Steinar Ingi Kolbeins
steinar@mbl.is
Fjallalömbin er hjólreiðahópur þriggja æskuvina sem ólust saman upp á Álftanesi. Þeir eru Magnús Orri Schram, fyrrverandi þingmaður, Rúnar Gíslason matreiðslumaður og Haukur Ómarsson fjármálastjóri. Magnús segir í samtali við Morgunblaðið að skátaflokkurinn þeirra í barnæsku hafi heitið Fjallalömbin og þaðan komi nafnið.
Þeir hafa á undanförnum fimm árum unnið að því á hverju sumri að fara kringum þrettán stærstu jökla landsins á fjallahjólum. „Við vorum búnir að vera á fjallahjólum svona til gamans, en svo fékk Haukur þessa hugmynd. Verkefni fyrir okkur að klára sem bæði hvetur mann af stað og svo er líka fínt að hafa svona ramma í kringum þetta,“ segir Magnús.
Þeir félagar eru eins og stendur að hjóla hringinn í kringum Vatnajökul. Magnús segist gera ráð fyrir því að ferðalagið muni taka fimmtán til tuttugu daga, enda um 900 kílómetra löng leið. „Við erum með trússbíl sem eltir okkur og svo sofum við bara í tjöldum eða skálum. Við gerum reyndar ráð fyrir því að verða viðskila við bílinn í svona tvo til þrjá daga á meðan við hjólum norður fyrir jökulinn. Þá erum við bara með poka og tjöld á bakinu.“
Magnús segir hópinn hafa farið margar ótrúlegar ferðir og nefnir eftirminnilega ferð í kringum Hofsjökul, sem þeir fóru í fyrra. „Ég efast um að það hafi verið gert, áður,“ segir Magnús. Hann segir þá félaga ávallt fara varlega en þó hafi þeir stundum komist í hann krappan. „Á leiðinni frá Hveravöllum í Laugarfell sunnan Hofsjökuls þarf að fara yfir 30 til 40 jökulár og við urðum að vaða þær allar með hjólin á bakinu. Vatnið nær alveg upp í nára, og svo stóð tæpt að áin hrifsaði einn okkar með sér. En þetta slapp allt.“
Spurður hvort þeir hafi ekki áhyggjur af því að ná ekki að ljúka Vatnajökulshringnum segir Magnús hlæjandi: „Jú, jú, við erum náttúrlega að nálgast fimmtugt, við gleymum því stundum.“
Magnús segir fjallahjól frábæran ferðakost ætli fólk sér að ferðast um hálendi Íslands. „Að ferðast á fjallahjóli er að mörgu leyti skemmtilegasti ferðamátinn þar. Maður fer tiltölulega hratt yfir svo er hægt að nema staðar og þá er þetta bara þú, hjólið og pokinn. Þú ert svo frjáls ferða þinna.“
Hægt er að fylgjast með ferð Fjallalambanna á Facebook-síðu hópsins, Þrettán Jöklar.