Stundum hefði verið meiri skynsemi í því að setjast aðeins niður og hugsa málið í stað þess að láta bara vaða

Mögulega er til heimur þar sem allt er öruggt og enginn meiðist nokkurn tímann. Allir lifa bara sælir við sitt og í fullkomnu öryggi. Enginn þarf að óttast neitt.

Þessi heimur er ekki til í raunveruleikanum vegna þess að lífið er allskonar. Það getur verið hættulegt og óþægilegt en við höfum lært að sætta okkur við það. Við erum ekki öll eins og það er aldrei við því að búast að allt fari á sama veg hjá öllum.

Þannig er lífið og eins illa og það hljómar þá er það hluti af frelsi að fá að taka ákvarðanir sem eru kannski ekki þær bestu. Stundum hefði verið meiri skynsemi í því að setjast aðeins niður og hugsa málið í stað þess að láta bara vaða.

Og hvað er þá til ráða? Ekki viljum við í raun að fólk sé alltaf að meiða sig og lenda í vandræðum af því það tekur rangar ákvarðanir. Er það ekki hlutverk okkar að reyna að vernda borgara og koma í veg fyrir að þeir fari sér að voða?

Svar sumra er einfaldlega að banna hættulega hluti. Við höfum gert það í áranna rás og bannað margt sem ýmsir hefðu talið eðlilegra að leyfa. Það má til dæmis ekki auglýsa sumt, jafnvel þótt allir viti að það sé til og þeim sé frjálst að kaupa það. Þetta er gert á þeim forsendum að við séum að hafa vit fyrir fólki og gæta þess að það fari sér ekki að voða.

Og það er ekki búið. Þannig komu fram hugmyndir um að halda afgreiðslutíma skemmtistaða eins og hann var í covid. Það kom í ljós að ofbeldismálum fækkaði í Reykjavík þegar allir voru farnir heim fyrir miðnætti. Væri þá ekki bara lausnin að halda því þannig? Ekki viljum við ofbeldi.

Aðrir hafa stungið upp á því að banna rafskútur eða svokölluð hopphjól eftir miðnætti um helgar. Rannsóknir hafa víst sýnt að þá eru mestar líkur á því að fólk lendi í óhappi, ekki síst þegar það er aðeins búið að fá sér í tána.

En er algjört bann á þessum tækjum lausnin? Og án þess að vilja gerast sekur um algjöran hvaðþámeð-isma er auðvelt að hugsa um ótalmargt annað sem getur sett fólk í hættu. Hvað með reiðhjól, fólk án endurskinsmerkja, nú eða bara bíla? Að ógleymdu áfengi. Við getum ekki með góðu móti bannað allt sem getur komið fólki í vandræði.

Hugsanlega þurfum við aðeins að þroska viðhorf okkar til þessara hjóla og notkunar þeirra. Horfast í augu við að það þarf að umgangast þau af meiri varúð en hefur verið gert, en við getum líka horft til þess að rafskútur eru frábær viðbót í samgöngumálum sem hafa leitt til færri bílferða og gætt borgina lífi. Þær gera það líka að verkum að það þurfa ekki allir að hanga í bænum langt fram eftir nóttu að bíða eftir leigubíl.

Ég held að leiðin sé að við tökum ábyrgð á því sem við gerum. Treystum fólki til að taka að jafnaði skynsamlegar ákvarðanir í stað þess að gera einhverja bölvaða vitleysu. Jafnvel þó að við vitum innst inni að fólk hefur alveg sérstaka hæfileika til að koma sér í einhvers konar vesen. Það er nefnilega líka hluti af lífinu.

Þegar allt kemur til alls er frelsi og traust venjulega líklegra til árangurs en boð og bönn þegar kemur að því að hafa áhrif á það hvernig fólk hagar lífi sínu og gera lífið ef til vill aðeins betra.