti málið því í liðinni viku þrátt fyrir framúrkeyrslu upp á 332 milljónir áður en hafist er handa við verkið.

Lítum þá á fyrra leikskólamálið, „hjálpartækjaverslun“ borgarstjóra við Kleppsveg. Þar var, líkt og í hinu málinu og um svipað leyti, gerð kostnaðaráætlun áður en ákveðið var að halda áfram með málið. Hljóðaði hún upp á 623 milljónir króna og á þeirri forsendu hélt málið áfram. Á borgarráðsfundi í liðinni viku var svo kynnt ný kostnaðaráætlun og hljóðaði hún þá upp á 989 milljónir króna og hafði því hækkað um 59%. Kostnaðaráætlunin sem ákvörðunin var í raun byggð á var því marklaus, rétt eins og í tilviki væntanlegs leikskóla í Safamýri, enda framkvæmdir í húsnæðinu hafnar þegar þetta var rætt í borgarráði. Þá er nauðsynlegt að hafa í huga að við þennan tæpa milljarð í endurbætur leggst kostnaður við kaup á húsnæðinu. Áætlaður heildarkostnaður að kaupverði meðtöldu er nú kominn yfir 1,4 milljarða króna fyrir leikskóla sem á að rúma 120 til 130 börn, sem þýðir að stofnkostnaður við hvert leikskólarými verður um eða yfir 11 milljónir, að því gefnu að þessi seinni kostnaðaráætlun standist.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokks hafa gert athugasemdir við þetta verklag og þá miklu framúrkeyrslu sem þegar er fyrirsjáanleg, en borgarstjóri stendur „heilshugar“ með þessum ákvörðunum og segir aðra fulltrúa meirihlutans gera það einnig.

Sú fullyrðing kemur einhverjum eflaust á óvart því að það hafa líklega ekki allir sannfærst um að meirihlutinn í heild sinni, hver og einn, hafi tapað svo gersamlega áttum þegar kemur að fjármálum borgarinnar. En það er engin ástæða til að efast um þessa fullyrðingu borgarstjóra því að enginn fulltrúi meirihlutans hefur stigið fram og lýst sig mótfallinn slíkri meðferð á almannafé. Þvert á móti, eins og sjá má af orðum Pawels Bartoszeks, borgarfulltrúa Viðreisnar, í Morgunblaðinu fyrr í vikunni. Pawel segist hafa „samúð með því þegar fólk hefur áhyggjur af kostnaði“ en hann hefur bersýnilega ekki miklar áhyggjur sjálfur af slíkum málum. Aðspurður telur hann þessa gríðarlegu skekkju í kostnaðaráætluninni sem ákvörðunin í janúar byggði á ekki vera forsendubrest og vill halda áfram með málið eins og ekkert hafi í skorist.

Þessi tvö dæmi um sóun við byggingu leikskóla hjá borginni eru því miður ekki einstök. Og það þarf ekki að koma á óvart þó að bragginn alræmdi hafi skotið upp kollinum í þessari umræðu. Hér er um það að ræða að í tveimur fyrirhuguðum leikskólum er kostnaðaráætlun þegar komin nær 700 milljónum fram úr þeim áætlunum sem borgin byggði ákvörðun sína á. Þetta er gríðarmikið fé, ekki síst fyrir borg sem komin er í algerar ógöngur með fjármál sín. Það að borgarfulltrúar meirihlutans skuli bera svo lítið skynbragð á fjármál að þeir staldri ekki einu sinni við þegar allt fer ítrekað úr böndum er verulegt áhyggjuefni fyrir skattgreiðendur í Reykjavík.