Hver og einn er nafli síns eigin alheims þó manni hætti til að halda að maður sé nafli allra annarra líka.

Með því skemmtilegra sem ég geri er að sitja einhvers staðar, t.d. á kaffihúsi, og fylgjast með fólki ganga fram hjá vitandi að það er heldur ólíklegt að það muni koma auga á forvitni mína. Það er svolítið svipað og að horfa á bíómynd, nema miklu áhugaverðara því um er að ræða alvöru fólk sem hvert hefur sína sögu og bagga að bera. Það er manni alls ekki eðlislægt að setja sig í spor alls þess fólks sem maður sér því þá neyðist maður til að íhuga hversu litlu máli maður skiptir í stóra samhenginu. Það eru allir að lifa sínu lífi alveg eins og ég og flestir þeirra vita ekki hver ég er, hvað þá að þeir séu að pæla í mér og mínum sigrum og töpum.

En þetta getur líka verið manni góð áminning um að taka sjálfan sig ekki of alvarlega, um að það sé í raun enginn að hugsa út í hvað ég sagði asnalegt í gær eða hverju ég klúðraði í síðustu viku. Hver og einn er nafli síns eigin alheims þó manni hætti til að halda að maður sé nafli allra annarra líka.

Í gegnum tíðina hef ég glímt mikið við áhyggjur af því hvað öðrum finnst um mig og hef ég þess vegna reynt að stjórna áliti annarra á mér. Það endar oftast í niðurrifi og jafnvel sjálfshatri. Á handboltavellinum hef ég fundið fyrir því hvernig skömmin hellist yfir mig þegar ég geri mistök og hugsanirnar sem fylgja snúast oftast um hvað öllum finnst ég örugglega ömurlegur og þar fram eftir götunum. Það verður til einhver rödd innra með manni sem reynir að giska á hvernig aðrir muni hugsa til manns. Og vá hvað röddin er harður gagnrýnandi. En hún hefur auðvitað rangt fyrir sér. Það er nánast enginn að pæla í þér og hverjum er ekki sama þó þeir séu að því? Það er frelsandi tilhugsun.