Óstöðvandi Framarar eru með gott forskot á toppi deildarinnar.
Óstöðvandi Framarar eru með gott forskot á toppi deildarinnar. — Morgunblaðið/Eggert
Það virðist fátt geta komið í veg fyrir að Fram fari með öruggan sigur af hólmi í 1. deild karla í fótbolta, Lengjudeildinni. Fram vann sinn tíunda sigur í ellefu leikjum er liðið heimsótti Aftureldingu og vann 2:0-sigur í gærkvöldi.

Það virðist fátt geta komið í veg fyrir að Fram fari með öruggan sigur af hólmi í 1. deild karla í fótbolta, Lengjudeildinni. Fram vann sinn tíunda sigur í ellefu leikjum er liðið heimsótti Aftureldingu og vann 2:0-sigur í gærkvöldi. Óskar Jónsson og Indriði Áki Þorláksson gerðu mörk Fram. Þar sem Grindavík og ÍBV misstigu sig jókst forskot Framara á bæði annað og þriðja sætið.

Eftir fimm sigra í röð í deildinni þurfti ÍBV að sætta sig við 0:1-tap fyrir Gróttu í Vestmannaeyjum. Axel Sigurðarson skoraði sigurmarkið á 54. mínútu og tryggði Gróttu annan sigurinn í röð.

Í Ólafsvík gengu væntanlega bæði lið svekkt af velli eftir 2:2-jafntefli. Grindavík mistókst að komast einu stigi frá ÍBV í öðru sæti og Víkingur var hársbreidd frá nauðsynlegum sigri í botnbaráttunni. Sigurður Hallsson kom Grindavík yfir áður en Emmanuel Keke og Kareem Isiaka sneru taflinu við. Grindavík átti hins vegar lokaorðið því Sigurjón Rúnarsson jafnaði í uppbótartíma. Víkingar hafa sýnt batamerki eftir að Guðjón Þórðarson tók við liðinu.

Þórsarar blésu til veislu á heimavelli gegn Þrótti og unnu 5:1-sigur. Fannar Daði Gíslason gerði tvö mörk fyrir Þór og þeir Ólafur Aron Pétursson, Ásgeir Marinó Baldvinsson og Jóhann Helgi Hannesson komust einnig á blað. Keiro Edwards-John skoraði mark Þróttar er hann jafnaði í 1:1 í fyrri hálfleik.

Þá vann Fjölnir 2:1-heimasigur á Selfossi. Ragnar Leósson og Jóhann Árni Gunnarsson gerðu mörk Fjölnis áður en Gary Martin klóraði í bakkann.