Sódavatn Gunnar B. Sigurgeirsson með drykkinn góða, sem nú er kominn í dósir og selst vel. Drykkjarvörumarkaðurinn er í sífelldri, hraðri þróun.
Sódavatn Gunnar B. Sigurgeirsson með drykkinn góða, sem nú er kominn í dósir og selst vel. Drykkjarvörumarkaðurinn er í sífelldri, hraðri þróun. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Nýjasta nýtt hjá Ölgerðinni er Egils Sódavatn í dós, en varan sem slík á sér þó langa sögu. „Sykurlausir drykkir sækja stöðugt á og eru slíkir drykkir nú orðnir um 2/3 hlutar alls drykkjarvörumarkaðarins,“ segir Gunnar B.

Nýjasta nýtt hjá Ölgerðinni er Egils Sódavatn í dós, en varan sem slík á sér þó langa sögu. „Sykurlausir drykkir sækja stöðugt á og eru slíkir drykkir nú orðnir um 2/3 hlutar alls drykkjarvörumarkaðarins,“ segir Gunnar B. Sigurgeirsson, aðstoðarforstjóri Ölgerðarinnar. „Vitund um heilsu og hollustu sykurminni og sykurlausra drykkja ræður að sjálfsögðu miklu um þessa framvindu, sem við svörum með vöruþróun og nýjungum í framleiðslu.“

Fyrstu íslensku gosdrykkjaverksmiðjurnar sem hófu starfsemi í kringum 1900 fóru strax út í framleiðslu á sódavatni. Eigandi Ölgerðarinnar, Tómas Tómasson, beið átekta og vildi ekki í samkeppni við Gísla Guðmundsson, vin sinn hjá Sanitas. Eftir að Gísli féll frá árið 1928 keypti Ölgerðin hins vegar Saftgerðina Síríus og hefur framleitt Egils Sódavatn óslitið síðan.

Nýjar umbúðir mikilvægar

Algengur misskilningur er, segir Gunnar, að sódavatn sé einungis kolsýrt vatn. Ekki megi gleyma söltum, sem gera drykkinn basískari. Sódavatn sé því ekki bara svalandi, heldur hafi það oft verið sagt gott við brjóstsviða og bakflæði. Því hefur drykkurin verið eftirsóttur meðal barnshafandi kvenna. Söltin gera sódavatnið líka hentugt í kokteila.

„Þá er sódavatnið líka vinsæll svaladrykkur, sem við í Ölgerðinni töldum mikilvægt að setja í nýjar umbúðir. Plastflöskurnar hafa verið ráðandi til þessa, en nú bætast dósirnar við,“ segir Gunnar.

Hjá Ölgerðinni telst mönnum til að á markaðinum í dag hafi sykurlausir kóladrykkir 35% hlutdeild og sykraðir slíkir 22%. Vatnsdrykkir koma þó æ sterkar inn - hjá Ölgerðinni sódavatnið og Kristall, sem fæst í sjö bragðtegundum og umbúðirnar eru af ýmsum gerðum og stærðum.

Vatnsdrykkir sprungið út í sölu

„Að vara eins og sódavatn haldist í framleiðslu og góðri sölu í um heila öld er í raun alveg einstakt. Matvörumarkaðurinn er mjög kvikur og bregðast þarf fljótt og vel við óskum neytenda, með tilliti til hollustu eða annarra þátta. Sífellt eru að koma upp ný viðhorf, en svo eru líka í þessu fastar stærðir og sígilt vörumerki. Drykkir þar sem vatnið er uppistaðan hafa alveg sprungið út í sölu á síðustu árum og sú þróun verður tæpast stöðvuð,“ segir Gunnar B. Sigurgeirsson.