Sólin og blíðan á Norðausturlandinu síðustu vikur hefur reynst kraftmikil vítamínsprauta fyrir samfélög landsbyggðanna. Hér iðar allt af lífi og mest áberandi er sú jákvæðni og bjartsýni sem fólk býr yfir.

Sólin og blíðan á Norðausturlandinu síðustu vikur hefur reynst kraftmikil vítamínsprauta fyrir samfélög landsbyggðanna. Hér iðar allt af lífi og mest áberandi er sú jákvæðni og bjartsýni sem fólk býr yfir. Með þessu áframhaldi verðum við öll full af orku í haust og reiðubúin að mæta þeim áskorunum sem okkar bíða í kjölfar heimsfaraldurs.

Hjól atvinnulífsins eru farin að snúast og ýmis jákvæð teikn þar á lofti; hækkandi álverð, vöxtur í fiskeldi, fjárfestingar í sjávarútvegi og svona mætti áfram telja. Þrátt fyrir það eru þó ýmis tækifæri til staðar til að stuðla að aukinni framsækni atvinnulífsins og ásóknar í ný tækifæri.

Grípum tækifærin

Uppbygging eftir heimsfaraldurinn verður að eiga sér stað um land allt. Við eigum að stíga fullum fetum áfram í þeim verkefnum sem hafa jákvæð efnahags, umhverfis- og félagsleg áhrif á samfélögin utan höfuðborgarsvæðisins. Framtíð atvinnulífs á Norðausturlandi leynist í grænum tækifærum og verkefnum sem fela í sér jákvæða niðurstöðu á umhverfið og náttúruna.

Til umræðu er möguleg uppbygging á grænum iðngörðum á Bakka, Húsavík, og einnig var nýverið undirrituð viljayfirlýsing um grænan orkugarð á Reyðarfirði. Leggja þarf kraft í verkefnin svo þau verði að veruleika og því er þörf á því að móta stefnu um næstu skref í grænum tækifærum í landshlutanum. Hér er veruleg þörf á grænni nýfjárfestingu í atvinnulífinu og eru grænir iðn- eða orkugarðar einmitt verkefni sem fela í sér alvöru innspýtingu til atvinnulífisins til framtíðar.

Grænir iðngarðar fela í sér tækifæri til að stuðla að sjálfbærri auðlindanýtingu þar sem fyrirtæki á tilteknu svæði skiptast á orku og hráefnum. Úrgangur eins fyrirtækis getur reynst auðlind annars. Grænir orkugarðar miða að því að þróa nýjar lausnir í orkumálum þar sem meðal annars er leitað leiða til að hraða orkuskiptum, til dæmis með framleiðslu á rafeldsneyti eins og vetni á starfssvæðinu.

Verkefnin munu auka líkur á því að Ísland nái markmiðum sínum um losun gróðurhúsalofttegunda og endurnýtingu úrgangs.

Byggðirnar eflast

Ekki liggja einungis efnahagslegir hvatar að baki verkefnum á borð við græna iðn- og orkugarða, heldur munu verkefnin einnig reynast sem lyftistöng fyrir samfélögin á Norður- og Austurlandi til félagslegrar uppbyggingar. Væntanleg fólksfjölgun í tengslum við verkefnin mun hafa góð áhrif á sveitarfélögin. Staðsetningin er lykillinn og það er mikilvægt að tryggt sé að uppbygging á grænum iðn- og orkugörðum verði hér í landshlutanum.

Sólskinið hefur ekki einungis lyft brúninni á landsmönnum, heldur lýsir hún einnig upp þau verðmæti og tækifæri sem hér í landshlutanum leynast.

Höfundur er frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi

Höf.: Berglind Ósk Guðmundsdóttir